Hönd, hendi, hend?

Einu sinni fyrir óralöngu var ég að stjórna fundi í Menntaskólanum á Akureyri og bað þá sem styddu einhverja tillögu að rétta upp hend. Í því gekk skólameistari í salinn og sagði mér að segja rétta upp hönd. Auðvitað leiðrétti ég mig samstundis enda var ég mikill málvöndunarmaður í þá daga og vildi tala „rétt“, og þessi „mistök“ hafa setið í mér síðan. Í Málfarsbankanum segir: „Það er í samræmi við upprunalega beygingu að segja: höndin á honum stóð fram úr erminni, hann tók í höndina á mér, hún rétti mér höndina, hún hélt á töskunni í hendinni. Síður: „hendin á honum stóð fram úr erminni“, „hann tók í hendina á mér“, „hún rétti mér hendina“, „hún hélt á töskunni í höndinni“.“

En orðið hönd er viðsjálsgripur. Það víkur frá því annars ófrávíkjanlega mynstri kvenkynsorða að vera eins í þolfalli og þágufalli eintölu, því að viðurkennd beyging er höndhöndhendihandar. Það er auðvitað ekki furða þótt svo afbrigðileg beyging raskist eitthvað, enda hefur það gerst á ýmsan hátt. Reyndar eru til nokkur önnur dæmi um að sterk kvenkynsorð fái endingu í þágufalli þótt þau séu endingarlaus í þolfalli – orð eins og jörð, mold, stund og fáein fleiri – en þar er um að ræða leifar eldri beygingar sem birtast einkum í föstum orðasamböndum, og endingarlausa myndin er sú venjulega og nýtur fullkominnar viðurkenningar.

Miðað við mynstur annarra kvenkynsorða væri eðlilegast að þágufallið breyttist og yrði hönd í stað hendi – beygingin er þá höndhöndhöndhandar og fellur fullkomlega að venjulegu beygingarmynstri kvenkynsorða. Þetta gerist vissulega, en ekki síður hitt, að þágufallsmyndin yfirtaki nefnifall og þolfall þannig að beygingin verði hendihendihendihandar. Á þann hátt næst einnig samræmi við þekkt beygingarmynstur, eins og heiðiheiði heiði heiðar. Þótt bæði þessi tilbrigði í beygingu orðsins séu í góðu samræmi við málkerfið nýtur hvorugt þeirra viðurkenningar eins og fram kemur í tilvitnuninni í Málfarsbankann.

En fleiri afbrigði eru til. Í knattspyrnumáli er notuð myndin hendi – það er aldrei dæmd *hönd á leikmann. Þessi mynd er líka notuð í eignarfalli – markið var dæmt af vegna hendi, alls ekki *vegna handar. Orðið beygist þá hendi hendihendihendi. Þetta afbrigði beygingarinnar fellur líka að þekktu mynstri kvenkynsorða sem enda á -i, t.d. gleði. Og svo er myndin sem nefnd var í upphafi, þolfallsmyndin hend, án endingar – orðið getur sem sé líka beygst hendhendhendhandar. Sú beyging er auðvitað í fullu samræmi við beygingu flestra sterkra kvenkynsorða.

Enn er ekki allt upptalið. Það er vel þekkt að orð beygist öðruvísi í samsetningum en ein sér, venjulega þá þannig að afbrigðileiki í beygingunni skilar sér ekki inn í samsetta orðið. Þannig er þágufall samsetninga með hönd oft eða alltaf -hönd frekar en -hendi – venjulega er sagt með sömu rithönd frekar en rithendi, og oftast er talað um að hafa eitthvað í bakhöndinni. Einnig kemur fleirtalan handir stundum fyrir, einkum í merkingunni 'rithendur'. Fleirtalan höndur var líka nokkuð algeng áður fyrr, framan af 20. öld, og ég man eftir fólki fæddu í lok 19. aldar sem notaði hana. En hún er nú líklega alveg horfin.

Hér hafa verið nefnd fjögur afbrigði beygingar orðsins hönd/hendi/hend sem öll eiga það sameiginlegt að samræmast þekktum beygingarmynstrum kvenkynsorða. Fimmta mynstrið, það sem talið er „rétt“, er það eina sem gerir það ekki. Sambærilegar breytingar á breytingu ýmissa orða eru fullkomlega viðurkenndar, t.d. brottfall -u í þágufalli ýmissa kvenkynsorða.  „Viðurkennda“ beygingin höndhönd hendihandar er leifar af fornu beygingarmynstri og var afbrigðileg þegar í fornu máli.  Er ekki tími til kominn að taka önnur mynstur í sátt?