Category: „Málvillur“

Að forða slysi

Sögnin forða er iðulega notuð í merkingunni 'afstýra, komast hjá' en oft er þó amast við notkun hennar í þeirri merkingu. Þannig segir Málfarsbankinn: „Sögnin forða merkir: koma undan, bjarga. Hún forðaði barninu frá bráðum bana. Það stangast á við merkingu orðsins þegar tekið er til orða á þessa leið: „Hún forðaði slysinu.“ Eðlilegra gæti verið að orða þetta fremur t.d. svona: Hún komst hjá slysi eða Hún forðaði sér frá því að lenda í slysi.“ Svipaðar athugasemdir má finna í fjölmörgum málfarspistlum og ritum frá undanförnum áratugum, en þær byggjast á misskilningi á þessu orðalagi eins og hér verður sýnt fram á.

A.m.k. 150 ára órofin hefð er fyrir því að forða einhverju geti haft merkinguna 'afstýra, komast hjá'. Í Tímanum 1872 segir „forðað þeirri eyðilegging, sem annars hefði berlega legið fyrir höndum.“ Í Ísafold 1876 er talað um „að leita láns úr landssjóði til að forða hallæri hjer í sjávarsveitunum“. Í Norðanfara 1877 segir „farið er að skjóta saman stórfje til að forða meiri mannfelli“. Í Fróða 1882 segir „sendu þangað matvæli á 10 hestum til að forða hungursneyð í bráð“. Í Þjóðólfi 1883 segir „svo málleysu sé forðað“. Í Ísafold 1888 segir „þar varð forðað miklu óhappi“. Í Ísafold 1891 segir „Hjer hafa hollar hendur að hlúð og forðað grandi“. Svo mætti lengi telja.

En fleira kemur til. Í Þjóðólfi 1856 segir „til að forða þeim kúgun þeirri, sem hér er kvartað yfir“. Í Þjóðólfi 1863 segir „að forða Reykvíkingum öllu grandi, öllum vansa“. Í Kristilegu smáriti handa Íslendingum 1865 segir „Vak þú yfir mér í dag, og forða mér öllu illu“. Í Baldri 1868 segir „geta þó fengið björg til að forða sjer hungri.“ Í Þjóðólfi 1869 segir „til að forða þeim eyðingu“. Í Þjóðólfi 1873 segir „biðja stjórnina að forða sér húngrs-dauða“. Eldri dæmi eru líka til: „Forða mér þeirri eilífu hrellingu í helvíti“ segir í Eintali sálarinnar frá 1599. „Forða mér öllu vondu athæfi / ofneyslu / ofdrykkju“ segir í Kristilegri bænabók frá 1611 – og fleiri dæmi mætti nefna.

Í þessum dæmum tekur forða sem sé með sér tvö þágufallsandlög, forða einhverjum einhverju, eins og t.d. lofahann lofaði mér öllu fögru. Það er alkunna að lofa getur sleppt fyrra andlaginu en haldið því seinna eftir – hann lofaði öllu fögru. Ekki verður betur séð en uppruna dæma eins og forða mannfelli / hungursneyð /óhappi / grandi o.s.frv. megi greina á sama hátt – þ.e., á bak við þau liggi forða (þjóðinni) mannfelli / hungursneyð, forða (sér) óhappi / grandi, o.s.frv. Í dæmum eins og forða slysi, forða tjóni, forða óhappi er þágufallsandlagið upprunnið sem seinna andlag sagnarinnar, en andlagið í forða sér, forða lífi sínu, forða barninu o.s.frv. sem það fyrra.

Þótt lofa taki tvö þágufallsandlög er auðvelt að greina milli þeirra vegna þess að merkingarleg vensl þeirra við sögnina eru ólík. Annað þeirra – það fyrra ef þau fylgja sögninni bæði – vísar til þess sem loforðið er gefið, hitt vísar til þess sem lofað er. Svipað er með forða – þegar sögnin tekur tvö andlög vísar það fyrra til þess sem forðað er frá einhverju(m), það seinna til þess sem einhverju(m) er forðað frá. Vissulega hefur hegðun sagnarinnar breyst þannig að nú tekur hún ekki með sér þessi tvö andlög í einu. En hún tekur eftir sem áður tvenns konar andlög. Þess vegna er nákvæmlega ekkert athugavert við að forða slysi, og tímabært að það verði viðurkennt sem rétt og vönduð íslenska.

