Að humma lag

Í gær sá ég á vef RÚV pistil með fyrirsögninni „Ekki hægt að „humma“ Þorparann“. Í pistlinum kom sögnin humma fyrir nokkrum sinnum og nafnorðinu humm brá einnig fyrir – alltaf innan gæsalappa sem bendir til þess að pistilskrifara hafi þótt ástæða til að afsaka notkun þessara orða. Það stafar væntanlega af því að þessi notkun sagnarinnar er nokkuð augljóslega komin beint úr ensku – þar merkir sögnin hum ‘raula, söngla (með lokaðan munn)’ samkvæmt Ensk-íslenskri orðabók. Þessi málnotkun er ekki einsdæmi – elsta dæmi sem ég hef fundið um sambandið humma lag er frá 1980 en annars eru dæmin um þetta frá allra síðustu árum.

Sögnin humma er vitaskuld til í íslensku, í merkingunni ‘ræskja sig’. Yfirleitt er hún samt ekki notuð um það þegar maður ræskir sig vegna einhvers hroða í hálsinum, heldur hefur ræskingin merkingu – gefur til kynna að maður vilji fá orðið, gera athugasemdir við orð annarra, eða eitthvað slíkt. Nafnorðið humm er líka í orðabókum og skýrt þannig að það tákni hik, vandræði eða óvissu. Sögnin er líka algeng í sambandinu humma fram af sér. Bæði sögnin og nafnorðið eru því viðurkennd í málinu, en það er ekki hefð fyrir þeim í þeirri merkingu sem þeim var gefin í pistlinum sem vísað er til í upphafi.

En þótt þessi notkun sagnarinnar sé nokkuð augljóslega komin úr ensku er það í sjálfu sér ekki næg ástæða til að amast við henni – nema hefð sé fyrir öðru orðalagi á íslensku um þessa athöfn. Spurningin er hvort svo sé. Er hægt að nota sögnina raula um þetta, eða fylgir texti með þegar maður raular? Eða er einhver önnur sögn í málinu sem venja er eða hægt er að nota í þessari merkingu? Eða er bara í fínu lagi að nota humma?