Eintala og fleirtala í samsetningum

Oft finnst fólki rökrétt að tala fyrri liðar í samsettum orðum endurspegli merkingu orðanna. Í Málfarsbankanum segir t.d.: „Ritað er mánaðamót en ekki „mánaðarmót“. Fyrri hluti orðsins er í eignarfalli fleirtölu en ekki eintölu vegna þess að um er að ræða tvo mánuði sem mætast við lok annars og upphaf hins, sbr. orðið aldamót.“ Mér finnst eðlilegt að halda sig við myndina mánaðamót, en þótt það sé vissulega rétt að þar mætist tveir mánuðir leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að fyrri liður orðsins eigi að vera í fleirtölu. Elstu dæmi um mánaðarmót á tímarit.is eru næstum jafngömul og elstu dæmi um mánaðamót, og fjöldi dæma um fyrrnefndu myndina sýnir að mjög margir málnotendur hafa ekki sterka tilfinningu fyrir því að þarna eigi að vera fleirtala.

Það er líka auðvelt að benda á fjölmörg dæmi þar sem tala fyrri liðar er „órökrétt“. Þetta er líklega mest áberandi þegar fyrri liðurinn er veikt kvenkynsorð sem endar á -a eða -na í eignarfalli fleirtölu – þá er iðulega notað eignarfall eintölu þar sem fleirtalan væri „rökrétt“. Þetta eru orð eins og rækjusamloka, gráfíkjukaka, perutré og mörg fleiri. Það er væntanlega óhætt að gera ráð fyrir því að það sé fleiri en ein rækja í samlokunni, fleiri en ein gráfíkja í kökunni og fleiri en ein pera á trénu, og því væri merkingarlega eðlilegra að hafa þarna eignarfall fleirtölu – *ræknasamloka, *gráfíknakaka, *peratré. Eintölumyndin er samt notuð í staðinn, líklega vegna þess að málnotendum finnst óeðlilegt að nota mynd sem er eins og nefnifall eintölu (pera) eða eru í vafa um fallmyndina (rækja eða rækna).

Það eru líka ýmis dæmi um að notað sé eignarfall fleirtölu þar sem eintalan gæti virst „rökrétt“. Við borðum nautalund og lambalæri – engum dettur í hug að tala um *nautslund eða *lambslæri þótt enginn vafi sé á að lundin sé úr einum nautgrip og lærið af einu lambi. Við segjumst vera í bílakaupum en ekki *bílskaupum þótt við séum bara að kaupa einn bíl, og við tölum um myndaramma þótt aðeins ein mynd sé í sama ramma. Á hverjum ljósastaur er venjulega bara eitt ljós, blaðamaður vinnur yfirleitt bara á einu blaði í senn, lagasmiður þarf ekki að hafa samið nema eitt lag, og talað er um ljóðalestur hvort sem lesið er eitt ljóð eða fleiri. Þótt fyrri liður orðanna nýrnagjafi, nýrnaþegi og nýrnaígræðsla sé í fleirtölu er venjulega bara um eitt nýra að ræða, og svo mætti lengi telja.

Í stöku tilvikum er líka notuð önnur tala en búast mætti við þótt ekki sé um samsett orð að ræða, heldur orðasamband sem myndar merkingarlega heild og er eins konar ígildi samsetts orðs í huga málnotenda. Þetta eru dæmi eins og þriggja stjörnu hótel, 36 peru ljósabekkur o.fl. Talan sem kemur á undan gerir það að verkum að tölutáknun á nafnorðinu er óþörf og tala þess núllast út, ef svo má segja. Þótt myndirnar stjörnu og peru séu formlega séð eintala hafa þær ekki eintölumerkingu í þessum orðum, heldur eru hlutlausar og teknar fram yfir fleirtölumyndirnar vegna þess að þær fara betur. Þótt tala fyrri liðar í samsettum orðum geti vissulega haft merkingarlegt gildi er algengt að svo sé ekki, heldur notuð sú mynd sem fer betur, t.d. af hljóðfræðilegum ástæðum.

Oft virðist líka vera hrein hending hvort eintölu- eða fleirtölumynd er notuð í samsetningum. Þannig er það t.d. þegar viðskeytinu -legur er bætt við nafnorðið barn til að mynda lýsingarorð. Þá er hægt að nota bæði eignarfall eintölu og eignarfall fleirtölu – við höfum bæði barnslegur og barnalegur. En þau orð merkja ekki það sama. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er fyrrnefnda orðið skýrt 'einlægur og saklaus eins og barn' en það síðarnefnda 'einfaldur, einfeldningslegur' eða 'sem líkist barni í útliti, unglegur'. Það er auðvitað engin leið að halda því fram að það séu einhverjar merkingarlegar ástæður fyrir því að nota eignarfall eintölu í fyrra orðinu en eignarfall fleirtölu í því síðara. Við þurfum einfaldlega að læra merkingu hvors orðs fyrir sig – getum ekki lesið hana að fullu út úr gerð samsetningarinnar.