Nýja þolmyndin

Einhver mest áberandi nýjung í íslenskri setningagerð undanfarna áratugi er hin svokallaða „nýja þolmynd“ – setningar eins og það var barið mig í stað ég var barin(n) og það var hrint mér í stað mér var hrint. Fyrir utan „þágufallssýkina“ svokölluðu er nýja þolmyndin líklega sú málbreyting sem kallar fram hörðust viðbrögð hjá fólki. Það er kannski engin furða – hún er gerólík hefðbundnu þolmyndinni og fer því ekki fram hjá okkur. Mörgum finnst hún ljót, og ekki ætla ég að blanda mér í þá umræðu. Í staðinn skulum við reyna að átta okkur á eðli þessa fyrirbæris.

Í hefðbundinni þolmynd er germyndarandlag (þolandi) gert að frumlagi – (einhverbarði mig > ég var barin(n). Gerandinn (einhver) víkur úr frumlagssæti og er annaðhvort alveg sleppt úr setningunni eða hafður í forsetningarlið – ég var barin(naf einhverjum. Ef germyndarandlagið er í þolfalli (mig) verður það að nefnifallsfrumlagi í þolmynd (ég), en ef það er í þágufalli eða eignarfalli heldur það falli sínu í þolmynd – (einhverhrinti mér > mér var hrint. Það sem einkennir „nýju þolmyndina“ er að andlagið heldur germyndarstöðu sinni á eftir aðalsögninni í stað þess að færast í frumlagssæti eins og það gerir í hefðbundinni þolmynd, og heldur jafnframt aukafalli sínu, hvort sem það er þolfall (það var barið mig) eða þágufall (það var hrint mér).

Þessi nýja þolmynd var fyrst nefnd á prenti svo að ég viti í fyrsta þætti Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1979. Gísli tilfærir setninguna Það var barið mig í bakið og kallar hana „fátæklegt barnamál“. Í kverinu Gætum tungunnar sem Helgi Hálfdanarson samdi 1984 tilfærir hann setninguna Það var sagt honum að fara og segir að rétt væri Honum var sagt að fara. En þessi setningagerð á sér þó talsvert eldri rætur. Elsta dæmi sem ég hef séð er í bréfi sem níu ára barn skrifaði árið 1939. Þar stendur „þangað til verður jarðað afa“ – þ.e., þangað til afi verður jarðaður. Þótt setningin hefjist ekki á það eins og algengast er um setningar af þessu tagi er þetta greinilega sama setningagerð. Það sést á því að andlagið, afa, stendur í aukafalli á eftir sögninni.

Fyrstu rannsóknina á þessari setningagerð gerðu Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling um aldamótin, og birtu í tímaritinu Íslensku máli 2001. Þær rannsökuðu einkum 15-16 ára unglinga á ýmsum stöðum á landinu, en einnig nokkra fullorðna til samanburðar. Niðurstöðurnar voru þær að u.þ.b. 60% unglinganna sögðust geta sagt setningar á við þær sem hér hafa verið nefndar, en aðeins örfá prósent fullorðna fólksins. Ýmsar rannsóknir hafa síðan verið gerðar á þessari setningagerð og staðfesta allar að hún er að breiðast út – þau sem tileinka sér hana á máltökuskeiði halda henni yfirleitt á fullorðinsárum þótt frá því séu undantekningar, og þótt dragi úr tíðni hennar hjá sumum.

Í rannsóknarverkefninu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ voru þátttakendur á öllum aldri spurðir um álit á setningunni Síðan var borðað kökuna (í framhaldi af Afmælisbarnið blés á kertin). Í aldurshópunum innan við þrítugt fannst yfir 40% málhafa setningin „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“. Í aldurshópunum yfir fertugt fannst aftur á móti um eða yfir 95% málhafa setningin „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðlileg“. Aldurshópurinn milli þrítugs og fertugs er svo þarna mitt á milli. Það er fólk fætt á árunum 1977-1986, þannig að árgangurinn sem Sigríður og Joan rannsökuðu (f. 1984) er meðal þeirra yngstu í þeim hópi.

En ein áhugaverð spurning í þessu sambandi er hvort nýja þolmyndin sé líkleg til að útrýma þeirri hefðbundnu. Því er ekki hægt að svara með vissu á þessari stundu, en þetta fer væntanlega að verulegu leyti eftir því hvort báðar setningagerðirnar hafa sömu merkingu og sama hlutverk. Ýmislegt bendir þó til að merkingar- og notkunarsvið nýju þolmyndarinnar falli ekki alveg saman við þá hefðbundnu, og sé það rétt er vel hægt að hugsa sér að báðar lifi áfram hlið við hlið, hvor með sitt hlutverk. Fólk eins og ég, sem ekki hefur nýju þolmyndina í máli sínu, á erfitt með að meta þetta, en ítarleg umræða og greining á þessu er of fræðileg fyrir þennan vettvang.

