Að forða slysi

Sögnin forða er iðulega notuð í merkingunni 'afstýra, komast hjá' en oft er þó amast við notkun hennar í þeirri merkingu. Þannig segir Málfarsbankinn: „Sögnin forða merkir: koma undan, bjarga. Hún forðaði barninu frá bráðum bana. Það stangast á við merkingu orðsins þegar tekið er til orða á þessa leið: „Hún forðaði slysinu.“ Eðlilegra gæti verið að orða þetta fremur t.d. svona: Hún komst hjá slysi eða Hún forðaði sér frá því að lenda í slysi.“ Svipaðar athugasemdir má finna í fjölmörgum málfarspistlum og ritum frá undanförnum áratugum, en þær byggjast á misskilningi á þessu orðalagi eins og hér verður sýnt fram á.

A.m.k. 150 ára órofin hefð er fyrir því að forða einhverju geti haft merkinguna 'afstýra, komast hjá'. Í Tímanum 1872 segir „forðað þeirri eyðilegging, sem annars hefði berlega legið fyrir höndum.“ Í Ísafold 1876 er talað um „að leita láns úr landssjóði til að forða hallæri hjer í sjávarsveitunum“. Í Norðanfara 1877 segir „farið er að skjóta saman stórfje til að forða meiri mannfelli“. Í Fróða 1882 segir „sendu þangað matvæli á 10 hestum til að forða hungursneyð í bráð“. Í Þjóðólfi 1883 segir „svo málleysu sé forðað“. Í Ísafold 1888 segir „þar varð forðað miklu óhappi“. Í Ísafold 1891 segir „Hjer hafa hollar hendur að hlúð og forðað grandi“. Svo mætti lengi telja.

En fleira kemur til. Í Þjóðólfi 1856 segir „til að forða þeim kúgun þeirri, sem hér er kvartað yfir“. Í Þjóðólfi 1863 segir „að forða Reykvíkingum öllu grandi, öllum vansa“. Í Kristilegu smáriti handa Íslendingum 1865 segir „Vak þú yfir mér í dag, og forða mér öllu illu“. Í Baldri 1868 segir „geta þó fengið björg til að forða sjer hungri.“ Í Þjóðólfi 1869 segir „til að forða þeim eyðingu“. Í Þjóðólfi 1873 segir „biðja stjórnina að forða sér húngrs-dauða“. Eldri dæmi eru líka til: „Forða mér þeirri eilífu hrellingu í helvíti“ segir í Eintali sálarinnar frá 1599. „Forða mér öllu vondu athæfi / ofneyslu / ofdrykkju“ segir í Kristilegri bænabók frá 1611 – og fleiri dæmi mætti nefna.

Í þessum dæmum tekur forða sem sé með sér tvö þágufallsandlög, forða einhverjum einhverju, eins og t.d. lofahann lofaði mér öllu fögru. Það er alkunna að lofa getur sleppt fyrra andlaginu en haldið því seinna eftir – hann lofaði öllu fögru. Ekki verður betur séð en uppruna dæma eins og forða mannfelli / hungursneyð /óhappi / grandi o.s.frv. megi greina á sama hátt – þ.e., á bak við þau liggi forða (þjóðinni) mannfelli / hungursneyð, forða (sér) óhappi / grandi, o.s.frv. Í dæmum eins og forða slysi, forða tjóni, forða óhappi er þágufallsandlagið upprunnið sem seinna andlag sagnarinnar, en andlagið í forða sér, forða lífi sínu, forða barninu o.s.frv. sem það fyrra.

Þótt lofa taki tvö þágufallsandlög er auðvelt að greina milli þeirra vegna þess að merkingarleg vensl þeirra við sögnina eru ólík. Annað þeirra – það fyrra ef þau fylgja sögninni bæði – vísar til þess sem loforðið er gefið, hitt vísar til þess sem lofað er. Svipað er með forða – þegar sögnin tekur tvö andlög vísar það fyrra til þess sem forðað er frá einhverju(m), það seinna til þess sem einhverju(m) er forðað frá. Vissulega hefur hegðun sagnarinnar breyst þannig að nú tekur hún ekki með sér þessi tvö andlög í einu. En hún tekur eftir sem áður tvenns konar andlög. Þess vegna er nákvæmlega ekkert athugavert við að forða slysi, og tímabært að það verði viðurkennt sem rétt og vönduð íslenska.