Category: „Málvillur“

skíða, skauta, funda

Fjölmargar íslenskar sagnir eru leiddar af nafnorðum án nokk­urs viðskeytis — nafnháttarendingunni -a bara bætt við nafnorðsrót­ina. Margar þessara sagna eru gamlar, en nýjar eru sífellt að bætast við — og fá misjafnar viðtökur. Meðal þeirra sem hafa breiðst út á síðustu áratugum eru skauta í merking­unni ʻrenna sér á skautumʼ, skíða í merk­ing­unni ʻrenna sér / ganga á skíð­umʼ og funda í merk­ing­unni ʻhalda fundʼ. Sögn­in skíða virðist vera rúm­lega 50 ára gömul í málinu — í sum­um elstu dæm­unum um hana á tímarit.is er hún höfð innan gæsalappa sem sýnir að hún hefur verið ný og jafnvel þótt ástæða til að afsaka notkun hennar. Sögnin funda er eitthvað eldri, lík­lega rúm­lega 60 ára gömul. Sögnin skauta er aftur á móti gömul í mál­inu í merk­ingunni ʻbera skautʼ en í merk­ingunni ʻrenna sér á skaut­umʼ er hún sennilega á svip­uð­um aldri og hinar tvær.

Þessar sagnir koma í stað orðasambanda með nafnorði eins og merkingarskýringarnar sýna. Margir málvönd­un­ar­menn hafa einmitt lagt áherslu á að íslenska sé sagna­mál — noti sagnir í stað sambanda með nafnorðum eins og gert sé í ensku sem sé nafnorðamál. Nú hef ég reyndar aldrei séð nein rök fyrir því að íslenska og enska séu ólík­ tungumál hvað þetta varðar — engar tölur sem bendi til þess að hlut­fallsleg tíðni sagna í texta sé hærri í íslensku en ensku. Þessi stað­hæfing virðist eingöngu byggjast á til­finn­ingu og er aðeins studd með einstöku dæmum, oftast þeim sömu — ég veit ekki hversu oft ég hef séð nefnt að í stað þess að gera eða framkvæma rannsókn eða könnun eigi að tala um að rann­saka eða kanna.

Út frá þessu mætti ætla að sögnum eins og funda, skíða og skauta yrði tekið fagnandi. En því er aldeilis ekki að heilsa. Árni Böðvarsson sagði að funda væri „ofnotað orð“ sem sumum fyndist mega fara „alveg burtu úr málinu“,og í þætti Gísla Jóns­sonar um íslenskt mál í Morg­un­blaðinu var marg­oft am­ast við þessum sögnum — þær sagðar vera „lág­kúru­legar“, „snaut­legar“, „barna­leg­­ar“, „ómynd“, „fá­tækt­arlegar“, „flatn­eskja“, „barnamáls­leg­ar“, „bjálfa­mál“, „lág­kúru­sögn“, „flat­­sagnir“, bera vott um „mál­fátækt“ og vera vinsælar „af þeim sem minnst­an hafa máls­metn­að og dauf­asta til­finningu“. Og Gísli er sann­ar­lega ekki einn um að hafa haft ímugust á þessum sögnum.

Það er vissulega rétt að orð­myndun af þessu tagi er mjög al­geng í máli barna, ekki síst í leikjum — sagnir eins og kubba, leira, perla og margar fleiri eru alþekktar, og þegar ég var strákur var ég oft að leika mér með þjöl og þjala. En þetta er samt vitanlega fullgild orðmyndun sem á sér fjölda hlið­stæðna í máli fullorðinna og mér er hulin ráð­gáta hvað er svona vont við umræddar sagnir. Þannig virðist funda alveg sambærileg við þinga sem talað er um með vel­þókn­un, og skíða og skauta virðast hliðstæðar við hjóla. Nán­ast um leið og nafnorðið sími var tekið upp kom sögnin síma fram og var mjög mikið notuð lengi, þótt hún sé nú nánast horfin úr málinu. Svo mætti lengi telja.

Þessar sagnir hafa skýra og augljósa merkingu og eru mun liprari en orða­sam­böndin sem þær leysa af hólmi. Myndun sagna af nafn­orð­um á þennan hátt á sér langa hefð og ótal fordæmi í málinu. Ég get ekki séð neitt sem skýrir andstöðu við þess­ar sagnir ann­að en að þær eru nýlegar — og það tekur tíma að venjast nýj­ungum í máli. Reyndar hef ég ekki séð amast við áðurnefndum sögnum nú í nokkurn tíma, sem gæti bent til þess að þær hafi verið teknar í sátt. En í staðinn er fólk farið að hnýta í aðrar nýjar sagnir sem eru mynd­aðar á þennan hátt.

Slík orðmyndun er nefnilega mjög frjó í málinu — sem dæmi má nefna sagnirnar hurða (ʻskemma bíl með því að reka hurð á öðrum bíl í hannʼ), lykla (ʻrispa lakk á bíl með lykliʼ), tjóna (ʻskemma bíl, lenda í tjóniʼ) og tanka (ʻsetja eldsneyti á bíl, fylla á tankinnʼ). Þessar sagnir, a.m.k. hurða og lykla, eru reyndar ekki jafn gagnsæjar og þær sem áður voru nefnd­ar. Gísli Jónsson kallaði tjóna „flatneskjusögn“ og sagði „ekki þörf á svo kauðalegu nýyrði“ sem tjónaður. Stund­um er amast við þessum sögnum á þeim for­send­um að þær séu myndaðar með hliðsjón af enskum sögnum, en hráefnið er ís­lenskt og orð­mynd­unin líka þótt fyrirmyndin kunni að vera erlend, og „ekki er minna um það vert að þau eru ekki búin til af fínni orðanefnd heldur hafa þau sprottið upp úti á meðal almennings“ segir Anna Sigríður Þráins­dóttir.

