Má bæta við persónufornafni?

Íslenska hefur þrjú málfræðileg kyn. Það væri sannarlega mjög mikið inngrip í málkerfið og meira en lítið vafasamt að ætla sér að breyta þessu. En með upptöku persónufornafnsins hán er ekki verið að bæta við fjórða kyninu í íslensku, því að hán er hvorugkyns og hvorugkyn er til í málinu. Það er bara verið að koma með nýtt orð sem leysir orð sem fyrir er af hólmi að hluta til. Í staðinn fyrir að hafa eitt orð, það, til að tákna þriðju persónu eintölu, höfum við nú tvö, það og hán.

Þetta er meira að segja ekkert einsdæmi í málinu. Til skamms tíma, meðan þéringar tíðkuðust enn, höfðum við tvö fornöfn til að tákna aðra persónu – venjulega fornafnið þú, í fleirtölu þið, og svo þér bæði í eintölu og fleirtölu. Þessi fornöfn höfðu með sér verkaskiptingu, þannig að þú var notað við allar venjulegar aðstæður en þér við fólk sem maður þekkti ekki eða til að sýna virðingu. Svipað má segja um fyrstu persónuna – þar höfum við ég, í fleirtölu við, en fornafnið vér var notað í upphöfnu tali bæði fyrir eintöluna og fleirtöluna.

Ég hef heyrt því haldið fram að þótt ekki sé verið að bæta við kyni sé þarna verið að breyta málkerfinu með því að búa til nýja málfræðilega formdeild, nýja tegund af flokkun – í fólk, sem vísað er til með hán, og dýr og dauða hluti, sem vísað er til með það. En slík flokkun er þegar fyrir hendi í kerfinu, a.m.k. hjá þeim sem vilja binda orð eins og étalöpp o.fl. við dýr en nota borðafótur o.s.frv. um fólk.

Í skólum er yfirleitt kennt að orðflokkarnir skiptist í opna og lokaða flokka. Opnir eru þá þeir flokkar sem geta bætt við sig nýjum orðum – aðallega nafnorð, en einnig lýsingarorð, sagnir, og að einhverju marki atviksorð. Samtengingar, forsetningar og fornöfn eru aftur á móti taldir lokaðir orðflokkar því að í þá bætist ekki ný orð. Það er líka talað um þetta sem mun á inntaksorðum og kerfisorðum. En ef fornöfn eru lokaður orðflokkur, hvernig er þá hægt að bæta við nýju fornafni?

Það er augljóst af hverju nafnorð, lýsingarorð og sagnorð eru opnir flokkar – það hlýst af eðli þessara flokka. Það eru alltaf að koma ný fyrirbæri eða nýjar hugmyndir sem þurfa nöfn, það þarf að lýsa fyrirbærum á nýjan hátt, og það eru alltaf að koma til nýjar athafnir eða aðgerðir. Um fornöfn, forsetningar og samtengingar gegnir öðru máli. Orð af þessum flokkum hafa fyrst og fremst hlutverk innan málsins, eru kerfisorð – lýsa ákveðnum venslum milli orða og setninga. Slík vensl breytast ekki svo glatt og þess vegna er sjaldan þörf fyrir ný orð af þessum flokkum. En lokuðu orðflokkarnir eru reyndar ekki harðlokaðir.

Orðið allur er t.d. greint sem lýsingarorð í eldri málfræðibókum en nú er það alltaf greint sem óákveðið fornafn og samkvæmt því hefur þar bæst orð í lokaðan orðflokk. Það hafa líka bæst við forsetningar og samtengingar frá fornu máli til nútímamáls. Það má sem sé halda því fram að ástæðan fyrir því að þessir flokkar eru venjulega taldir lokaðir sé ekki sú að þeir geti ekki tekið við nýjum orðum, heldur fremur sú að við þurfum svo sjaldan ný orð af því tagi sem þessir flokkar hafa að geyma. En ef við þurfum á þeim að halda, þá er alveg hægt að bæta þeim við.

Þannig er í þessu tilviki. Ég get alveg tekið undir það að handstýring tungumálsins er almennt séð óæskileg. En það er ekki síður óæskilegt að hópur fólks upplifi sig utangarðs í móðurmáli sínu. Vissulega er ekkert auðvelt að breyta málnotkun sinni þegar um er að ræða fyrirbæri sem eru jafn inngróin í málkerfi manns og persónufornöfn. Ég þarf alltaf að hugsa mig um þegar ég nota hán – en það þarf ég líka að gera þegar ég nota orðin ær og kýr. Þetta tekur tíma – en það þýðir ekki að það sé ógerlegt.