Óhjákvæmilegt annað en

Sambandið annað en er iðulega notað með lýsingarorði til að fá fram andstæða merkingu. Við segjum það er ómögulegt annað en fallast á þetta sem er andstæðrar merkingar við það er ómögulegt að fallast á þetta. Það er hægt að nota þetta samband með fjölda lýsingarorða, en þó því aðeins að lýsingarorðið feli í sér eða taki með sér neitun af einhverju tagi, eða sé neikvætt í einhverjum skilningi. Við getum ekki sagt *það er mögulegt annað en fallast á þetta eða *það er hugsanlegt annað en fallast á þetta. Hins vegar getum við sagt það er ekki mögulegt annað en fallast á þetta, það er varla hugsanlegt annað en fallast á þetta, það er útilokað annað en fallast á þetta, það er vonlaust annað en fallast á þetta, það er fáránlegt annað en fallast á þetta o.s.frv.

Í öllum þessum dæmum neitar annað en merkingu lýsingarorðsins. Merkingin í það er ómögulegt annað en fallast á þetta er 'það er ómögulegt að fallast á þetta ekki', merkingin í það er útilokað annað en fallast á þetta er 'það er útilokað að fallast á þetta ekki', merkingin í það er fáránlegt annað en fallast á þetta er 'það er fáránlegt að fallast á þetta ekki', o.s.frv. Frá þessu er þó ein skýr undantekning. Það er sambandið óhjákvæmilegt annað en. Í venjulegu máli merkir það er óhjákvæmilegt annað en að fallast á þetta nefnilega alveg sama og það er óhjákvæmilegt að fallast á þetta annað en neitar sem sé ekki merkingunni í óhjákvæmilegt eins og það gerir í öðrum tilvikum.

Það er athyglisvert að þetta eina orð skuli skera sig þannig úr, en skýrist kannski af því að flest dæmi um sambandið neitun – lýsingarorð – annað en – gera X (t.d. ekki hugsanlegt annað en fallast á þetta, ómögulegt annað en fallast á þetta, útilokað annað en fallast á þetta) leiða til þess að X er gert (því er trúað í þessu tilviki) – neitunin og annað en upphefja hvort annað. Málnotendur virðast fella óhjákvæmilegt annað en gera X inn í þetta mynstur, þ.e. horfa á neitunarforskeytið ó- og sambandið annað en, en líta fram hjá merkingunni í -hjákvæmilegt, enda er það aldrei notað eitt og sér og er þannig séð merkingarlaust. Þetta er ekki ósvipað og með sambandið ekki ósjaldan sem oftast er notað í sömu merkingu og ósjaldan.

Svo má auðvitað spyrja hvort það standist að nota óhjákvæmilegt annað en í sömu merkingu og óhjákvæmilegt. Vissulega má halda því fram að það sé ekki „rökrétt“. En málið er ekki alltaf rökrétt, og í þessu tilviki verður að hafa í huga að um fast orðasamband er að ræða. Slík sambönd lifa að einhverju leyti sjálfstæðu lífi, þannig að merking þeirra er ekki alltaf summa eða fall af merkingu orðanna sem mynda sambandið. Þetta er auðvitað vel þekkt úr málsháttum og orðtökum, en getur líka að vissu marki gilt um margs konar önnur misjafnlega föst orðasambönd – við lærum merkingu sambandsins í heild, í stað þess að púsla henni saman úr merkingu einstakra orða þess.

Hvað sem þessu líður er ljóst að fólk sem notar sambandið óhjákvæmilegt annað en hefur það í sömu merkingu og óhjákvæmilegt, og sú notkun á sér meira en hundrað ára hefð. Sambandið kemur fyrir í prentuðum heimildum frá því í byrjun 20. aldar – á tímarit.is eru rúm 300 dæmi um það, og í Risamálheildinni á fimmta hundrað. Ég fæ ekki betur séð en í þeim öllum sé merking þess sú sem að framan greinir, þ.e. hin sama og í óhjákvæmilegt. Auðvitað er hugsanlegt að túlka sambandið bókstaflega og misskilja það, en ég held að samhengið dugi yfirleitt til að gera merkinguna ótvíræða.