Óhjákvæmilegt annað en

Sambandið annað en er iðulega notað með lýsingarorði til að fá fram andstæða merkingu. Við segjum það er ómögulegt annað en fallast á þetta sem er andstæðrar merkingar við það er ómögulegt að fallast á þetta. Það er hægt að nota þetta samband með fjölda lýsingarorða, en þó því aðeins að lýsingarorðið feli í sér eða taki með sér neitun af einhverju tagi, eða sé neikvætt í einhverjum skilningi. Við getum ekki sagt *það er mögulegt annað en fallast á þetta eða *það er hugsanlegt annað en fallast á þetta. Hins vegar getum við sagt það er ekki mögulegt annað en fallast á þetta, það er varla hugsanlegt annað en fallast á þetta, það er útilokað annað en fallast á þetta, það er vonlaust annað en fallast á þetta, það er fáránlegt annað en fallast á þetta o.s.frv.

Í öllum þessum dæmum neitar annað en merkingu lýsingarorðsins. Merkingin í það er ómögulegt annað en fallast á þetta er 'það er ómögulegt að fallast á þetta ekki', merkingin í það er útilokað annað en fallast á þetta er 'það er útilokað að fallast á þetta ekki', merkingin í það er fáránlegt annað en fallast á þetta er 'það er fáránlegt að fallast á þetta ekki', o.s.frv. Frá þessu er þó ein skýr undantekning. Það er sambandið óhjákvæmilegt annað en. Í venjulegu máli merkir það er óhjákvæmilegt annað en að fallast á þetta nefnilega alveg sama og það er óhjákvæmilegt að fallast á þetta annað en neitar sem sé ekki merkingunni í óhjákvæmilegt eins og það gerir í öðrum tilvikum.

Það er athyglisvert að þetta eina orð skuli skera sig þannig úr, en skýrist kannski af því að flest dæmi um sambandið neitun – lýsingarorð – annað en – gera X (t.d. ekki hugsanlegt annað en fallast á þetta, ómögulegt annað en fallast á þetta, útilokað annað en fallast á þetta) leiða til þess að X er gert (því er trúað í þessu tilviki) – neitunin og annað en upphefja hvort annað. Málnotendur virðast fella óhjákvæmilegt annað en gera X inn í þetta mynstur, þ.e. horfa á neitunarforskeytið ó- og sambandið annað en, en líta fram hjá merkingunni í -hjákvæmilegt, enda er það aldrei notað eitt og sér og er þannig séð merkingarlaust. Þetta er ekki ósvipað og með sambandið ekki ósjaldan sem oftast er notað í sömu merkingu og ósjaldan.

Svo má auðvitað spyrja hvort það standist að nota óhjákvæmilegt annað en í sömu merkingu og óhjákvæmilegt. Vissulega má halda því fram að það sé ekki „rökrétt“. En málið er ekki alltaf rökrétt, og í þessu tilviki verður að hafa í huga að um fast orðasamband er að ræða. Slík sambönd lifa að einhverju leyti sjálfstæðu lífi, þannig að merking þeirra er ekki alltaf summa eða fall af merkingu orðanna sem mynda sambandið. Þetta er auðvitað vel þekkt úr málsháttum og orðtökum, en getur líka að vissu marki gilt um margs konar önnur misjafnlega föst orðasambönd – við lærum merkingu sambandsins í heild, í stað þess að púsla henni saman úr merkingu einstakra orða þess.

Hvað sem þessu líður er ljóst að fólk sem notar sambandið óhjákvæmilegt annað en hefur það í sömu merkingu og óhjákvæmilegt, og sú notkun á sér meira en hundrað ára hefð. Sambandið kemur fyrir í prentuðum heimildum frá því í byrjun 20. aldar – á tímarit.is eru rúm 300 dæmi um það, og í Risamálheildinni á fimmta hundrað. Ég fæ ekki betur séð en í þeim öllum sé merking þess sú sem að framan greinir, þ.e. hin sama og í óhjákvæmilegt. Auðvitað er hugsanlegt að túlka sambandið bókstaflega og misskilja það, en ég held að samhengið dugi yfirleitt til að gera merkinguna ótvíræða.

Mikið af fólki

Iðulega er amast við því að talað sé um mikið af fólki og sagt að þess í stað eigi að tala um margt fólk. Þetta kom t.d. margoft til umræðu í þáttum Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu, og svipaðar athugasemdir má finna í ýmsum öðrum málfarsþáttum. Í Málfarsbankanum segir: „Illa getur farið á því að nota orðasambandið mikið af einhverju um það sem er teljanlegt og eðlilegra væri að nota lýsingarorðið margur: Margir bílar (síður: „mikið af bílum“), margar flugvélar (síður: „mikið af flugvélum“). Einnig þykir mörgum sem lýsingarorðið margur fari betur með orðinu fólk: Margt fólk (síður: „mikið af fólki“).“

Orðið fólk er safnheiti og ekki til í fleirtölu frekar en t.d. sykur, mjólk, mjöl. Venjulega getur lýsingarorðið margur ekki staðið með slíkum orðum – það er ekki hægt að segja *margur sykur, *mörg mjólk, *margt mjöl eða slíkt. Þess í stað verður að segja mikið af mikið af sykri, mikið af mjólk, mikið af mjöli. Því mætti virðast sem mikið af fólki væri hliðstætt við þetta, en í athugasemdum við það samband er stundum sagt að um það gegni öðru máli vegna þess að þótt fólk sé safnheiti sé það teljanlegt, sbr. tilvitnun í Málfarsbankann hér að framan. En frá málfræðilegu sjónarmiði er það ekki rétt. Þótt fyrirbærið fólk sé vitanlega teljanlegt er orðið fólk það nefnilega ekki.