Ég gæti hafa gert þetta

Í íslensku eru iðulega notuð sambönd með tveimur eða jafnvel þremur hjálparsögnum – ég mun hafa selt húsið, húsið hefur verið selt, húsið mun hafa verið selt, o.s.frv. Í slíkum tilvikum er röð hjálparsagnanna yfirleitt föst og óbreytanleg. Það er ekki hægt að segja *ég hef munu selja húsið, *húsið hefur munu vera selt, *húsið er haft munu selja, *húsið er munu hafa selt eða neitt slíkt – það er alveg fráleitt. Frá þessu er þó ein undantekning – samband sagnanna geta og hafa. Við getum sagt bæði ég hefði getað gert þetta og ég gæti hafa gert þetta – hvort tveggja er algengt og full-komlega eðlilegt í nútímamáli, bæði formlegu og óformlegu. En síðarnefnda sambandið er áhugavert af ýmsum ástæðum.

Þegar geta er hjálparsögn tekur hún venjulega með sér lýsingarhátt þátíðar af aðalsögninni – ég get gert þetta, við getum komið, þau gátu lesið bókina, o.s.frv. Ef aðalsögnin í slíkum dæmum er hafa stendur hún líka í lýsingarhætti þátíðar eins og aðrar sagnir – ég get haft þig með, við getum haft þetta svona. En ef hafa er ekki aðalsögn heldur hjálparsögn (tekur með sér enn aðra sögn) stendur hún í nafnhætti á eftir geta, ekki í lýsingarhætti þátíðar – ég get hafa gert þetta, ekki *ég get haft gert þetta. Reyndar má finna dæmi af síðarnefndu tegundinni á netinu, s.s. „Ég skil að viðkomandi fjarvist gæti haft dregið úr afköstum á vinnustað þínum“, en þau eru sárafá. Fleiri dæmi eru hins vegar um myndina hafað, s.s. „Þessar upphæðir gætu hafað lækkað eitthvað síðan“. Þar virðist vera um einhver konar lýsingarhátt þátíðar að ræða, þótt það sé ekki hinn venjulegi lýsingarháttur sagnarinnar.

Röðin geta + hafa kemur ekki fyrir í fornu máli (reyndar er hafa + geta sárasjaldgæf þar líka). Elstu öruggu dæmin um hana eru frá því um miðja 19. öld, og sambandið er mjög sjaldgæft fram um 1880. Eftir það fjölgar dæmum smátt og smátt, og tíðnin eykst svo verulega kringum 1940. Það ár skrifaði Björn Guðfinnsson grein í Andvara undir titlinum „Tilræði við íslenzkt mál“. Þar fjallar hann um margs kyns villur og ambögur í þýddri smásögu sem þá hafði nýlega birst í tímariti, og skiptir þessum hnökrum í ýmsa flokka. Einn þeirra heitir „dönskuhroði“ og þar er tilfærð setningin „Hún getur hafa (kan have) borið grímu“. Engin frekari skýring fylgir á fordæmingu þessarar setningar en kan have í sviga sýnir að Björn hefur talið þessa setningagerð komna úr dönsku – og þar af leiðandi vonda íslensku.

Í ábendingunum Gætum tungunnar sem birtust í dagblöðum upp úr 1980 stendur: „Sagt var: Hann getur hafa komið í gær. Rétt væri: Hann hefur getað komið í gær, Eða: Hann kann að hafa komið í gær.“ Hér er þetta sett fram eins og getur hafa merki það sama og hefur getað, en það er ekki rétt. Merkingin í hann hefur getað mætt í skólann er ekki sú sama og í hann getur hafa mætt í skólann. Í fyrri setningunni felst að hann hafi raunverulega mætt, en sú seinni merkir 'það er hugsanlegt að hann hafi mætt'. Eðlilegt framhald af þeirri fyrri væri t.d. . . . þrátt fyrir sóttvarnaráðstafanir, en af þeirri seinni t.d. . . . án þess að ég viti af því. Eðlilegt framhald af ég hef getað lyft þessum steini væri t.d. alltaf þegar ég hef reynt, en eðlilegt framhald af ég get hafa lyft þessum steini væri fremur en ég man það ekki.

