Sagnasamsetningar

Í gær sá ég á vef Fréttablaðsins fyrirsögnina „Frelsissviptur, laminn og rændur“, og fyrir helgi sá ég í frétt í DV setninguna „Í gær nafnbirti Morgunblaðið þennan mann“. Þarna eru tvö dæmi um samsettar sagnir sem hafa verið nokkuð áberandi í málinu að undanförnu, ekki síst í umræðu um hvers kyns lögreglumál. Auk frelsissvipta og nafnbirta má nefna haldleggja, ökuleyfissviptamyndbirta og örugglega fleiri. Samsettar sagnir af þessu tagi, með nafnorð sem fyrri lið, eru ekki ýkja margar í málinu þótt sumar eigi sér vissulega hefð. Finna má nokkurra áratuga gömul dæmi um flestar þessara sagna en notkun þeirra virðist hafa aukist mjög á allra síðustu árum og einhverjar bæst við.

Til skamms tíma hefði fremur verið sagt maðurinn svipti hana frelsi en maðurinn frelsissvipti hana, fremur lögreglan lagði hald á efnið en lögreglan haldlagði efnið, fremur blaðið birti mynd af honum en blaðið myndbirti hann, fremur blaðið birti nafn hennar en blaðið nafnbirti hana. Þarna er andlag sagnarinnar (beint andlag ef hún hefur tvö, eins og svipta) gert að fyrri lið samsettrar sagnar. Samsetta sögnin fær svo nýtt andlag sem getur haft mismunandi uppruna – í forsetningarlið eins og með haldleggja og myndbirta, sem eignarfallseinkunn eins og með nafnbirta, og e.t.v. kemur fleira til greina. Nýja andlagið fær þolfall, a.m.k. í þessum dæmum, óháð því hvaða fall það hafði í stöðu sinni með ósamsettri sögn.

Í öllum þessum tilvikum eru til samsett nafnorð með viðskeytinu -ing sem samsvara sögnunum – frelsissvipting, haldlagning, myndbirting, nafnbirting. Viðskeytið -ing gegnir því hlutverki að mynda verknaðarnafnorð af sögnum – svipting er 'það að svipta', lagning er 'það að leggja', birting er 'það að birta' o.s.frv. Þegar orð með -ing eru samsett kemur tvennt til. Annaðhvort er -ing-nafnorð myndað fyrst af sögninni og öðrum lið svo bætt framan á það (birta+ing > birting, nafn+birting > nafnbirting), eða samsetta sögnin er mynduð fyrst og síðan myndað verknaðarnafnorð af henni með því að skeyta við hana -ing (nafn+birta > nafnbirta, nafnbirta+ing > nafnbirting).

Ef marka má tímarit.is eru flest eða öll samsettu -ing-orðin eldri en samsettu sagnirnar – í mörgum tilvikum töluvert eldri. Það bendir til þess að fyrri möguleikinn hér á undan sé sá rétti. Það er í sjálfu sér viðbúið – samsett nafnorð af þessu tagi eru algeng í málinu og eiga sér langa hefð en samsettar sagnir sjaldgæfar. En það þýðir aftur að samsettu sagnirnar eru myndaðar af samsettu nafnorðunum en ekki öfugt. Þetta er í raun og veru mjög áhugaverð niðurstaða vegna þess að þarna er hefðbundnu orðmyndunarferli snúið við. Málnotendur vita að -ing-nafnorði samsvarar venjulega sögn og búa hana til út frá nafnorðinu með því að draga -ing frá (nafnbirting÷ing > nafnbirta) í stað þess að -ing-nafnorðið sé myndað af sögn eins og venja er.

Slík „öfug“ orðmyndun er svo sem ekki einsdæmi þótt hún sé sjaldgæf. Sögnin jólaskreyta er t.d. meira en hálfrar aldar gömul og sennilega mynduð af nafnorðinu jólaskraut þótt vissulega sé hugsanlegt að sögnin skreyta sé tekin og jóla- bætt framan við til að sýna um hvers konar skreytingu er að ræða. En fjölgun og aukin notkun sagna af þessu tagi gæti bent til þess að tilfinning málnotenda fyrir eðli og gerð íslenskra sagna sé eitthvað að breytast. Þessar sagnir trufla mig ekki sérstaklega, og hér má hafa í huga að oft er talað um að íslenska sé sagnamál fremur en nafnorða, og betra sé að nota færri orð en fleiri. Þessar sagnir bæði stytta setningar og fækka nafnorðum í þeim. Fólk getur svo haft misjafnar skoðanir á því hvort það sé næg réttlæting fyrir þessari nýbreytni.