Vissulega er hægt að afmarka hóp menna, kalla hópinn fólk og telja einstaklingana í hópnum, sem ekki er hægt í sykri, mjólk og mjöli. En hins vegar er fólk ekki teljanlegt orð í þeirri merkingu að hægt sé að hafa töluorð með því – það er ekki hægt að segja *eitt fólk, *tvö/tvennt fólk o.s.frv. (þótt hugsanlega sé það að breytast).  Hér má líka benda á orðið grjót sem er safnheiti þar sem einingarnar, steinarnir, eru sæmilega stórar og vel aðgreindar – eins og er með fólk. Það er hægt að safna steinum í hrúgu, kalla hrúguna grjót og telja einstaklingana í henni. Það er samt ekki hægt að tala um *eitt grjót, *tvö/tvennt grjót, frekar en fólk – en öfugt við fólk er ekki hægt að tala um *margt grjót, heldur verður að segja mikið af grjóti.

Það er ljóst að sambandið margt fólk er mun eldra en mikið af fólki – það fyrrnefnda kemur fyrir í fornu máli en elstu dæmin um hið síðarnefnda eru frá lokum 19. aldar, og notkun þess virðist hafa aukist verulega á síðustu áratugum. Ástæðan fyrir því að sambandið margt fólk kemur upp er sú að þrátt fyrir að orðið fólk sé málfræðileg eintala er það merkingarleg fleirtala, og við hugsum um fólk sem mismunandi einstaklinga – sem við gerum ekki um steina í grjóthrúgu. Þess vegna finnst okkur eðlilegt að tala um margt fólk, og þetta er það sem raunverulega er vísað til þegar sagt er að fólk sé teljanlegt. En ef horft er á þetta frá hreinu málfræðilegu sjónarmiði er í raun órökrétt málnotkun að tala um margt fólk.

Miðað við eðli orðsins fólk og hegðun sambærilegra orða er mikið af fólki í raun það sem við væri að búast. Það væri því fráleitt að kalla það samband rangt – enda er það svo sem yfirleitt ekki gert, heldur talið „síðra“ en margt fólk. En þótt það samband sé strangt tekið órökrétt væri auðvitað jafnfráleitt að amast við því vegna þess hvað það á sér langa hefð. Þetta eru tvær aðferðir til að orða sömu merkingu, og engin ástæða til að gera upp á milli þeirra. Málið er ekki alltaf rökrétt – og á ekki að vera það.

Ekki ósjaldan

Stundum er amast við því að sambandið ekki ósjaldan sé látið merkja 'alloft' eins og það gerir oftastnær. Mörgum finnst það órökrétt, því að ó‑ sé neitunarforskeyti og ósjaldan merki 'oft' – ekki ósjaldan hljóti þá að merkja 'sjaldan', því að neitanirnar, ekki og ó‑, vegi hvor aðra upp. En það er reyndar alls ekki alltaf svo að forskeytið ó‑ neiti merkingu stofnsins sem það tengist. Iðulega merkir það miklu fremur 'slæmur, vondur'; ósjór er 'vondur sjór', óvani 'vondur vani', óbragð 'vont bragð', o.s.frv. Ef stofninn er sjálfur neikvæðrar merkingar getur svo farið að u.þ.b. sama merking fáist, hvort sem ó‑ er notað eða ekki; læti og ólæti eru nokkuð svipuð, og sömuleiðis þefur og óþefur.

En þótt forskeytið ó‑ hafi alls ekki alltaf beina neitunarmerkingu feljur það sennilega yfirleitt eitthvað neikvætt í sér. Það er þó nokkuð greinilegt að ó‑ í ósjaldan er neitandi merkingar, og ósjaldan eitt sér er andstæðrar merkingar við sjaldan. Það má því halda því fram að það sé „órökrétt“ að láta ekki ósjaldan merkja það sama. En því fer fjarri að tungumálið sé alltaf „rökrétt“, og það er ekki hægt að líta fram hjá því að það er gömul og mjög rík málvenja fyrir því að ekki ósjaldan merki 'alloft'. Í stað þess að neitanirnar vegi hvor aðra upp má segja að þær leggist saman.

Það er alþekkt að merking samsettra orða er sjaldnast bara summa af merkingu samsetningarliðanna – við þurfum að læra merkingu samsetningarinnar sérstaklega og í orðum sem virðast hliðstæð að gerð geta tengsl liðanna verið með ýmsu móti. Orðið hús birtist t.d. í fjölmörgum ólíkum samsetningum. Þannig vísar timburhús til efnis hússins, einingahús fremur til byggingaraðferðar, íbúðarhús til nýtingar, fjölbýlishús til skipulags, eldhús og þvottahús eru ekki einu sinni hús, heldur herbergi – að ekki sé talað um gleraugnahús og nálahús. Þetta lærum við smátt og smátt, á máltökuskeiði eða síðar, og það vefst ekkert fyrir okkur.

Meginreglan er hins vegar sú að merking setningarliða og heilla setninga sé leidd af merkingu einstakra orða. Það er í raun frumforsenda tungumálsins, veldur því að hægt er að læra það – það er auðvelt að ímynda sér hversu óyfirstíganlegt viðfangsefni það væri ef við þyrftum að læra merkingu allra setninga málsins sérstaklega. En þótt þetta sé meginreglan eru samt ótal dæmi um að bæði setningarliðir og heilu setningarnar hafi merkingu sem þarf að læra sérstaklega en er ekki að öllu leyti fyrirsegjanleg út frá merkingu einstakra orða. Þetta eru einkum hvers kyns orðtök og málshættir, en einnig ýmis föst orðasambönd af öðru tagi. Eitt slíkt samband er ekki ósjaldan.

