Hin Norðurlöndin

Í Málfarsbankanum segir: „Norðurlönd eru ein heild og Ísland er venjulega talið hluti hennar. Fleirtöluorðið Norðurlönd, í þessari merkingu, er ekki fleirtala orðsins Norðurland […]. Miðað við þetta stenst ekki að segja að Noregur sé eitt „Norðurland“, Danmörk sé annað „Norðurland“ o.s.frv. […] Í stað þess að segja að „þrjú Norðurlönd“ séu í Evrópusambandinu má t.a.m. tala um þrjár norrænar þjóðir eða þrjú norræn ríki í Evrópusambandinu. Í stað þess að segja að kona frá „einu Norðurlandanna“ sé framkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum má t.d. tala um að kona frá Norðurlöndunum eða kona frá einhverju norrænu landanna sé framkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum.“

Hér er sem sé sagt að ekki sé hægt að tala um eitt Norðurlandþrjú Norðurlönd o.s.frv. vegna þess að Norðurlönd sem heiti á hópi ríkja sé ekki fleirtala af Norðurland. Þetta má til sanns vegar færa, enda er það ekki heldur almenn málvenja að nota eintöluna Norðurland í þessari merkingu. Slík dæmi koma vissulega fyrir – „Svíþjóð er það Norðurland sem tekur við flestu flóttafólki“, „Hafa sömu réttindi og heimamenn í því Norðurlandi sem þeir dveljast í“, o.fl. – en eru sjaldgæf. En í dæmum eins og eitt Norðurlandanna og á hinum Norðurlöndunum er alls ekkert verið að nota eintöluna Norðurland. Hvað er þá að þeim?

Á bak við andstöðu við slík dæmi hlýtur að liggja sú hugmynd að það sé ekki „rökrétt“ að tala um eitt Norðurlandanna eða hin Norðurlöndin vegna þess að heitið Norðurlönd vísi til heildar, ekki einstakra landa. Með því að tala um eitt Norðurlandanna sé verið að segja að hægt sé að brjóta þessa heild upp í eitt Norðurlandannað Norðurland o.s.frv. En við getum borið þetta saman við orðið hjón. Það er fleirtöluorð sem á sér enga eintölu, rétt eins og Norðurlönd. Það kemur samt ekki í veg fyrir að við getum talað um annað hjónanna og bæði hjónin án þess að nokkur geri athugasemd við það. Ég sé ekki muninn á því og að tala um eitt Norðurlandanna og öll Norðurlöndin.

Lítum einnig á setningar eins og þessa, úr Þjóðólfi 1849: „Búið að kveykja, bóndinn á hjónarúminu, smalinn sofandi, hitt fólkið vakandi og við vinnu.“ Hér eru bóndinn og smalinn hluti af heimilisfólkinu, en til viðbótar er „hitt fólkið“. Setningar af þessu tagi eru auðvitað mjög algengar í málinu og aldrei gerðar athugasemdir við þær. En ég sé engan mun á þessu og t.d. „Sjálfsagt virðist að Ísland gangi að svona samningum við hin Norðurlöndin“ í Iðunni 1926 – og ótal öðrum sambærilegum. Þarna er gert ráð fyrir að Ísland sé hluti af Norðurlöndunum, en til viðbótar eru „hin Norðurlöndin“. Bæði fólk og Norðurlönd eru heild, en samt er hægt að tala um einstakar einingar í þessari heild. Í kverinu Gætum tungunnar er líka sagt rétt að segja „Fólkinu þykir vænt hverju um annað“.

Það má vel halda því fram mín vegna að hin Norðurlöndinöll Norðurlöndmörg Norðurlandanna og hliðstæð sambönd séu ekki „rökrétt“ – og sama hlýtur þá að gilda um bæði hjóninhitt fólkið o.s.frv. En það skiptir bara engu máli. Það er hægt að tína til ótal dæmi um „órökrétt“ mál, sem þjónar þó fullkomlega tilgangi sínum og er viðurkennt í málsamfélaginu. Sú hugmynd eða krafa að tungumálið eigi alltaf að vera „rökrétt“ ber vott um djúpstæðan en almennan misskilning á eðli tungumálsins. Tungumálið er ekkiá ekki að vera og má ekki vera fullkomlega „rökrétt“. Sú krafa geldir málið, drepur niður lífsmagn þess.

Á tímarit.is eru þúsundir dæma um framangreint orðalag sem má rekja aftur til 19. aldar og var mjög algengt alla 20. öldina og fram á þennan dag. Það er því greinilega í samræmi við máltilfinningu stórs hóps málnotenda. Að hafna því orðalagi, en leggja í staðinn til orðalag sem fáum er tamt, er til þess fallið að skapa óvissu og rugling í málnotkun og er því ekki málvöndun, heldur málspjöll.