Þegar gert er upp á milli tilbrigða í máli, t.d. mig/mér langar, ég vil/vill, hurðir/hurðar o.s.frv., hafa bæði (öll) afbrigðin venjulega sömu merkingu. Möguleikar tungumálsins til tjáningar eru þeir sömu hvort sem við segjum mig langar eða mér langar. En í þessu tilviki gegnir öðru máli, og röðin geta + hafa hefur „fyrir löngu öðlast fastan sess í íslensku enda er skýr merkingarmunur á orðasamböndum hefði getað og gæti hafa“ segir Jón G. Friðjónsson. Þegar geta stendur á eftir hafa merkir hún 'vera fær um' en ef hún stendur á undan felur hún oftast í sér möguleika sem ekki er ljóst hvort hefur raungerst. Þarna er vissulega oft stutt á milli, og það virðist vera eitthvað misjafnt hvaða tilfinningu málnotendur hafa fyrir þessu. En það auðgar málið að hafa þessi tvö sambönd en ekki bara eitt.

Blanda af báðu

Fyrir nokkrum árum fór ég stundum á ágætan grænmetisstað niðri í bæ. Þar voru yfirleitt tveir aðalréttir í boði, en svo var þriðji möguleikinn, „Blanda af báðu“ – þ.e. blanda af báðum aðalréttunum. Ég get ekki neitað því að ég tók eftir þessu orðalagi og fannst það dálítið skrítið þótt ég áttaði mig auðvitað á því að báðu hlyti að vera beygingarmynd af fornafninu báðir. Orðmyndin báðu lítur út eins og venjuleg mynd fornafns eða lýsingarorðs í þágufalli eintölu hvorugkyni, hliðstætt við t.d. blanda af tvennu, blanda af öllu, blanda af mörgu o.s.frv. En vandinn er sá að báðir er (venjulega) ekki til í eintölu eins og sést í beygingardæmi orðsins í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Myndin báðu er vissulega ekki algeng, a.m.k. ekki á prenti, en á sér þó langa sögu í málinu. Sambandið jöfnu báðu (nóns og miðaftans / óttu og miðmorguns o.fl.) þekkist a.m.k. frá miðri 19. öld – elsta dæmið um það á tímarit.is er í Fjölni 1847, þar sem sagt er frá andláti Jónasar Hallgrímssonar: „það var hjer um bil jöfnu báðu miðsmorguns og dagmála, hálfri stundu áður, enn taka átti af honum fótinn“. Sambandið hefur verið nokkuð notað síðan og Halldór Laxness virðist hafa haft sérstakt dálæti á því.

En elsta dæmi sem ég hef fundið um báðu í öðru samhengi er í Búnaðarritinu 1896: „að eigi sé sama veiklun, sjúkdómur eða sjúkdómsspíra hjá báðu foreldri.“ Í Bjarma 1913 segir: „»Nýja guðfræðin« er hvorki trú né skoðun, heldur undarlegur blendingur af báðu, og í rauninni skrípamynd hvors tveggja.“ Hér er athyglisvert að í þágufallinu er notuð myndin báðu, en í eignarfallinu er svo notað fornafnið hvor tveggja, eins og þykir „rétt“ – ekki eignarfallsmyndin *bæðis (eða *báðs).

Önnur dæmi sem ég hef rekist á eru m.a. úr Iðunni 1921: „fallið á steininum má skýra jafn-vel með báðu móti.“ Í Morgunblaðinu 1960 segir: „Við höfum reynt að draga reynslu og lærdóm af báðu.“ Í Bæjarins besta segir árið 2007: „Þegar maður vinnur hjá báðu þá er maður í teng[s]lum við vel flesta þarna innanhúss.“ Og fyrirsögn í Vísi 1972 gekk alveg fram af Helga Hálfdanarsyni sem skrifaði í greininni „Meira magn af báðu“ í Morgunblaðinu 1973: „Líklega keyrir þó um þverbak, þegar blað birtir forustugrein, sem ber fyrirsögnina Það bezta af báðu. Fróðlegt væri að sjá önnur föll þess „orðs“, sem þar stendur í þágufalli.“

Ég held reyndar að önnur föll í eintölu af báðir séu einmitt ekki til. Í Málfarsbankanum telur Jón G. Friðjónsson að þolfallið bæði komi t.d. fyrir þegar spurningum eins og Viltu mjólk eða sykur út í kaffið? er svarað með Bæði. Mér finnst hins vegar eðlilegast að líta svo á að þarna sé um að ræða samtenginguna bæði – og þannig að bæði sé stytting fyrir bæði mjólk og sykur. Jón nefnir reyndar að mörg svipuð dæmi megi hugsanlega skýra á þennan hátt. Eignarfallsmyndina *bæðis kannast ég ekki við og hef aldrei séð dæmi um hana og held að hún sé ekki til, sbr. líka dæmið hér að framan þar sem báðu er notað í þágufalli en hvors tveggja í eignarfalli.