Elsta dæmi um ekki ósjaldan í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá því um 1800, og á tímarit.is má finna hátt í 2500 dæmi um sambandið ekki/eigi ósjaldan, allt frá miðri 19. öld til dagsins í dag. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á merkingu dæmanna, en þó leikur enginn vafi á því að í langflestum þeirra merkir sambandið 'alloft' en ekki 'sjaldan'. Þetta er því grunnmerking sambandsins sem fráleitt væri að hafna. Auðvitað má segja að hægt sé að misskilja það – en sama gildir þá um ótal orðtök og málshætti sem ekki á að túlka bókstaflega. Samhengið sker venjulega úr um merkinguna.

Læks eða lækjar?

Eitt þeirra atriða sem helst eru á reiki í beygingu íslenskra orða er eignarfall eintölu sterkbeygðra karlkynsorða. Þar er frá fornu fari um tvær endingar að ræða, ‑s, eins og í hests, akurs, og ‑ar, eins og í matar, staðar. Sum orð taka eingöngu aðra endinguna og hafa alltaf gert, önnur geta tekið hvora endinguna sem er, og enn önnur hafa alveg skipt um flokk, og taka nú alltaf aðra endingu en í fornmáli. En færsla orða milli flokka að þessu leyti er ekki ný bóla; þegar í fornmáli hafði fjöldi orða tvímyndir í eignarfalli, eins og veggs og veggjar, beðs og beðjar, garðs og garðar, vegs og vegar o.fl.

Í nútímamáli virðist vera nokkuð sterk tilhneiging til að setja ‑s í stað ‑ar í mörgum nafnorðum. Orðið vefur var venjulega vefjar í eignarfalli þótt vefs kæmi einnig fyrir, og sú mynd er yfirleitt notuð í nýju merkingunni sem orðið bætti við sig þegar það gekk í endurnýjun lífdaga fyrir aldarfjórðungi. Myndir eins og tugs í stað tugar eru mjög algengar, og einnig kemur fyrir staðs í stað staðar, mökks í stað makkar, þátts í stað þáttar, læks í stað lækjar, og fjölmörg fleiri. Í raun sýnist mér að hægt sé að finna dæmi um -s-eignarfall í stað -ar á stórum hluta þeirra sterku karlkynsorða þar sem stofninn endar á einu samhljóði, og margar þeirra mynda koma fyrir þegar á 19. öld eða fyrr.

Þetta er í sjálfu sér skiljanleg tilhneiging. Meirihluti sterkra karlkynsnafnorða endar frá fornu fari á ‑s í eignarfalli, og ekki skrítið að sá sægur dragi fleiri til sín. En annað gæti líka komið til; ‑s er nefnilega frá merkingarlegu sjónarmiði miklu betri eignarfallsending en -ar, því að hún getur ekki táknað neitt annað en eignarfall eintölu í karlkyni eða hvorugkyni. Aftur á móti er ‑ar margræð ending, getur einnig táknað nefnifall fleirtölu í karlkyni, eins og í hestar, strákar, pennar,  og nefnifall og þolfall fleirtölu í kvenkyni, eins og í skálar, vélar. Það má því hugsanlega halda því fram að með því að auka veg ‑s‑endingarinnar aukist skýrleiki málsins.

Reyndar haga sum karlmannsnöfn sér þveröfugt að þessu leyti, því að í þeim sækir -ar-endingin á. Haraldar og Höskuldar eru nú mun algengari myndir en eldri myndirnar Haralds og Höskulds, og í mörgum öðrum nöfnum sækir -ar-ending á – iðulega er t.d. sagt Ágústar og Þórhallar í stað Ágústs og Þórhalls áður, svo að dæmi séu tekin. Stofn þeirra nafna sem hafa tilhneigingu til að fá ‑ar‑endingu endar á samhljóðaklasa, þ.e. fleiri en einu samhljóði; og þegar eignarfalls‑s‑ið bætist við eru þar komin a.m.k. þrjú samhljóð saman. Slíkir samhljóðaklasar geta verið strembnir í framburði, og ein leið til að komast fram hjá þeim erfiðleikum er að losa sig við eitt samhljóðið með því að skipta um endingu; setja ‑ar í stað ‑s. Vegna þess að mannanöfn eru sjaldan notuð í fleirtölu er -ar-endingin tæpast tvíræð í þeim.

Vitaskuld má segja að eðlilegt og æskilegt sé að halda sig við hefð í beygingu orða, og ég skil vel að fólki bregði við þegar það heyrir eða sér aðra eignarfallsmynd en það er vant. Hins vegar fæ ég ekki séð að þessar breytingar séu ýkja alvarlegar. Fjöldi orða hefur hvort eð er skipt um beygingarflokk, og slíkir smámunur gera forna texta ekki illskiljanlega. Hér er ekki heldur um það að ræða að nein beyging hverfi úr málinu; bæði ‑s‑ og ‑ar‑endingarnar halda velli, þótt þær séu ekki á alveg sömu orðum og áður. Þessar breytingar minnka því ekki fjölbreytni málsins á neinn hátt, að því er ég best fæ séð. Ég sé því enga ástæðu til að berjast gegn þeim af miklum krafti.

Sjálfs sín(s) herra

Í Málfarsbankanum segir: ­­„Rétt er að segja að einhver sé sjálfs sín herra en ekki „sjálfs síns herra“.“ Báðar myndirnar, sín og síns, eru vitanlega fullgildar fornafnsmyndir. Sú síðarnefnda er eignarfall eintölu í karlkyni og hvorugkyni af eignarfornafninu sinn, en sú fyrrnefnda getur bæði verið eignarfall afturbeygða fornafnsins sig og nefnifall eintölu í kvenkyni og nefnifall og þolfall fleirtölu í hvorugkyni af sinn. Vandinn er sá að hvorugt á við í sambandinu sjálfs sín(s) herra. Þar mætti búast við eignarfornafni sem stæði með herra, en það ætti þá að vera í sama kyni, tölu og falli, þ.e. karlkyni, eintölu og nefnifalli, og vera *sjálfs sinn herra – og það gengur ekki.

