Eitt fólk?

Í umræðu um mál og kyn í Facebook-hópnum Málspjall nefndi Lára Ómarsdóttir að ungt fólk í sínu umhverfi notaði orðið fólk á nýstárlegan hátt, til að vísa til einstaklings af ótilgreindu kyni, og talaði um eitt fólk og mörg fólk. Ég veit ekki hversu útbreitt þetta er en ég hef a.m.k. aldrei heyrt það fyrr og geri ráð fyrir að það hljómi framandi og jafnvel fáránlega í eyrum flestra. En þegar eitthvert nýtt málbrigði ber fyrir augu eða eyru er ekki endilega vænlegt til árangurs að fordæma það umsvifalaust og vísa því út í hafsauga. Skynsamlegra og skemmtilegra er að velta fyrir sér hvert eðli þess er og hvers vegna það kemur upp – og taka afstöðu að því loknu.

Auðvitað er fólk dálítið sérstakt orð – formlega séð eintöluorð þótt það vísi til hóps (í hefðbundnu máli). Þess vegna er talað um margt fólk og allt fólkið, ekki mörg fólk og öll fólkin, og þess vegna er okkur kennt að vísa til þess með fornafni í eintölu, eins og segir í Málfarsbankanum: „Beygingin miðast við form orðsins, þ.e. eintöluna, fremur en merkingu þess. Allt fólkið, sem ég talaði við, ætlaði út að skemmta sér, svo sagði það a.m.k. (ekki: „allt fólkið, sem ég talaði við, ætluðu út að skemmta sér, svo sögðu þau a.m.k.“).“

Þetta getur valdið vandkvæðum og verkað truflandi, bæði vegna þess að það stríðir gegn málkennd margra að nota eintölufornafn til að vísa til hóps af fólki, og eins vegna þess að persónufornafnið það fer oft ekki vel í vísun til fólks og getur verið niðrandi að mati margra (sem er ástæðan fyrir upptöku fornafnsins hán). Enda er fleirtalan þau oft notuð í staðinn eins og flestir íslenskukennarar þekkja vel – annars þyrfti ekki að brýna það fyrir fólki að nota eintöluna.

Með því að hliðra merkingu orðsins fólk á þennan hátt mætti leysa margan vanda. Við losnuðum við að nota orðin maður og manneskja um fólk af ótilgreindu kyni. Þau orð hafa óneitanlega ákveðna tengingu við karla og konur í huga margra, þótt það sé ekki ætlun þeirra sem nota þau. Að auki gæti þetta losað okkur undan því að nota orð eins og aðili, einstaklingur, persóna o.fl. sem iðulega eru notuð í þessum tilgangi og ekki þykja alltaf fara vel.

Þarna væri vissulega verið að víkja dálítið frá venjulegri og upphaflegri merkingu orðsins fólk sem er ‘lýður, almenningur, mannfjöldi’ samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. En það er svo sem fjarri því að vera einsdæmi að merking orða breytist með tímanum og þessi breyting væri ekki meiri en ýmsar sem hafa orðið á undanförnum öldum.

Það verður forvitnilegt að sjá hvort þessi notkun breiðist út á næstu árum. Ég er ekki tilbúinn til þess enn að hafa skoðun á því hvort þessi breyting væri til bóta, ef hún gengi í gegn - vil hvorki mæla með henni né móti að svo stöddu. Það er hins vegar mikilvægt að hún er sjálfsprottin meðal málnotenda en ekki komin neins staðar að ofan. Sé það vilji málnotenda að breyta málnotkuninni á þennan hátt gerist það, sama hvað málfræðingar og aðrir segja.