Lítill minnihluti

Með nafnorðunum minnihluti og meirihluti er hægt að nota lýsingarorðið stór, en einnig mikill. Þegar þessi orð standa með meirihluti skiptir ekki öllu hvort þeirra er notað – stór meirihluti og mikill meirihluti merkir u.þ.b. það sama, t.d. sex af sjö. En ef þau standa með minnihluti er málið mun flóknara – mikill minnihluti merkir að það er mikill munur á stærð minnihluta og meirihluta, en stór minnihluti merkir (í mínu máli a.m.k.) að minnihlutinn er verulegur hluti af heildinni, þótt hann sé vissulega minnihluti. Það mætti t.d. segja að einn af sjö væri mikill minnihluti, en þrír af sjö væru stór minnihluti. Við getum e.t.v. litið svo á að mikill vísi bara til fyrri liðar samsetta orðsins, minni-, en stór vísi til seinni liðarins, hluti.

En málið vandast þegar maður áttar sig á því að orðin stór og mikill hafa sama andheiti, þ.e. lítill. Það veldur engum vandkvæðum þegar orðið stendur með meirihluti – meirihlutinn hlýtur alltaf að vera stærri en minnihlutinn, þannig að lítill meirihluti getur ekki þýtt annað en að stærðarmunur meirihluta og minnihluta er ekki mikill. En hvað merkir lítill minnihluti? Merkir það að um sé að ræða lítinn hluta af heildinni, t.d. einn af sjö – eða að lítill munur sé á stærð hlutanna, t.d. þrír af sjö? Vísar lítill til fyrri liðarins, minni-, eins og mikill, þ.e. til þess að þessi hluti sé litlu minni en hinn – eða vísar það til seinni liðarins, hluti, eins og stór, þ.e. til þess að um sé að ræða lítinn hluta af heildinni?