Læks eða lækjar?

Eitt þeirra atriða sem helst eru á reiki í beygingu íslenskra orða er eignarfall eintölu sterkbeygðra karlkynsorða. Þar er frá fornu fari um tvær endingar að ræða, ‑s, eins og í hests, akurs, og ‑ar, eins og í matar, staðar. Sum orð taka eingöngu aðra endinguna og hafa alltaf gert, önnur geta tekið hvora endinguna sem er, og enn önnur hafa alveg skipt um flokk, og taka nú alltaf aðra endingu en í fornmáli. En færsla orða milli flokka að þessu leyti er ekki ný bóla; þegar í fornmáli hafði fjöldi orða tvímyndir í eignarfalli, eins og veggs og veggjar, beðs og beðjar, garðs og garðar, vegs og vegar o.fl.

Í nútímamáli virðist vera nokkuð sterk tilhneiging til að setja ‑s í stað ‑ar í mörgum nafnorðum. Orðið vefur var venjulega vefjar í eignarfalli þótt vefs kæmi einnig fyrir, og sú mynd er yfirleitt notuð í nýju merkingunni sem orðið bætti við sig þegar það gekk í endurnýjun lífdaga fyrir aldarfjórðungi. Myndir eins og tugs í stað tugar eru mjög algengar, og einnig kemur fyrir staðs í stað staðar, mökks í stað makkar, þátts í stað þáttar, læks í stað lækjar, og fjölmörg fleiri. Í raun sýnist mér að hægt sé að finna dæmi um -s-eignarfall í stað -ar á stórum hluta þeirra sterku karlkynsorða þar sem stofninn endar á einu samhljóði, og margar þeirra mynda koma fyrir þegar á 19. öld eða fyrr.

Þetta er í sjálfu sér skiljanleg tilhneiging. Meirihluti sterkra karlkynsnafnorða endar frá fornu fari á ‑s í eignarfalli, og ekki skrítið að sá sægur dragi fleiri til sín. En annað gæti líka komið til; ‑s er nefnilega frá merkingarlegu sjónarmiði miklu betri eignarfallsending en -ar, því að hún getur ekki táknað neitt annað en eignarfall eintölu í karlkyni eða hvorugkyni. Aftur á móti er ‑ar margræð ending, getur einnig táknað nefnifall fleirtölu í karlkyni, eins og í hestar, strákar, pennar,  og nefnifall og þolfall fleirtölu í kvenkyni, eins og í skálar, vélar. Það má því hugsanlega halda því fram að með því að auka veg ‑s‑endingarinnar aukist skýrleiki málsins.

Reyndar haga sum karlmannsnöfn sér þveröfugt að þessu leyti, því að í þeim sækir -ar-endingin á. Haraldar og Höskuldar eru nú mun algengari myndir en eldri myndirnar Haralds og Höskulds, og í mörgum öðrum nöfnum sækir -ar-ending á – iðulega er t.d. sagt Ágústar og Þórhallar í stað Ágústs og Þórhalls áður, svo að dæmi séu tekin. Stofn þeirra nafna sem hafa tilhneigingu til að fá ‑ar‑endingu endar á samhljóðaklasa, þ.e. fleiri en einu samhljóði; og þegar eignarfalls‑s‑ið bætist við eru þar komin a.m.k. þrjú samhljóð saman. Slíkir samhljóðaklasar geta verið strembnir í framburði, og ein leið til að komast fram hjá þeim erfiðleikum er að losa sig við eitt samhljóðið með því að skipta um endingu; setja ‑ar í stað ‑s. Vegna þess að mannanöfn eru sjaldan notuð í fleirtölu er -ar-endingin tæpast tvíræð í þeim.

Vitaskuld má segja að eðlilegt og æskilegt sé að halda sig við hefð í beygingu orða, og ég skil vel að fólki bregði við þegar það heyrir eða sér aðra eignarfallsmynd en það er vant. Hins vegar fæ ég ekki séð að þessar breytingar séu ýkja alvarlegar. Fjöldi orða hefur hvort eð er skipt um beygingarflokk, og slíkir smámunur gera forna texta ekki illskiljanlega. Hér er ekki heldur um það að ræða að nein beyging hverfi úr málinu; bæði ‑s‑ og ‑ar‑endingarnar halda velli, þótt þær séu ekki á alveg sömu orðum og áður. Þessar breytingar minnka því ekki fjölbreytni málsins á neinn hátt, að því er ég best fæ séð. Ég sé því enga ástæðu til að berjast gegn þeim af miklum krafti.