Það mætti líka búast við að hægt væri að sleppa sjálfs og láta sín(s) standa eftir – en það er hvorki hægt að segja *hann er sín herra né *hann er síns herra. En hvað er þá sín(s)? Í fornu máli var eignarfornafnið iðulega hliðstætt nafnorðinu sem það á við – stendur í sama kyni, tölu og falli. Þetta samband eignarfornafns og nafnorðs tók síðan með sér sjálfur í eignarfalli, en kyn og tala á sjálfur réðst af undanfaranum, þ.e. orðinu sem sjálfur vísaði til. Í Snorra-Eddu segir: „stjórnari himintunglanna, sá er stilla mundi gang þeirra að vilja sínum sjálfs“, og í Sturlungu segir „Páll Kolbeinsson og þeir menn er með honum voru höfðu eigi ránsfé og voru á sínum kosti sjálfra“. Hér er undanfari fornafnanna sinn og sjálfur undirstrikaður.

Í þessum dæmum hegðar eignarfornafnið sér sem sé alveg eins og það gerir án sjálfur, og hægt er að fella sjálfur brott án þess að nokkuð breytist í gerð setninganna. Eins og sést í dæmunum hér á undan fara merkingarleg og setningafræðileg skil ekki saman. Setningafræðilega stendur eignarfornafnið með nafnorðinu, sambeygist því, en það myndar aftur á móti merkingarlega heild með sjálfur. Þetta er býsna flókið og því er í sjálfu sér ekkert skrítið að þetta samband taki breytingum. Þegar í fornu máli má finna ýmis dæmi um að eignarfornafnið sambeygist sjálfur í stað þess að sambeygjast nafnorðinu, en sjálfur þiggur sem fyrr kyn og tölu frá undanfara sínum. Í Sturlungu segir: „og veitti hann Þorvarði mikið lið með sjálfs síns framkvæmd og rösklegri framgöngu“ (í stað framkvæmd sinni sjálfs).

Í margar aldir virðist sambandið sjálfs síns hafa verið einhaft, og það er ekki fyrr en eftir miðja 19. öld sem fer að bera á dæmum um sjálfs sín og dæmum um sjálfs síns að fækka. Jakob Jóh. Smári segir í Íslenzkri setningafræði fyrir 100 árum: „reglan í nýísl. ritmáli er sú, að nota eignarfall af »sjálfur« í réttri tölu og eignarfall persónufornafnsins, en ekki eignarfornafn (t.d. stela úr sjálfs sín hendi, eg kom til sjálfs mín aftur, hún kom til sjálfrar sín, þeir gæta sjálfra sín, kraftur sjálfra vor o.s.frv.).“ Það er þó töluvert um að sjálfs sín og sjálfs síns vísi til undanfara í kvenkyni eða fleirtölu þar sem búast mætti við sjálfrar eða sjálfra: „Kristrún í Hamravík bar einnig höfuðið hátt fyrir sjálfs síns hönd“ (í stað sjálfrar sín); „Menn eiga að verða sjálfs síns herrar en jafnframt hjálpa þeim sem er hjálpar þörf“ (í stað sjálfra sín).

Eins og áður er nefnt getur sín(s) í samböndum eins og sjálfs sín(s) herra, sjálfs sín(s) sök o.fl. hvorki verið mynd af afturbeygða fornafninu sig né eignarfornafninu sinn. Ég sé ekki betur en það verði að líta á sjálf(s) sín sem sérstakt tvíyrt fornafn. Hvorki sjálfs sínssjálfs sín er upprunalegt, en sjálfs síns er eldra og á sér óslitna hefð allt frá fornmáli, en varla er hægt að tala um að hefðin fyrir sjálfs sín sé eldri en frá seinni hluta 19. aldar. Vissulega er sjálfs sín algengast í nútímamáli, en sjálfs síns er þó mjög algengt líka, a.m.k. í talmáli og óformlegu ritmáli. Ég sé engar forsendur fyrir því að telja það rangt.

Hönd, hendi, hend?

Einu sinni fyrir óralöngu var ég að stjórna fundi í Menntaskólanum á Akureyri og bað þá sem styddu einhverja tillögu að rétta upp hend. Í því gekk skólameistari í salinn og sagði mér að segja rétta upp hönd. Auðvitað leiðrétti ég mig samstundis enda var ég mikill málvöndunarmaður í þá daga og vildi tala „rétt“, og þessi „mistök“ hafa setið í mér síðan. Í Málfarsbankanum segir: „Það er í samræmi við upprunalega beygingu að segja: höndin á honum stóð fram úr erminni, hann tók í höndina á mér, hún rétti mér höndina, hún hélt á töskunni í hendinni. Síður: „hendin á honum stóð fram úr erminni“, „hann tók í hendina á mér“, „hún rétti mér hendina“, „hún hélt á töskunni í höndinni“.“

En orðið hönd er viðsjálsgripur. Það víkur frá því annars ófrávíkjanlega mynstri kvenkynsorða að vera eins í þolfalli og þágufalli eintölu, því að viðurkennd beyging er höndhöndhendihandar. Það er auðvitað ekki furða þótt svo afbrigðileg beyging raskist eitthvað, enda hefur það gerst á ýmsan hátt. Reyndar eru til nokkur önnur dæmi um að sterk kvenkynsorð fái endingu í þágufalli þótt þau séu endingarlaus í þolfalli – orð eins og jörð, mold, stund og fáein fleiri – en þar er um að ræða leifar eldri beygingar sem birtast einkum í föstum orðasamböndum, og endingarlausa myndin er sú venjulega og nýtur fullkominnar viðurkenningar.

