Málspjall

Þegar ég stofnaði Facebook-hópinn Málspjall fyrir hálfum fimmta mánuði eftir að hafa gefist upp á neikvæðri umræðu í Málvöndunarþættinum var ég með tvö markmið í huga. Annars vegar að skapa vettvang fyrir jákvæða, uppbyggilega, fræðandi og skemmtilega umræðu, fyrirspurnir og svör; og hins vegar að koma á framfæri fjölbreyttum fróðleiksmolum um íslenskt mál, málnotkun og málumhverfi sem fólk gæti haft gagn og gaman af, á máli sem fólk gæti skilið án mikillar málfræðimenntunar eða -þekkingar - fróðleik sem gæti hugsanlega aukið víðsýni fólks og dregið úr fordómum gagnvart öðrum tilbrigðum en þeim sem fólk er alið upp við eða hefur verið kennt að séu „rétt“.

Mér finnst hvort tveggja hafa tekist. Í hópnum eru flesta daga líflegar umræður og svör fást við flestum fyrirspurnum. Samtals eru komin hátt í þúsund innlegg í hópinn frá byrjun, og yfir 16 þúsund athugasemdir, en félagar í hópnum eru nú rúmlega 2700. Ég hef reynt að birta þar pistil á hverjum degi, stundum fleiri en einn á dag. Þessir pistlar eru nú orðnir hátt á annað hundrað og hafa flestir verið á bilinu 300-600 orð – sumir lengri en örfáir styttri. Auk þess hef ég sett inn fjölmargar styttri færslur og hlekki á efni á netinu, nýtt og gamalt. Það má vissulega halda því fram að pistlarnir séu of langir fyrir þennan vettvang, en þá má einnig lesa á heimasíðunni minni.

Ég geri þetta af því að ég hef gaman af því. En líka vegna þess að ég er sannfærður um að það er mikilvægt að íslensk málfarsumræða breytist og ég vil leggja mitt af mörkum til þess – sýna að það er hægt að ræða um íslenskt mál og tilbrigði þess á jákvæðan hátt, án þess að fordæma tiltekin tilbrigði eða fólkið sem notar þau. Og það er ekki bara hægt – það er beinlínis lífsnauðsynlegt fyrir íslenskuna að fólkið sem notar hana finni sig í henni, finnist það eiga hlutdeild í henni og hafa eitthvað um hana að segja. Það er forsenda fyrir því að fólki þyki vænt um málið og vilji halda í það og leggja sig fram um að nota það á öllum sviðum. En þá verðum við öll að átta okkur á því að íslenska er alls konar – og það er styrkur hennar.