Vinstri græn

Fyrir rúmum 20 árum var stofnaður stjórnmálaflokkur sem heitir fullu nafni Vinstrihreyfingin - grænt framboð en gekk yfirleitt undir nafninu Vinstri grænir framan af. Karlkynið grænir vísaði auðvitað ekki til þess að eingöngu karlmenn væru í flokknum, heldur var það notað þarna sem hlutlaust kyn - eins og eðlilegt var.

Einhvern tíma, líklega kringum 2006 ef marka má fjölda dæma á tímarit.is (innanbúðarfólk í flokknum getur væntanlega upplýst nánar um þetta) var ákveðið að hafa þessa styttingu í hvorugkyni og tala um Vinstri græn í staðinn. Ég man að mér fannst þetta kjánalegt á sínum tíma og þusaði um það við samkennara mína að þetta fólk áttaði sig ekki á því hvernig tungumálið virkaði.

Ég er hins vegar löngu búinn að venjast þessu og taka það í sátt og nota núna hvorugkynið án umhugsunar. Það hefur líka greinilega tekist að kenna þjóðinni þetta, eða a.m.k. fjölmiðlum - samkvæmt tímarit.is hefur dæmum um karlkynið vinstri grænir farið ört fækkandi á síðustu árum en dæmum um vinstri græn fjölgað að sama skapi.

Ég nefni þetta hér sem innlegg í umræðu um mál og kyn því að þetta er dæmi um að það er hægt að breyta málnotkun hvað þetta varðar. Vissulega er hér um einangrað dæmi að ræða, og auk þess sérnafn en um þau gildir oft annað en um önnur orð. Eigi að síður gæti þetta hugsanlega rutt brautina fyrir meiri breytingar í þessa átt.