Ef báðir fengi eintölubeygingu í öllum föllum hvorugkyns mætti búast við nefnifallinu *báð. Fornöfn og lýsingarorð bæta að vísu yfirleitt við sig -t í hvorugkyni, en flest lýsingaorð með -áð í stofni eru undantekning – þar er hvorugkynið endingarlaust (fjáð, háð, smáð, þjáð). Þó bætir bráður við sig -t í hvorugkyni sem verður brátt með tilheyrandi samlögun (og aðblæstri) þannig að nefnifall eintölu *bátt af báðir væri líka hugsanlegt. En ég hef hvorki heyrt *báð né *bátt og hef enga trú á að þessar myndir séu til – e.t.v. vegna þess að hægt er að nota bæði sem e.k. staðgengil. Eignarfallið ætti að vera *báðs en það er varla til heldur.

Ég varð vissulega svolítið hissa að sjá Blanda af báðu á matseðli grænmetisstaðarins, en ég hefði samt orðið mun meira hissa ef þar hefði staðið Blanda af hvoru tveggja. Ég held nefnilega að „rétt“ notkun fornafnsins hvor tveggja (að ekki sé talað um hvortveggi) sé það atriði íslensks málstaðals sem er fjærst máltilfinningu venjulegra málnotenda. Reyndar er Málfarsbankinn ekki alveg afdráttarlaus með þetta en segir „Betra er að segja hvorar tveggja buxurnar en „báðar buxurnar““ – kveður sem sagt ekki upp úr með að það síðarnefnda sé „rangt“.


Ég stórefa að nokkur almennur málnotandi kaupi hvorar tveggja buxurnar, týni hvorum tveggja skærunum eða telji hvorn tveggja málstaðinn góðan. Það er ekki nokkurt vit í að halda í svona forngrip sem fæstir hafa á valdi sínu og mér finnst sjálfsagt að tala um báðar buxurnar, bæði skærin og báða málstaðina – og blöndu af báðu.

Síga upp

Í Málfarsbankanum segir: „Ekki er hægt að tala um að eitthvað „sígi upp á við“, t.d. vextir. Sögnin síga á annaðhvort við hreyfingu niður á við eða áfram.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar tvær merkingar sagnarinnar: 'mjakast niður, fara hægt og hægt niður' og 'hafa hæga framvindu'. Samkvæmt þessu ætti hvorki að vera hægt að nota sögnina um hreyfingu upp á við né aftur á bak. Um hvort tveggja eru þó ýmis gömul dæmi.

Í grein um Feneyjar í Þjóðólfi 1890 er því lýst „þegar hinir daggvotu turnar, kúlur og turnspírur hægt og hægt koma í ljós fram úr morgunmóðunni, eins og menn sæju þau síga upp úr djúpi sævarins“. Í blaðinu Austra birtist árið 1900 kvæði eftir Matthías Jochumsson, „Ferð upp í Fljótsdalshérað, 1900“. Þar segir: „Þokunni þegar svo brá / að þyrlaðist austur og vestur, / sum bak við fellin, en sum / seig upp í loptið og hvarf.“ Í Morgunblaðinu 1936 segir: „Þá hefur neyzla sjávarafurða einnig sigið upp á við.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Úrvalsvísitalan hefur sigið upp á við eftir mikla niðursveiflu um miðjan október.“

Í Nýja dagblaðinu 1937 segir: „Hann seig aftur á bak, tók síðasta andvarpið og kollsteyptist niður fyrir.“ Í Fróða 1912 segir: „loks fóru þeir að síga aftur úr, þangað til þeir voru orðnir ein 50-60 fet á eftir.“ Í Íslandi 1927 segir: „þeir, sem farið hafa mentabrautina eru alt af meira og meira að síga aftur úr á stjórnmálabrautinni“. Í DV 1994 segir: „33 varpa öndinni léttar þegar Drangey sígur aftur á bak og naumlega er komist hjá slysi.“ Eins og þessi dæmi sýna hefur sögnin síga sannanlega verið notuð um hreyfingu bæði upp á við og aftur á bak, þótt dæmin séu vissulega ekki ýkja mörg. Athyglisverðast er dæmið frá séra Matthíasi.

