Sjálfs sín(s) herra

Í Málfarsbankanum segir: ­­„Rétt er að segja að einhver sé sjálfs sín herra en ekki „sjálfs síns herra“.“ Báðar myndirnar, sín og síns, eru vitanlega fullgildar fornafnsmyndir. Sú síðarnefnda er eignarfall eintölu í karlkyni og hvorugkyni af eignarfornafninu sinn, en sú fyrrnefnda getur bæði verið eignarfall afturbeygða fornafnsins sig og nefnifall eintölu í kvenkyni og nefnifall og þolfall fleirtölu í hvorugkyni af sinn. Vandinn er sá að hvorugt á við í sambandinu sjálfs sín(s) herra. Þar mætti búast við eignarfornafni sem stæði með herra, en það ætti þá að vera í sama kyni, tölu og falli, þ.e. karlkyni, eintölu og nefnifalli, og vera *sjálfs sinn herra – og það gengur ekki.

Það mætti líka búast við að hægt væri að sleppa sjálfs og láta sín(s) standa eftir – en það er hvorki hægt að segja *hann er sín herra né *hann er síns herra. En hvað er þá sín(s)? Í fornu máli var eignarfornafnið iðulega hliðstætt nafnorðinu sem það á við – stendur í sama kyni, tölu og falli. Þetta samband eignarfornafns og nafnorðs tók síðan með sér sjálfur í eignarfalli, en kyn og tala á sjálfur réðst af undanfaranum, þ.e. orðinu sem sjálfur vísaði til. Í Snorra-Eddu segir: „stjórnari himintunglanna, sá er stilla mundi gang þeirra að vilja sínum sjálfs“, og í Sturlungu segir „Páll Kolbeinsson og þeir menn er með honum voru höfðu eigi ránsfé og voru á sínum kosti sjálfra“. Hér er undanfari fornafnanna sinn og sjálfur undirstrikaður.

Í þessum dæmum hegðar eignarfornafnið sér sem sé alveg eins og það gerir án sjálfur, og hægt er að fella sjálfur brott án þess að nokkuð breytist í gerð setninganna. Eins og sést í dæmunum hér á undan fara merkingarleg og setningafræðileg skil ekki saman. Setningafræðilega stendur eignarfornafnið með nafnorðinu, sambeygist því, en það myndar aftur á móti merkingarlega heild með sjálfur. Þetta er býsna flókið og því er í sjálfu sér ekkert skrítið að þetta samband taki breytingum. Þegar í fornu máli má finna ýmis dæmi um að eignarfornafnið sambeygist sjálfur í stað þess að sambeygjast nafnorðinu, en sjálfur þiggur sem fyrr kyn og tölu frá undanfara sínum. Í Sturlungu segir: „og veitti hann Þorvarði mikið lið með sjálfs síns framkvæmd og rösklegri framgöngu“ (í stað framkvæmd sinni sjálfs).

Í margar aldir virðist sambandið sjálfs síns hafa verið einhaft, og það er ekki fyrr en eftir miðja 19. öld sem fer að bera á dæmum um sjálfs sín og dæmum um sjálfs síns að fækka. Jakob Jóh. Smári segir í Íslenzkri setningafræði fyrir 100 árum: „reglan í nýísl. ritmáli er sú, að nota eignarfall af »sjálfur« í réttri tölu og eignarfall persónufornafnsins, en ekki eignarfornafn (t.d. stela úr sjálfs sín hendi, eg kom til sjálfs mín aftur, hún kom til sjálfrar sín, þeir gæta sjálfra sín, kraftur sjálfra vor o.s.frv.).“ Það er þó töluvert um að sjálfs sín og sjálfs síns vísi til undanfara í kvenkyni eða fleirtölu þar sem búast mætti við sjálfrar eða sjálfra: „Kristrún í Hamravík bar einnig höfuðið hátt fyrir sjálfs síns hönd“ (í stað sjálfrar sín); „Menn eiga að verða sjálfs síns herrar en jafnframt hjálpa þeim sem er hjálpar þörf“ (í stað sjálfra sín).

Eins og áður er nefnt getur sín(s) í samböndum eins og sjálfs sín(s) herra, sjálfs sín(s) sök o.fl. hvorki verið mynd af afturbeygða fornafninu sig né eignarfornafninu sinn. Ég sé ekki betur en það verði að líta á sjálf(s) sín sem sérstakt tvíyrt fornafn. Hvorki sjálfs sínssjálfs sín er upprunalegt, en sjálfs síns er eldra og á sér óslitna hefð allt frá fornmáli, en varla er hægt að tala um að hefðin fyrir sjálfs sín sé eldri en frá seinni hluta 19. aldar. Vissulega er sjálfs sín algengast í nútímamáli, en sjálfs síns er þó mjög algengt líka, a.m.k. í talmáli og óformlegu ritmáli. Ég sé engar forsendur fyrir því að telja það rangt.