Miðað við mynstur annarra kvenkynsorða væri eðlilegast að þágufallið breyttist og yrði hönd í stað hendi – beygingin er þá höndhöndhöndhandar og fellur fullkomlega að venjulegu beygingarmynstri kvenkynsorða. Þetta gerist vissulega, en ekki síður hitt, að þágufallsmyndin yfirtaki nefnifall og þolfall þannig að beygingin verði hendihendihendihandar. Á þann hátt næst einnig samræmi við þekkt beygingarmynstur, eins og heiðiheiði heiði heiðar. Þótt bæði þessi tilbrigði í beygingu orðsins séu í góðu samræmi við málkerfið nýtur hvorugt þeirra viðurkenningar eins og fram kemur í tilvitnuninni í Málfarsbankann.

En fleiri afbrigði eru til. Í knattspyrnumáli er notuð myndin hendi – það er aldrei dæmd *hönd á leikmann. Þessi mynd er líka notuð í eignarfalli – markið var dæmt af vegna hendi, alls ekki *vegna handar. Orðið beygist þá hendi hendihendihendi. Þetta afbrigði beygingarinnar fellur líka að þekktu mynstri kvenkynsorða sem enda á -i, t.d. gleði. Og svo er myndin sem nefnd var í upphafi, þolfallsmyndin hend, án endingar – orðið getur sem sé líka beygst hendhendhendhandar. Sú beyging er auðvitað í fullu samræmi við beygingu flestra sterkra kvenkynsorða.

Enn er ekki allt upptalið. Það er vel þekkt að orð beygist öðruvísi í samsetningum en ein sér, venjulega þá þannig að afbrigðileiki í beygingunni skilar sér ekki inn í samsetta orðið. Þannig er þágufall samsetninga með hönd oft eða alltaf -hönd frekar en -hendi – venjulega er sagt með sömu rithönd frekar en rithendi, og oftast er talað um að hafa eitthvað í bakhöndinni. Einnig kemur fleirtalan handir stundum fyrir, einkum í merkingunni 'rithendur'. Fleirtalan höndur var líka nokkuð algeng áður fyrr, framan af 20. öld, og ég man eftir fólki fæddu í lok 19. aldar sem notaði hana. En hún er nú líklega alveg horfin.

Hér hafa verið nefnd fjögur afbrigði beygingar orðsins hönd/hendi/hend sem öll eiga það sameiginlegt að samræmast þekktum beygingarmynstrum kvenkynsorða. Fimmta mynstrið, það sem talið er „rétt“, er það eina sem gerir það ekki. Sambærilegar breytingar á breytingu ýmissa orða eru fullkomlega viðurkenndar, t.d. brottfall -u í þágufalli ýmissa kvenkynsorða.  „Viðurkennda“ beygingin höndhönd hendihandar er leifar af fornu beygingarmynstri og var afbrigðileg þegar í fornu máli.  Er ekki tími til kominn að taka önnur mynstur í sátt?

Að dingla bjöllu

Í kverinu Gætum tungunnar sem var gefið út 1984 segir: „Að dingla merkir EKKI að hringja. Að dingla merkir að sveiflast eða vingsa. Bendum börnunum á það!“ Elstu dæmi sem ég finn á tímarit.is um að sögnin dingla sé notuð í merkingunni 'hringja bjöllu' eru frá 1979, og í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar sem kom út 1983 er ein merking dingla merkt tákni fyrir sjaldgæft mál og sögð vera 'hringja (dyra-)bjöllu' og vera „barnamál“. Það er sem sé ljóst að þessi merking hefur verið orðin nokkuð útbreidd um og upp úr 1980. Í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002 er þessi merking merkt „óforml.“ og sögð „einkum barnamál“.

En það lítur samt út fyrir að þessi notkun sé upprunnin töluvert fyrr en ritaðar heimildir benda til, og ekki endilega í barnamáli. Í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1979 birti Gísli Jónsson bréf þar sem bréfritari segir að fyrir 57 árum, þ.e. 1922, hafi hann heyrt bónda í Seyðisfirði segja „Dinglaðu fyrir mig inn í Kaupfélag“, og að loknu símtalinu sagði bóndinn „Dinglaðu af, dinglaðu af““. Samkvæmt þessu er þessi notkun dingla orðin hundrað ára gömul.

Líklegast er að dingla hafi fengið þessa merkingu vegna hljóðlíkingar við sögnina hringja og ekki síður við hljóð í dyrabjöllu sem oft er táknað ding dong. Það er líka gamalt að tala um hringingu kirkjuklukkna sem dinglumdangl. Í kvæðinu „Siguróp landvætta við fráfall Maura-Jóns“ eftir Bólu-Hjálmar, sem væntanlega er ort skömmu fyrir miðja 19. öld, segir: „Náklukkan æpti: Dinglum dangl, drepinn er Maura-Jón!“, og í fyrirlestri um hnignun íslensks skáldskapar árið 1888 talaði Hannes Hafstein um „náklukkunnar dinglum-dangl yfir dauðum og útslitnum hugmyndum“.

En e.t.v. kemur annað einnig til. Í lesendabréfi í Morgunblaðinu 1996 segir: „Það er bæði rökrétt og réttur siður að dingla bjöllu, þegar þess er þörf. Málsiðurinn er kominn frá þeim tíma, sem rafmagn var ekki notað til að hringja bjöllum, heldur sló fólk á þráð, þegar það vildi að bjallan hringdi. Þráðurinn var þá tengdur við bjölluna, þannig að þegar stríkkaði á honum, slóst bjallan við kólfinn og tilganginum var náð. Þá dinglar fólk bjöllu og lítið við því að segja, en best að svara hringingunni.“ Í þessu sambandi má benda á að enn er talað um að slá á þráðinn þótt tæknin hafi breyst, og þykir ekki athugavert.