Þegar að er gáð er það reyndar dálítið sérkennilegt ef hægt er að nota síga um hreyfingu niður og áfram, en ekki um hreyfingu upp og til baka. Einhvern veginn fyndist manni eðlilegt að niður og til baka ætti saman, og svo upp og áfram. Ég ímynda mér að þessi sérkennilega pörun geti valdið því að málnotendur hafi tilhneigingu til að líta fram hjá allri stefnumerkingu í sögninni en horfi eingöngu á það að hún vísar ævinlega til hægrar hreyfingar – og noti hana um hæga hreyfingu í hvaða átt sem er. Þannig get ég a.m.k. notað hana – mér finnst ekkert óeðlilegt að segja að gengi eða vextir sígi upp á við.

Eftir sem áður er hreyfing niður á við þó í einhverjum skilningi innbyggð í sögnina – ef hún er notuð ein og sér, án nokkurrar áttatáknunar, vísar hún ævinlega til hægrar hreyfingar niður á við. Gengið hefur sigið getur ekki merkt 'gengið hefur hækkað hægt', og gengissig er ævinlega niður á við. Að þessu leyti má kannski líkja sögninni við líka (við) – ef hún er notuð ein og sér, mér líkar (við) þetta, merkir hún 'mér líkar þetta vel', en svo er hægt að bæta við atviksorði til að ná fram öfugri merkingu, mér líkar þetta illa, mér líkar illa við þetta. Þarna er jákvæð merking innbyggð í sögnina en hægt að neita henni.

Þjóðarsátt um „þágufallssýki“

Í áratugi hefur verið barist hatrammlega gegn svokallaðri „þágufallssýki“ eða „þágufallshneigð“ sem felst í því að notað er þágufall á frumlag nokkurra sagna sem áður tóku með sér þolfalls- eða nefnifallsfrumlag. Þetta eru einkum sagnirnar langavanta og hlakka, en einnig dreymakvíða og nokkrar fleiri – sumar sjaldgæfar. En andstætt því sem ætla mætti af harðri andstöðu við þessa breytingu er það engin ný bóla að sagnir breyti um frumlagsfall. Sögnin vænta, sem nú hefur alltaf nefnifallsfrumlag, tók til skamms tíma iðulega með sér þolfall – mig væntir. Sama máli gegnir um vona – á tímarit.is eru eldri dæmi um mig vonar en um ég vona.

Í frægum ritdómi um „Rímur af Tistrani og Indíönu“ í Fjölni 1835 skrifar Jónas Hallgrímsson: „Það eru farnar að rísa upp raddir móti þessum ósóma; og ein af þessum röddum, sem talar og lætur til sín heira á eiðimörku, hún er ekkji ónít, og hefir — að mig vonar — komið einhvurju til leiðar.“ Í „Ágrip af ræðu áhrærandi íslenzkuna“ í Fjölni 1838 skrifar Konráð Gíslason: „Mig væntir, að allir, sem það hugleiða, muni hljóta að verða okkur samdóma.“ Hvorki Jónas né Konráð hefur þótt sérstakur bögubósi í meðferð móðurmálsins – eftir Sigurði Nordal prófessor er haft: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku.“

Á 19. öld tóku sagnirnar fækka og fjölga yfirleitt nefnifallsfrumlag. Dæmi um það má sjá í Fjölni 1839, þar sem segir „fólkið hafi ekki gjetað aukist, síðan það fór að fækka á 14. öld“ og „hjáleigur eru lagðar í eiði, til þess að ríma um heimajarðir, so að heimabændur fjölga“. Þessar sagnir taka nú ævinlega þágufallsfrumlag – við segjum fólkinu fækkarbændum fjölgar. Samt dettur engum í hug að kalla þetta „þágufallssýki“ eða reyna að snúa þessum breytingum við. Þarna eru fjórar sagnir – fjölgafækkavona og vænta – þar sem frumlagsfall hefur breyst síðan á 19. öld. Tvær þær fyrrnefndu taka nú þágufall í stað nefnifalls áður, en tvær þær síðarnefndu taka nú ævinlega nefnifall í stað þolfallsins sem þær tóku iðulega með sér áður.

