Utangarðs

Þegar ég var að alast upp á norðlensku framsóknarheimili á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var vitanlega keyptur þar Dagur, blað framsóknarmanna á Akureyri – sem ég las mér til ánægju. Eitt það skemmtilegasta í því blaði voru fréttir frá fréttaritara blaðsins í Þistilfirði, Óla á Gunnarsstöðum, sem skrifaði mjög skemmtilega um hvers kyns stóra og smáa atburði þar í sveitinni. Ein eftirminnilegasta frétt Óla hafði fyrirsögnina „Negri í Þistilfirði“. Þar var innan um aðrar sveitarfréttir sagt frá því að á Gunnarsstöðum væri vetrarmaður frá Gana, svartur á hörund, „og mun það líklega heldur sjaldgæf sjón hér á landi“.

Á undanförnum árum hefur oft verið vitnað í þessa fyrirsögn, „Negri í Þistilfirði“, ýmist til að hneykslast á henni eða gera gys að henni. Hvort tveggja er ástæðulaust og algerlega í ósamræmi við anda fréttarinnar. Frásögnin þar er gamansöm og án nokkurra fordóma – negri var einfaldlega það orð sem var notað á þessum tíma, a.m.k. það orð sem eldra fólk hafði alist upp við, rétt eins og við töluðum um kynvillinga eins og ekkert væri sjálfsagðara. En tímarnir breytast og orð eins og negri, kynvillingur, fáviti og önnur slík þykja ekki við hæfi í opinberri umræðu lengur – sem betur fer. Það þýðir ekki að einhver illur hugur hafi verið bak við notkun þeirra á sínum tíma.

Á vef Þjóðskrár Íslands er orðið utangarðsskrá notað yfir skrá um fólk sem þarf að skrá vegna tímabundinnar búsetu en fer ekki inn í þjóðskrá. Orðið utangarðsskrá virðist hafa verið í notkun í meira en 30 ár en í nýjum lögum um skráningu einstaklinga sem tóku gildi 1. janúar sl. er orðið kerfiskennitöluskrá notað í staðinn – orðið utangarðsskrá virðist þó ekki hafa verið í eldri lögum. Það leikur varla vafi á því að orðið utangarðsskrá er gildishlaðið og hefur hugrenningatengsl við orð eins og utangarðsmaður, utangarðsfólk og önnur slík.

Ég legg áherslu á að ég hef enga ástæðu til að ætla að einhver illur hugur búi að baki þessari orðanotkun. En hún er barn síns tíma, rétt eins og orðin sem ég nefndi áður. Þess vegna er óviðunandi að þetta orð sé notað á vef opinberrar stofnunar, sérstaklega þegar annað orð er notað um fyrirbærið í gildandi lögum. Þetta minnir okkur á hvað tungumálið er máttugt tæki – til góðs og ills. Með orðanotkun okkar og orðavali getum við, vitandi eða óafvitandi, mótað bæði okkar eigin hugmyndir og skoðanir annarra. Þess vegna þurfum við að gæta okkar vel þegar rætt er um viðkvæm álita- og deilumál.