Kynhlutlaus starfsheiti

Mikill meirihluti íslenskra starfsheita er karlkyns. Mörg þeirra hafa -maður sem seinni lið, s.s. vísindamaður, alþingismaður, námsmaður, verslunarmaður, verkamaður, lögreglumaður, stýrimaður, iðnaðarmaður, leiðsögumaður, formaður og fjölmörg fleiri. Ýmis önnur karlkynsorð eru líka seinni liður í mörgum starfsheitum, s.s. -stjóri í forstjóri, bílstjóri, verslunarstjóri; -herra í ráðherra, skipherra, sendiherra; -þjónn í lögregluþjónn, barþjónn, flugþjónn; o.m.fl. Mörg starfsheiti eru einnig mynduð með karlkynsviðskeytum, s.s. -ingur og -aritölvunarfræðingur, málfræðingur, heimspekingur; kennari, leikari, ljósmyndari. Svo mætti lengi telja. En þótt þessi starfsheiti séu málfræðilega karlkyns eru þeim ætlað að vera kynhlutlaus, í þeirri merkingu að þau eru eða hafa verið notuð um bæði karla og konur.

Mun færri starfsheiti eru málfræðilega kvenkyns og þau eru þá oftast eingöngu notuð um konur – flugfreyja, fóstra, hjúkrunarkona, þerna, húsfreyja, ljósmóðir, barnapía og fáein til viðbótar. Mörg þeirra þykja ekki lengur við hæfi og/eða hefur verið skipt út fyrir önnur sem eru þá iðulega karlkyns – leikskólakennari kemur í stað fóstru, hjúkrunarfræðingur í stað hjúkrunarkonu o.fl. Svo virðist sem karlmenn vilji ekki nota kvenkyns starfsheiti, eða það þyki ekki viðeigandi. Áður en hjúkrunarfræðingur leysti hjúkrunarkonu af hólmi voru karlmenn sem gegndu þessu starfi nefndir hjúkrunarmenn, karlmenn sem starfa um borð í flugvélum nefnast flugþjónar, og þeir fáu karlmenn sem hafa fengist við að taka á móti börnum voru nefndir ljósfeður. Hið óformlega starfsheiti lögga er þó notað um bæði kyn.

Í starfsheitum sem enda á -maður hefur orðið kynhlutlausa merkingu, þ.e. merkir ʻeinstaklingur af tegundinni homo sapiensʼ. En vegna þess að orðið hefur einnig merkinguna ʻkarlmaðurʼ þykir ekki alltaf heppilegt eða viðeigandi að nota þessi starfsheiti um konur. Þetta er ekki nýtt – frá því í byrjun 20. aldar voru verkamannafélög fyrir karla en konurnar stofnuðu verkakvennafélög. Það hafa líka verið búin til starfsheiti með -kona til að svara til ýmissa starfsheita með -maður, s.s. vísindakona, verslunarkona, lögreglukona og fleiri, en varla  stýrikona, iðnaðarkona, forkona. Eins hefur eitthvað borið á því að notaðar séu kvenkynsmyndir af öðrum karlkynsorðum í starfsheitum, s.s. framkvæmdastýra, verslunarstýra, hótelstýra, þula o.fl.

Milli málfræðilegs kyns annars vegar og kynferðis fólks hins vegar er ekkert beint samband, og ýmis alþekkt dæmi eru um ósamræmi þarna á milli. Þannig er kvenkynsorðið hetja ekki síður notað um karlmenn, hvorugkynsorðið skáld getur vísað til karla og kvenna, hvorugkynsorðin sprund og fljóð merkja ʻkonaʼ, og mörg fleiri dæmi mætti nefna. Það breytir því ekki að í huga málnotenda, margra hverra a.m.k., eru sterk tengsl þarna á milli. Þetta á ekki síst við um orðið maður vegna tvíeðlis þess – það er svo oft notað til að vísa til karlmanna eingöngu. Þess vegna finnst mörgum konum og kynsegin fólki, sem skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns, starfsheiti sem enda á -maður ekki höfða til sín, eins og kemur m.a. fram í því að oft hafa verið búin til samsvarandi starfsheiti með -kona eins og áður segir.

Það er hins vegar ekki sérlega góð lausn að setja -kona í stað -maður, eða búa til kvenkynsform eins og -stýra í stað -stjóri. Í fyrsta lagi breytir það engu fyrir kynsegin fólk – kvenkynsorðin höfða ekkert frekar til þess. Í öðru lagi er ekki hentugt að starfsheiti fari eftir kyni þess einstaklings sem gegnir starfinu. Með því er gefið í skyn að eðli starfsins sé mismunandi eftir því hvort um er að ræða karl, konu eða kvár (nýyrði um kynsegin einstakling). En þótt fólk sé hvorugkynsorð og þar með hlutlaust í einhverjum skilningi er það ekki heppilegt til nota í kynhlutlausum starfsheitum vegna þess að það hefur fleirtölumerkingu þótt það sé formlega séð eintala. Það væri auðvelt að tala um vísindafólk í staðinn fyrir vísindamenn, en ef við þurfum að tala um vísindamann lendum við í vanda.

Það hefur verið stungið upp á ýmsum leiðum til að komast hjá því að nota orðið maður og samsetningar af því í kynhlutlausu samhengi. Ríkisútvarpið hætti t.d. fyrir nokkru að velja mann ársins og velur nú manneskju ársins í staðinn. En manneskja er kvenkynsorð og tengist konum meira en körlum í huga margra, auk þess sem það er mun stirðara í samsetningum en maður. Einnig eru dæmi um að orðið man sé notað í þessum tilgangi, og orð eins og forstöðuman og alþingisman hafa verið búin til. Enn sem komið er virðast þó aðeins konur hafa tekið þetta upp, sem dregur vitanlega úr líkum á því að málnotendur skynji man sem kynhlutlaust orð. Þá hefur verið stungið upp á að nota orðið menni sem hingað til hefur aðeins verið seinni liður samsetninga eins og góðmenni, illmenni, ungmenni o.s.frv.

Það er vitaskuld æskilegt að almenn sátt sé í málsamfélaginu um merkingu og notkun orða. Það er vitað að mörgum konum og kynsegin fólki finnst karlkyns starfsheiti, sérstaklega þau sem enda á -maður, ekki höfða nægilega til sín, og vegna hinnar tvöföldu merkingar orðsins maður er það skiljanlegt. Þess vegna væri æskilegt að nota hlutlausari orð. Á hinn bóginn eru karlkyns starfsheiti svo mörg og rótgróin í málinu að það væri meiriháttar mál að skipta þeim út fyrir kynhlutlaus orð. Það er ekki heldur ljóst hvernig ætti að standa að því og hvað ætti að koma í staðinn, og um slíka breytingu yrði engin sátt í málsamfélaginu að svo stöddu. Að mínu mati er skynsamlegasta leiðin – og raunar eina leiðin – að láta málsamfélagið um þetta en reyna ekki að miðstýra því. Ef almennur vilji er til að breyta þessu breytist það smátt og smátt.