Þetta eru algengar sagnir, rétt eins og þær sem tengdar eru við „þágufallssýki“. Samt dettur engum í hug að halda því fram að breytingar á frumlagsfalli þessara sagna hafi spillt málinu á einhvern hátt. Vitaskuld gerir „þágufallssýkin“ það ekki heldur. Það eru engin rök fyrir því að breyting á frumlagsfalli fáeinna sagna af þeim þúsundum sem eru í málinu stefni íslenskunni í hættu. En þessi „sýki“ hefur þó verið talin hin verstu málspjöll og einhvern veginn orðið „móðir allra málvillna“ ef svo má segja. Hægt er að finna fjölmörg dæmi úr dagblöðum frá seinni hluta 20. aldar þar sem „sýkinni“ er hallmælt og hinum „sýktu“ valin hin verstu orð.

En þrátt fyrir áratuga hatramma baráttu gegn „þágufallssýki“ sýna fjölmargar rannsóknir sem hafa verið gerðar á tíðni og útbreiðslu hennar undanfarin 40 ár allar það sama: Hún er útbreidd um land allt (þrátt fyrir að hún hafi hér áður oft verið tengd við Reykjavík), hún er algengari meðal yngra fólks en eldra, og hún nær til sífellt stærri hluta málnotenda. Miðað við hina viðurkenndu skilgreiningu á „réttu“ máli og „röngu“ sem hér hefur áður verið vitnað til – „Rétt mál er það sem samræmist málvenju, rangt mál samræmist engri málvenju“ – er alveg ljóst að ekki er hægt að kalla „þágufallssýki“ rangt mál, því að hún er ótvírætt málvenja umtalsverðs hluta málnotenda.

En vandinn er sá að það er búið að gera hana að slíkri grýlu í marga áratugi að fyrir mörgum er hún – ósjálfrátt og ómeðvitað – ímynd lélegs málfars, vankunnáttu og hirðuleysis, að ekki sé sagt fáfræði og jafnvel heimsku. Þar að auki finnst mörgum hún hryllilega ljót. Þetta er tilfinning sem ekki má gera lítið úr, heldur ber að taka alvarlega. Ég skil hana vel – sjálfur kippist ég við þegar ég heyri þágufall með langavanta og hlakka. Ég veit að ég á ekki að dæma mælandann fyrir það, og geri það ekki – vona ég – en ég þarf virkilega að passa mig.

Vegna þess hversu útbreidd tilfinningin er og sterk hjá mörgum er ekki einfalt að snúa við blaðinu í einu vetfangi og viðurkenna þágufall sem jafnrétta og eðlilega íslensku og þolfall með umræddum sögnum. En við verðum samt að stefna í þá átt – það er hvorki í þágu málnotenda né íslenskunnar að líta niður á mál sem umtalsverður hluti þjóðarinnar er alinn upp við. Við þurfum að hætta að prófa nemendur í fallnotkun með umræddum sögnum, og svo þurfum við öll að reyna að breyta hugarfari okkar og taka „þágufallssýkina“ í sátt. Þjóðarsátt.

Þannig mönnum er ekki treystandi

Á landsprófi í íslensku 1971 var spurt: „Hvers vegna er rangt mál að segja: Þannig mönnum er ekki treystandi?“ Þessari spurningu gat ég ekki svarað og hafði raunar ekki hugmynd um það á þessum tíma að þannig mönnum er ekki treystandi væri talið rangt mál, hvað þá að ég gæti útskýrt hvers vegna. En síðar, væntanlega þegar ég var kominn í menntaskóla, fékk ég útskýringu á því. Orðið þannig er nefnilega atviksorð, og atviksorð standa ekki með nafnorðum á þennan hátt – það er hlutverk lýsingarorða og fornafna. Það má sem sé segja vafasömum mönnum er ekki treystandi, og slíkum mönnum er ekki treystandi – en ekki þannig mönnum, og ekki heldur svona mönnum eða svoleiðis mönnum, því að svona og svoleiðis eru líka atviksorð. En er þetta örugglega svona?

Það er auðvitað rétt að dæmigerð atviksorð standa ekki með nafnorðum – við segjum ekki *mjög mönnum, *vel mönnum, *ákaflega mönnum, en hins vegar mjög vafasömum mönnum, vel gerðum mönnum, ákaflega stórum mönnum, o.s.frv., þar sem atviksorðið stendur með lýsingarorðinu og ákvarðar það. En orðin þannig, svona og svoleiðis hafa samt staðið með nafnorðum um langan aldur – elstu dæmi sem ég fann eru frá síðasta fjórðungi 19. aldar. Í Suðra 1884 segir t.d.: „þó „ofviti“ í sumum héröðum landsins sé einnig haft um svona menn, þó þeir ekki yrki“; í Lögbergi 1895 segir: „Þeir eru ekki svoleiðis menn, að þeir nenni að lesa pólitík eða neitt nýtilegt“; og í Lögbergi 1896 segir: „Hann er skynsamur og hygginn, vel að sjer í öllu tilliti og þannig maður, sem allir mundu óska að hafa fyrir starfsmann“.

