Ekki ósjaldan

Stundum er amast við því að sambandið ekki ósjaldan sé látið merkja 'alloft' eins og það gerir oftastnær. Mörgum finnst það órökrétt, því að ó‑ sé neitunarforskeyti og ósjaldan merki 'oft' – ekki ósjaldan hljóti þá að merkja 'sjaldan', því að neitanirnar, ekki og ó‑, vegi hvor aðra upp. En það er reyndar alls ekki alltaf svo að forskeytið ó‑ neiti merkingu stofnsins sem það tengist. Iðulega merkir það miklu fremur 'slæmur, vondur'; ósjór er 'vondur sjór', óvani 'vondur vani', óbragð 'vont bragð', o.s.frv. Ef stofninn er sjálfur neikvæðrar merkingar getur svo farið að u.þ.b. sama merking fáist, hvort sem ó‑ er notað eða ekki; læti og ólæti eru nokkuð svipuð, og sömuleiðis þefur og óþefur.

En þótt forskeytið ó‑ hafi alls ekki alltaf beina neitunarmerkingu feljur það sennilega yfirleitt eitthvað neikvætt í sér. Það er þó nokkuð greinilegt að ó‑ í ósjaldan er neitandi merkingar, og ósjaldan eitt sér er andstæðrar merkingar við sjaldan. Það má því halda því fram að það sé „órökrétt“ að láta ekki ósjaldan merkja það sama. En því fer fjarri að tungumálið sé alltaf „rökrétt“, og það er ekki hægt að líta fram hjá því að það er gömul og mjög rík málvenja fyrir því að ekki ósjaldan merki 'alloft'. Í stað þess að neitanirnar vegi hvor aðra upp má segja að þær leggist saman.

Það er alþekkt að merking samsettra orða er sjaldnast bara summa af merkingu samsetningarliðanna – við þurfum að læra merkingu samsetningarinnar sérstaklega og í orðum sem virðast hliðstæð að gerð geta tengsl liðanna verið með ýmsu móti. Orðið hús birtist t.d. í fjölmörgum ólíkum samsetningum. Þannig vísar timburhús til efnis hússins, einingahús fremur til byggingaraðferðar, íbúðarhús til nýtingar, fjölbýlishús til skipulags, eldhús og þvottahús eru ekki einu sinni hús, heldur herbergi – að ekki sé talað um gleraugnahús og nálahús. Þetta lærum við smátt og smátt, á máltökuskeiði eða síðar, og það vefst ekkert fyrir okkur.

Meginreglan er hins vegar sú að merking setningarliða og heilla setninga sé leidd af merkingu einstakra orða. Það er í raun frumforsenda tungumálsins, veldur því að hægt er að læra það – það er auðvelt að ímynda sér hversu óyfirstíganlegt viðfangsefni það væri ef við þyrftum að læra merkingu allra setninga málsins sérstaklega. En þótt þetta sé meginreglan eru samt ótal dæmi um að bæði setningarliðir og heilu setningarnar hafi merkingu sem þarf að læra sérstaklega en er ekki að öllu leyti fyrirsegjanleg út frá merkingu einstakra orða. Þetta eru einkum hvers kyns orðtök og málshættir, en einnig ýmis föst orðasambönd af öðru tagi. Eitt slíkt samband er ekki ósjaldan.

Elsta dæmi um ekki ósjaldan í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá því um 1800, og á tímarit.is má finna hátt í 2500 dæmi um sambandið ekki/eigi ósjaldan, allt frá miðri 19. öld til dagsins í dag. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á merkingu dæmanna, en þó leikur enginn vafi á því að í langflestum þeirra merkir sambandið 'alloft' en ekki 'sjaldan'. Þetta er því grunnmerking sambandsins sem fráleitt væri að hafna. Auðvitað má segja að hægt sé að misskilja það – en sama gildir þá um ótal orðtök og málshætti sem ekki á að túlka bókstaflega. Samhengið sker venjulega úr um merkinguna.