Undanfarna áratugi hafa iðulega verið gerðar athugasemdir við þessa notkun sagnarinnar dingla í ýmsum málfarsþáttum, og oft hefur hún verið kölluð barnamál. Það er reyndar óvíst eins og hér hefur komið fram, en hvað sem því líður eru börnin sem byrjuðu á þessu löngu orðin fullorðin og nota sögnina svona enn, mörg hver að minnsta kosti, og þetta sést oftar og oftar á prenti. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er merkingin 'hringja bjöllu, einkum dyrabjöllu' gefin án athugasemda um málsnið og án þess að minnst sé á barnamál.

Enda sjálfsagt mál. Merking orða ákvarðast ekki af uppruna, af því hvað þau merktu áður fyrr, eða af því hvað einhverjir sjálfskipaðir máleigendur segja okkur að þau merki, heldur af því hvernig málsamfélag samtímans notar þau.

Ég vill

Ein sú „málvilla“ sem oftast er amast við er þegar fólk segir ég vill í stað hins hefðbundna ég vil. Þessi málbreyting virðist ekki vera ýkja gömul – einstöku dæmi má finna um hana í ritum frá fyrsta hluta 20. aldar og eldri en þau gætu verið rit- eða prentvillur. Elsta dæmið á tímarit.is er úr Framblaðinu 1933: „Þó vill ég engan þeirra.“ Í auglýsingu frá Lofti Guðmundssyni ljósmyndara í Kirkjuritinu 1936 segir: „15 Foto myndatakan er sú EINA sem ég vill mæla með — en hún fæst hjá mér.“ Í Íslendingi 1937 segir: „Ennfremur vill ég taka það fram, að svo að segja öll störf í verksmiðju minni eru unnin í ákvæðisvinnu.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1943 segir: „Ég vill fá bílstjóra, sem er aðgætinn og varkár og á aldrei neitt á hættunni.“

Dæmi um ég vill á tímarit.is eru mjög fá framan af, en fer fjölgandi upp úr 1960. Þau verða þó aldrei mörg, enda má búast við að prófarkalesarar hafi yfirleitt leiðrétt þau fyrir prentun. Elsta dæmi sem ég finn um að amast sé við þessari beygingu er í móðurmálsþætti Vísis (eftir Eirík Hrein Finnbogason) 1956 þar sem segir: „Margir kunna eigi með sögnina að vilja að fara, segja ég vill í staðinn fyrir ég vil, sem er hið rétta. Þetta, ég vill, lætur í eyrum þeirra, sem með sögnina kunna að fara, eins og sagt væri ég syngur í staðinn fyrir ég syng, ég talar í staðinn fyrir ég tala.“ Í kveri Helga Hálfdanarsonar frá 1984, Gætum tungunnar, segir: „Rétt er að segja: Ég vil, þú vilt, hann vill, hún vill, barnið vill. (Ath.: ég vill er rangt; ég vil er rétt.)“

Haraldur Bernharðsson skrifaði ítarlega grein um þessa breytingu í Íslenskt mál 2005. Hann bendir á að langflestar sagnir málsins hafa aðeins tvær mismunandi myndir í framsöguhætti eintölu nútíðar, þótt persónurnar séu þrjár. Annaðhvort eru fyrsta og þriðja persóna eins, en önnur persóna frábrugðin (ég lesþú lesthann/hún/hán les, ég ferþú ferðhann/hún/hán fer) eða önnur og þriðja persóna eru eins, en fyrsta persóna frábrugðin (ég talaþú talarhann/hún/hán talar, ég horfiþú horfirhann/hún/hán horfir). Sögnin vilja hefur aftur á móti þrjár mismunandi myndir – engar tvær persónur eru eins: ég vilþú vilthann/hún/hán vill. Það má líta á ég vill sem tilhneigingu til að fella sögnina að fyrrnefnda mynstrinu. Einnig eru dæmi um að þriðja persónan verði hann/hún/hán vil í stað vill – þar er verið að fella sögnina að hinu mynstrinu.

En kannski hangir meira á spýtunni. Gísli Jónsson skrifaði í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1981: „Þegar krakkar, og jafnvel fullorðið fólk, segir ég vill, hélt ég um sinn að málið væri svo einfalt að um hreina áhrifsbreytingu væri að ræða frá þriðju persónu: hann, hún eða það vill. En þetta reyndist ekki svo. Sannorðar, málnæmar mæður, sem vandlega hafa gaumgæft orð barna sinna, hafa tjáð mér að málið sé miklu flóknara. Hér skiptir afstaða máli, eða það sem kalla mætti horf. Barn segir ég vill, í jákvæðri merkingu og til áherslu, þetta er kröfutónn og frekjutónn: ég vill fá þetta, en sama barn segir: ég vil ekki. Ég vil ekki borða hafragraut. Og það sem meira er: Þetta fer þannig inn í þriðju persónu, að börn segja líka: Hann vill fá þetta, en hann vil þetta ekki.“

Og fleira kemur til. Í áðurnefndri grein hefur Haraldur Bernharðsson það eftir Stefáni Karlssyni handritafræðingi „að hann hafi í kringum 1950 unnið með manni sem jafnan sagði ég vill; sá mun hafa verið Eyfirðingur, fæddur um 1930. Þegar fundið var að þessum talshætti svaraði maðurinn því til að sér fyndist eðlilegt að konur segðu ég vil en karlar ég vill“. Ég hef líka heyrt fleiri dæmi um þetta. Trúlegt er að þarna séu einhvers konar áhrif frá kynbeygingu lýsingarorða eins og sæll, þar sem sagt er komdu/vertu sæll við karlmenn og komdu/vertu sæl við konur. Hins vegar beygjast íslenskar sagnir vitaskuld ekki í kynjum þannig að það er ekki trúlegt að þetta eigi eftir að breiðast út.

