Þunglyndi

Fyrir jól heyrði ég ágæta umræðu í morgunútvarpinu á Rás 2 um orðið þunglyndi. Umræðan spannst af frásögn með fyrirsögninni „Það þýddi ekkert að leggjast í þunglyndi og gefast upp“ á Vísi í nóvember. Sumum fannst orðið þunglyndi notað gáleysislega í þessari frásögn í ljósi þess að það er heiti á alvarlegum geðsjúkdómi en í þessu tilviki var ekki um slíkt að ræða, heldur merkti orðið fremur 'vonleysi' eða eitthvað slíkt, eins og það gerir mjög oft í daglegu tali. Þótt vel megi segja að þetta hafi verið óheppileg orðanotkun er engin ástæða til að gera því skóna að einhverjar illar hvatir hafi legið þar að baki.

Elsta dæmi um orðið þunglyndi er úr 9. bindi Rita Lærdómslistafélagsins frá 1788, í greininni „Registur yfir íslenzk sjúkdóma nöfn“ eftir Svein Pálsson lækni. Þar segir: „Samviskuveiki, Þúnglyndi, Sturlun, Fálæti, Fáleiki, Hiartveiki, Hrellíng, Hugtregi, Hugarvýl, eru almælt samnefni til Gedveikiu.“ Þótt upphaflega sé því um læknisfræðilegt íðorð að ræða hefur hefur orðið þunglyndi lengi verið notað í almennu máli án þess að það vísaði til sjúkdóms. Þetta sést vel á því að í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983 er orðið skýrt sem 'ókæti, dapurleiki, gleðileysi; svartsýni'.

Í þriðju útgáfu bókarinnar frá 2002 er fyrsta merkingarskýringin hins vegar 'sálrænn kvilli sem einkennist af vonleysi, hryggð og áhugaleysi' og merkt sem íðorð úr læknisfræði og skyldum greinum, en merkingarskýringin úr fyrri útgáfu bókarinnar kemur þar á eftir. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er þunglyndi svo skýrt 'það að vera þunglyndur', en þunglyndur er sá 'sem er haldinn sálrænum kvilla sem einkennist af vonleysi, hryggð og áhugaleysi'. Þarna er sem sé hin almenna merking orðsins horfin en sú læknisfræðilega – sem er upphafleg í málinu eins og áður segir – stendur ein eftir.

Það breytir því ekki að margt fólk notar orðið enn í þeirri merkingu sem það hefur – eða hafði – í almennu máli, þ.e. um depurð, leiða eða vonleysi, án þess að um sé að ræða vísun til sjúklegs ástands. Ég hef iðulega gert það sjálfur og geri örugglega enn. Með slíkri málnotkun er yfirleitt alls ekki verið að gera lítið úr alvarleik sjúkdómsins eða þeim sem þjást af honum – þetta er einfaldlega málnotkun sem við sem erum komin yfir miðjan aldur ólumst upp við. Samt sem áður er vel skiljanlegt að fólki sem þekkir sjúkdóminn af eigin raun eða hefur komist í návígi við hann sárni þetta og finnist að sér vegið.

Það eru í sjálfu sér ýmis dæmi þess að sama orðið sé bæði nákvæmlega skilgreint íðorð í einhverri fræðigrein, iðngrein eða á öðru afmörkuðu sviði og einnig notað í almennu máli – oftast þá í skyldri merkingu en ekki jafn niðurnegldri. Við getum tekið einfalt dæmi af orðinu magi sem í Íðorðasafni lækna í Íðorðabankanum er skilgreint sem „Sá hluti meltingarvegar sem liggur milli vélinda og skeifugarnar“. En í daglegu tali er magi auðvitað notað í miklu víðari merkingu sem fellur ekki undir þessa skilgreiningu – talað um að vera með beran maga, slit á maganum, barn í maganum o.s.frv. Þetta truflar okkur yfirleitt ekki og veldur ekki misskilningi.

Út frá þessu má segja að það væri ekkert óhugsandi að nota þunglyndi áfram í hinni almennu merkingu sem það hefur haft, jafnframt því að nota það sem íðorð. En vegna þess hve geðsjúkdómum hefur fylgt mikil skömm og fordómar er eðlilegt að fólk sé viðkvæmt fyrir orðanotkun á þessu sviði. Það sem skiptir meginmáli hér, eins og í allri málnotkun, er tillitssemi, umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki. Við sem höfum vanist því að nota orðið þunglyndi í tiltölulega almennri merkingu þurfum að átta okkur á því að sú málnotkun getur stuðað fólk og ættum því að forðast hana – og fólk sem sárnar þessi málnotkun þarf að hafa í huga að talsverður hluti þjóðarinnar er alinn upp við að nota orðið á þennan hátt og meinar ekkert illt með því.