Gerðir samsettra orða

Formleg tengsl liða í samsettum orðum eru einkum með tvennu móti. Algengast er að orð séu annaðhvort fast samsett (stofnsamsett), þar sem fyrri liðurinn er stofn orðsins, án beygingarendingar, t.d. snjó+hús, vit+laus, bók­+hneigður; eða laust samsett (eignarfallssamsett), þar sem fyrri liðurinn er eignarfallsmynd orðsins í eintölu eða fleirtölu, t.d. jarð-ar+verð, sjúk-ra+hús, dag-s+verk. Það virðist oft vera tilviljun hvor þessara aðferða er notuð, og jafnvel eru til tvímyndir sem geta haft mismunandi merkingu, eins og féhirðir og fjárhirðir.

Þó virðist oft vera leitast við að forðast að langir samhljóða­klasar komi fram á skilunum og það fer eftir gerð stofns og endingar fyrri hlutans hvor aðferðin hentar betur til þess. Þannig er fasta samsetningin stól+fótur liprari en lausa samsetn­ingin *stól-s+fótur væri, því að ‑lf‑ er þægilegri klasi en ‑lsf‑. Hins vegar er fasta samsetningin jarð-ar+verð liprari en *jarð+verð, því að ‑rðv‑ er óþægilegur klasi. Innskot endinganna -a og -ar sem innihalda sérhljóð hefur líka áhrif á atkvæðafjölda og hrynjandi sem getur skipt máli.

Þótt ending eignarfalls eintölu eða fleirtölu sé vissulega nýtt til að tengja samsetningarliði er í raun hæpið að líta svo á að fyrri liður samsetningarinnar sé í eignarfalli. Eignarfallsendingin hefur sem sé ekki sömu merkingu og hlutverk í samsetta orðinu og í orðinu sjálfstæðu, heldur þjónar þeim tilgangi að merkja skilin og vera bindiefni milli liðanna, auk þess sem hún brýtur oft upp erfiða samhljóðaklasa eins og áður segir. Þetta má sjá á ýmsu.

Eitt er það að stundum fá orð aðra endingu í samsetningum en ein sér. Þetta er t.d. algengt í föðurnöfnum þar sem fólk er Guðmundsson og Guðmundsdóttir þótt ævinlega sé sagt til Guðmundar. Annað er að ýmist er notuð ending eignarfalls eintölu eða fleirtölu án þess að valið þar á milli hafi merkingarlegt gildi, sbr. dæmi eins og rækjusamloka og perutré annars vegar en nautalund og lambalæri hins vegar. Í sumum tilvikum koma líka á skilunum hljóð sem ekki geta verið eignarfallsending.

Þannig er t.d. í samsetningum með rusl sem er hvorugkynsorð sem endar á -s í eignarfalli eintölu, en er ekki notað í fleirtölu – það er aldrei talað um *mörg rusl heldur mikið rusl. Því gæti maður búist við að í samsetningum væri annaðhvort notaður stofninn eða eignarfall eintölu. En hvorki *ruslfata*ruslsfata eru venjulegar samsetningar, heldur ruslafata þar sem eitthvert a kemur inn á milli samsetningarliðanna, og sama máli gegnir um aðrar samsetningar – ruslakarfa,  ruslatunna, ruslahaugur o.s.frv.

Þarna verður að líta svo á að a sé stungið inn til að forðast erfiða samhljóðaklasa. Þetta er kallað tengihljóðssamsetning eða bandstafssamsetning. Tengihljóðið er venjulega eitthvert sérhljóðanna a, i eða uruslafata, eldiviður, ráðunautur. Þessi tegund samsetningar er ekki mjög algeng í formlegu máli, en í óformlegri orðmyndun, ekki síst hjá börnum, er hún hins vegar algeng – dótabúð, stoppistöð, hoppukastali o.s.frv.

Sum kvenkynsorð sem enda á -i eru eins í öllum föllum og í samsetningum er þá algengt að skotið sé inn -s á skilunum enda þótt fyrri liðurinn hafi aldrei ‑s‑endingu einn sér; leikfimishús, keppnismaður, landhelgisgæslaathyglisverður o.fl. Oft er amast við þessu á þeim forsendum að þarna sé notuð röng beygingarmynd, og reynt að nota leikfimihús og athygliverður í staðinn – en tæpast keppnimaður eða *landhelgigæsla.

Orðið athygli var reyndar áður ekki síður hvorugkyns en kvenkyns og athyglis er rétt eignarfall af hvorugkynsorði þannig að athyglisverður er rétt myndað orð. En hin orðin eru það líka – þau eru mynduð með bindiefni eins og þau orð sem kölluð eru eignarfallssamsett. Bindiefnið er vissulega ekki fengið úr venjulegri eignarfallsendingu orðanna en þannig er það ekki heldur í orðum eins og ruslafataeldiviðurráðunautur og öðrum fullgildum og viðurkenndum orðum. Það má vel kalla s tengihljóð eða bandstaf í þessum orðum.