Það er ljóst að fjölmargar hliðstæðar breytingar hafa orðið á undanförnum öldum án þess að þær trufli okkur hið minnsta og án þess að þær hafi spillt beygingarkerfinu eða veikt það. Í raun má færa rök að því að þessi breyting styrki kerfið með því að færa sögnina undir reglulegt beygingarmynstur. En ég veit að mjög mörgum er mikið í nöp við ég vill og finnst það hræðilega ljótt, og ég vil ekki verða þess valdandi að fólki svelgist á morgunkaffinu með því að mæla þessari breytingu sérstaklega bót.

Hin Norðurlöndin

Í Málfarsbankanum segir: „Norðurlönd eru ein heild og Ísland er venjulega talið hluti hennar. Fleirtöluorðið Norðurlönd, í þessari merkingu, er ekki fleirtala orðsins Norðurland […]. Miðað við þetta stenst ekki að segja að Noregur sé eitt „Norðurland“, Danmörk sé annað „Norðurland“ o.s.frv. […] Í stað þess að segja að „þrjú Norðurlönd“ séu í Evrópusambandinu má t.a.m. tala um þrjár norrænar þjóðir eða þrjú norræn ríki í Evrópusambandinu. Í stað þess að segja að kona frá „einu Norðurlandanna“ sé framkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum má t.d. tala um að kona frá Norðurlöndunum eða kona frá einhverju norrænu landanna sé framkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum.“

Hér er sem sé sagt að ekki sé hægt að tala um eitt Norðurlandþrjú Norðurlönd o.s.frv. vegna þess að Norðurlönd sem heiti á hópi ríkja sé ekki fleirtala af Norðurland. Þetta má til sanns vegar færa, enda er það ekki heldur almenn málvenja að nota eintöluna Norðurland í þessari merkingu. Slík dæmi koma vissulega fyrir – „Svíþjóð er það Norðurland sem tekur við flestu flóttafólki“, „Hafa sömu réttindi og heimamenn í því Norðurlandi sem þeir dveljast í“, o.fl. – en eru sjaldgæf. En í dæmum eins og eitt Norðurlandanna og á hinum Norðurlöndunum er alls ekkert verið að nota eintöluna Norðurland. Hvað er þá að þeim?

Á bak við andstöðu við slík dæmi hlýtur að liggja sú hugmynd að það sé ekki „rökrétt“ að tala um eitt Norðurlandanna eða hin Norðurlöndin vegna þess að heitið Norðurlönd vísi til heildar, ekki einstakra landa. Með því að tala um eitt Norðurlandanna sé verið að segja að hægt sé að brjóta þessa heild upp í eitt Norðurlandannað Norðurland o.s.frv. En við getum borið þetta saman við orðið hjón. Það er fleirtöluorð sem á sér enga eintölu, rétt eins og Norðurlönd. Það kemur samt ekki í veg fyrir að við getum talað um annað hjónanna og bæði hjónin án þess að nokkur geri athugasemd við það. Ég sé ekki muninn á því og að tala um eitt Norðurlandanna og öll Norðurlöndin.

Lítum einnig á setningar eins og þessa, úr Þjóðólfi 1849: „Búið að kveykja, bóndinn á hjónarúminu, smalinn sofandi, hitt fólkið vakandi og við vinnu.“ Hér eru bóndinn og smalinn hluti af heimilisfólkinu, en til viðbótar er „hitt fólkið“. Setningar af þessu tagi eru auðvitað mjög algengar í málinu og aldrei gerðar athugasemdir við þær. En ég sé engan mun á þessu og t.d. „Sjálfsagt virðist að Ísland gangi að svona samningum við hin Norðurlöndin“ í Iðunni 1926 – og ótal öðrum sambærilegum. Þarna er gert ráð fyrir að Ísland sé hluti af Norðurlöndunum, en til viðbótar eru „hin Norðurlöndin“. Bæði fólk og Norðurlönd eru heild, en samt er hægt að tala um einstakar einingar í þessari heild. Í kverinu Gætum tungunnar er líka sagt rétt að segja „Fólkinu þykir vænt hverju um annað“.

Það má vel halda því fram mín vegna að hin Norðurlöndinöll Norðurlöndmörg Norðurlandanna og hliðstæð sambönd séu ekki „rökrétt“ – og sama hlýtur þá að gilda um bæði hjóninhitt fólkið o.s.frv. En það skiptir bara engu máli. Það er hægt að tína til ótal dæmi um „órökrétt“ mál, sem þjónar þó fullkomlega tilgangi sínum og er viðurkennt í málsamfélaginu. Sú hugmynd eða krafa að tungumálið eigi alltaf að vera „rökrétt“ ber vott um djúpstæðan en almennan misskilning á eðli tungumálsins. Tungumálið er ekkiá ekki að vera og má ekki vera fullkomlega „rökrétt“. Sú krafa geldir málið, drepur niður lífsmagn þess.

Á tímarit.is eru þúsundir dæma um framangreint orðalag sem má rekja aftur til 19. aldar og var mjög algengt alla 20. öldina og fram á þennan dag. Það er því greinilega í samræmi við máltilfinningu stórs hóps málnotenda. Að hafna því orðalagi, en leggja í staðinn til orðalag sem fáum er tamt, er til þess fallið að skapa óvissu og rugling í málnotkun og er því ekki málvöndun, heldur málspjöll.