Unnið að heiman

Frá því að kórónuveiran fór að geisa hér snemma á árinu hefur fjöldi fólks flutt starfsstöð sína meira og minna inn á heimilið og tengst venjulegum vinnustað gegnum netið. Það hefur iðulega verið sagt að fólk vinni að heiman. Þetta er væntanlega komið til fyrir áhrif frá ensku, work from home, en það er svo sem ekki næg ástæða til að amast við því. Hins vegar er því oft haldið fram að vinna að heimanrangt hugsað vegna þess að að heiman merki 'ekki heima' og því hljóti ég vinn að heiman að merkja 'ég vinn ekki heima'.

En það er ekki endilega rétt. Þótt ég er að heiman merki vissulega 'ég er ekki heima' gegnir öðru máli um ég fer að heiman sem merkir 'ég er heima en fer þaðan'. Eins er hægt að tala um horfa að heiman þar sem maður er heima og horfir þaðan, o.fl. Sambandið að heiman getur því annaðhvort merkt kyrrstöðu og þá er maður ekki heima (ég er að heiman), eða stefnu / hreyfingu og þá er maður heima en stefnir þaðan í einhverjum skilningi (ég fer að heiman, ég horfi að heiman).

En hvernig á að skilja að heiman í ég vinn að heiman – er það kyrrstaða eða einhvers konar hreyfing? Hér er grundvallaratriði að fólk gerir mun á því að vinna heima og vinna að heiman – það fyrrnefnda á við þegar heimilið er hinn venjulegi vinnustaður, en það síðarnefnda þegar venjulegur vinnustaður er annars staðar en fólk er heima tímabundið vegna aðstæðna. Í ljósi þess að maður tengist vinnustað utan heimils rafrænt finnst mér hægt að líta svo á að að heiman sé stefna en ekki kyrrstaða í þessu tilviki og þess vegna sé ekkert óeðlilegt við að segja ég vinn að heiman.