Af banönum og bönunum

Eitt af því sem fólk veltir stundum fyrir sér – og deilir um – er þágufall fleirtölu af orðinu banani. Er það banönum eða bönunum? Ég man eftir umræðu um þetta oftar en einu sinni í þættinum Daglegt mál sem var á dagskrá Ríkisútvarpsins um áratuga skeið. Í eitt slíkt skipti, fyrir um 40 árum, svaraði umsjónarmaðurinn því til að vænlegast væri að leita til bænda og spyrja þá hvernig þeir hefðu orðið valt­ari í umræddu falli – og fara svo eins með banani. Þótt ég sé úr sveit kom þetta svar mér að litlu gagni. Í minni sveit var nefnilega bara til einn valtari. Hann gekk milli bæja og var einfaldlega kallaður Valtarinn með ákveðnum greini. Það reyndi því aldrei á það hvernig fleirtala orðs­ins væri, og þess vegna er ég enn í dag jafn ófróður um það hvernig þágu­fall fleirtölu af banani eigi að vera.

Gísli Jónsson ræddi þetta einu sinni í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu. Hann taldi að myndin ætti að vera banönum, en myndin bönunum væri þágufall fleirtölu með greini af orðinu bani. Það er vissulega rétt, þótt ég eigi reyndar erfitt með að hugsa mér aðstæður þar sem bani væri notað í þágufalli fleirtölu með greini. En þótt svo væri útilokar það auðvitað ekki að samhljóða mynd geti verið þágufall fleirtölu af banani – slíkt samfall beygingarmynda af mismunandi orðum er mjög algengt í málinu. Enda eiga báðar myndirnar sér langa hefð í málinu. Á tímarit.is eru rúm 1500 dæmi um banönum, það elsta frá 1886, en rúm 500 dæmi um bönunum, það elsta frá 1922. Hlufall síðarnefndu myndarinnar virðist heldur fara hækkandi.

Orð af íslenskum uppruna sem hafa tvö a í stofni fá yfirleitt mynstrið ö – u á undan endingunni -um – þ.e., ö kemur í staðinn fyrir fyrra a-ið og u í stað þess síðara. Þannig er þágufall fleirtölu af kafari köfurum, af blandari blöndurum, o.s.frv. Sama gildir í lýsingarorðum – þágufall eintölu í karlkyni og fleirtölu allra kynja af fatlaður er fötluðum. Mynstrið er líka að finna í sagnbeygingu – 1. persóna fleirtölu í þátíð af kallaði er kölluðum, af talaði töluðum, o.s.frv. En tökuorð haga sér iðulega öðruvísi, og halda fyrra a-inu óbreyttu en setja ö í stað þess síðara á undan -um. Þannig er þágufall fleirtölu af skandali yfirleitt skandölum en ekki sköndulum, af ballaða ballöðum en ekki bölluðum, af Arabi Aröbum en ekki ­Örubum, af albanskur albönskum en ekki ölbunskum o.s.frv.

En svo gerist það oft með tímanum að tökuorðin laga sig að beygingarmynstri íslensku orðanna og til verða tvímyndir, eins og banönum og bönunum. Af kastali er til bæði kastölum og köstulum, af sandali er til bæði sandölum og söndulum, af Japani er til bæði Japönum og Jöpunum, þótt síðarnefnda myndin sé sjaldgæf – o.s.frv. Undantekningarlaust virðist síðarnefnda myndin vera yngri, og oftast sjaldgæfari en sú fyrrnefnda. Það er athyglisvert að sama fólk virðist oft nota báðar myndirnar til skiptis, án þess að ætla það eða átta sig á því. Ég hef heyrt mann nota sandölum og söndulum með stuttu millibili í samtali, og á netinu má finna allnokkra texta sem hafa að geyma bæði banönum og bönunum.

Báðar myndirnar, banönum og bönunum, samræmast íslensku beygingarkerfi og segja má að síðarnefnda myndin sé til marks um meiri aðlögun orðsins að hegðun íslenskra orða en sú fyrrnefnda. Fyrir báðum er líka löng hefð þannig að engin ástæða er til annars en telja báðar góðar og gildar – sem og aðrar tvímyndir sem hér hafa verið nefndar. Ég sæi ekki heldur ástæðu til að amast við myndinni Jöpunum ef hún breiddist út, og Örubum (sem stöku dæmi eru til um) væri líka í samræmi við kerfið. Hins vegar bregður stundum fyrir myndum með ö á báðum stöðum – bönönum, köstölum, söndölum. Þær falla ekki að neinu íslensku beygingarmynstri heldur eru einhvers konar sambland af tveimur. Þess vegna finnst mér rétt að mæla gegn þeim myndum.