Setningarugl

Í nútímamáli er stundum val milli tveggja setningagerða í aukasetningum til að orða sömu merkingu; annars vegar setninga tengdra með og sögn í persónu­hætti og hins vegar ótengdra setninga með nafnháttarsögn:

  • Mér fannst að ég væri ríkur.
  • Mér fannst ég vera ríkur.

Í nútíma­máli er seinni setningagerðin margfalt algengari en sú fyrri, og þótt einhver blæ- eða stílmunur kunni að vera á setningunum tveimur er merking þeirra sú sama. En svo er – eða var –  til þriðja gerðin: „Stundum er blandað saman að-setningu og nefnifalli með nafn­hætti, einkum á eftir sögnunum þykja, finnast, lítast, sýnast, virðast“, segir Jakob Jóh. Smári í Íslenzkri setningafræði (1920):

  • Mér fannst að ég vera ríkur.

Þetta er mjög sjaldgæft í nútímamáli og verkar yfirleitt á málnotendur sem einhvers konar óregla eða villa — og er það kannski oftast. Það var a.m.k. skoðun Björns Guð­finns­sonar sem tekur eftirfarandi setningu upp úr þýddri sögu í greininni „Tilræði við íslenzkt mál“ í Andvara 1940 og flokkar hana undir „setningarugl“ sem hann skilgreinir þó ekki nánar:

  • Mjer fanst ávalt hún vera í nánd við mig.

Ég býst við að flestir nútíma málnotendur gætu tekið undir með Birni. En í textum frá seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. er þessi setningagerð nokkuð algeng – mun algengari en svo að hægt sé að líta fram hjá henni og afgreiða sem mistök eða villu. Hún blómstraði kringum alda­mótin 1900 en hnignaði síðan smátt og smátt, einkum um og eftir miðja 20. öld, og er nú nær eða alveg horfin ef marka má íslensk blöð og tíma­rit. ­Hins vegar lifði hún góðu lífi í Vesturheimi alla 20. öldina og jafnvel enn, sam­kvæmt bréfum Vestur-Íslendinga og viðtölum við þá.

Óvíst er hvað olli uppgangi þessarara setningagerðar seint á 19. öld, og orsakir hnignunar hennar og hvarfs eru sömuleiðis á huldu. Þó er líklegt að lág tíðni og sam­keppni við aðrar setn­inga­gerðir hafi ráðið þar miklu, en í vestur­íslensku gætu ensk áhrif hafa stuðlað að betri varðveislu hennar. Að auki er trúlegt að leiðréttingar og neikvætt við­horf til setninga­gerðar­innar hafi ráðið einhverju um hnignun hennar. At­hyglis­vert dæmi sem bendir í þá átt er að finna í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Í ann­arri útgáfu þjóðsagnanna er að finna eftirfarandi dæmi, bæði úr sömu sögunni:

  • Sofnar hann nú aftur og þótti honum að kerling koma í annað skipti.
  • Sofnar hann nú í þriðja sinn; þótti honum að hún þá koma aftur.

En í frumútgáfu þjóðsagnanna eru setn­ing­arnar dálítið öðruvísi:

  • Sofnar hann nú aptur, og þókti honum, að kerlíng kæmi í annað skipti.
  • Sofnar hann nú í þriðja sinn; þókti honum hún koma þá aptur.

Það er vitað að Jón Árnason umskrifaði mörg þjóðsagnahandrit sem hann fékk frá öðrum, en önnur útgáfa var hins vegar prentuð eftir upphaflegu handritunum eftir því sem kostur var. Það virðist ljóst að hér hefur Jón Árnason breytt textanum til að losna við blönduðu setninga­gerðina. Í fyrra skiptið setur hann tengda persónuháttarsetningu í staðinn, en í það seinna ótengda nafnháttarsetningu.

Þessi setningagerð kemur fyrir í skáld­verkum margra helstu rithöfunda þjóðarinnar kringum aldamótin 1900 og því ekkert sem bendir til þess að rithöfundar hafi forðast hana sér­stak­lega eða nokkuð hafi þótt athugavert við hana í byrjun 20. aldar. Viðhorfið hefur þó greinilega breyst þegar kom fram á 20. öldina. Þannig segir Jakob Jóh. Smári í Íslenzkri setningafræði: „Þetta ber að varast.“ Það er líka ljóst af orðum Björns Guð­finns­sonar um „setninga­rugl“ að hann fordæmdi þessa setn­inga­gerð, og alþekkt er að skoð­anir hans höfðu mikil áhrif á sínum tíma.