Við stöndum því frammi fyrir þremur kostum. Einn er sá að halda okkur við þá afstöðu sem kom fram í landsprófinu 1971, sem sé að þannig – og svona og svoleiðis – séu atviksorð, og atviksorð eigi ekki að standa með nafnorðum, og þar með sé þannig mönnum rangt. Annar möguleiki er að segja að þótt meginreglan sé sú að atviksorð standi ekki með nafnorðum séu undantekningar frá henni, einkum atviksorðin þannig, svona og svoleiðis. Þriðji möguleikinn er að segja að þannig, svona og svoleiðis séu alls ekki alltaf atviksorð, heldur geti líka verið lýsingarorð (eða fornöfn) og þar með staðið með nafnorðum eins og önnur orð af þeim flokkum. Samkvæmt bæði öðrum og þriðja kosti væri þannig mönnum er ekki treystandi í lagi, en á ólíkum forsendum.

Ég gef mér að fyrsti kosturinn sé úr sögunni – með hliðsjón af aldri og tíðni finnst mér fráleitt að halda sig við að þannig mönnum sé rangt mál, enda hef ég ekki séð því haldið fram nýlega. Valið milli annars og þriðja kosts fer þá eftir því hvernig við lítum á orðflokkagreiningu. Er hlutverk orðflokkagreiningar það að hengja á orðin merkimiða sem þau halda síðan hvar sem þau koma fyrir, óháð því hvernig þau eru notuð – eða er hlutverkið þess í stað að skoða hvernig orðin eru notuð, hvar í setningu þau standa, og ákvarða orðflokkinn út frá því? Samkvæmt fyrri skilgreiningunni væru þannig, svona og svoleiðis alltaf atviksorð, þótt þau stæðu stundum með nafnorði; samkvæmt þeirri seinni væru þau lýsingarorð (eða hugsanlega fornöfn) ef þau stæðu í dæmigerðri stöðu lýsingarorðs (eða fornafns) í setningu.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að seinni kosturinn er vænlegri, og ég tek eftir því að hann hefur orðið fyrir valinu í Íslenskri nútímamálsorðabók – þar eru þannig, svona og svoleiðis skráð sem lýsingarorð (og vitanlega atviksorð líka). Einhverjum gæti dottið í hug að hafa það á móti þeirri greiningu að orðin stigbreytast ekki – en þótt stigbreyting sé vissulega eitt megineinkenni lýsingarorða fer því fjarri að öll lýsingaorð stigbreytist (sbr. hugsi, þurfi, andvaka, samferða og fjöldi annarra sem enda á -a). Það kæmi líka til greina að líta á orðin sem fornöfn, enda standa þau að merkingu og notkun mjög nálægt orðinu slíkur sem stundum er kallað „óákveðið ábendingarfornafn“ en greint sem lýsingarorð í Íslenskri nútímamálsorðabók. En þau eru ekki atviksorð í þessari notkun.

Eiga von á

Stundum verður þess vart að fólki finnst undarlegt eða beinlínis rangt að tala um að eiga von á einhverju þegar það sem um er rætt er óæskilegt á einhvern hátt. Á bak við þetta liggur þá að fólk telur að von hafi þarna sömu merkingu og í sögninni vona. Það er í sjálfu sér skiljanleg til­finning en hún styðst ekki við málhefð – sambandið er „yfir­leitt notað í svipaðri merkingu og orðasam­band­ið búast við, þ.e. úr tengslum við merkingu orð­anna von og vonasegir í Málfarsbankanum. Svo lengi sem rakið verður hefur það verið notað um óæskilega hluti ekki síð­ur en æskilega.  Þannig segir í Fjölni 1835: „Það er von á halastjörnu í haust.“ Í Skírni 1845 segir: „vissu þeir að þeir fyrir þá sök áttu von á þúngbærri hegníngu.“ Í Þjóðólfi 1850 segir: „af því þú lifir og hrærist í auðvirðilegasta hjegóma, þá áttu von á auðvirðilegustu æfilokum.“ Ekkert af þessu getur talist æskilegt.

Í Málfarsbankanum segir: „Orðið von hefur skýra merkingu í málinu og þ.a.l. getur verið óheppilegt að nota orðasambandið eiga von á einhverju þegar um eitthvað slæmt er að ræða.“ En raunar er það í fleiri tilvikum sem von getur vísað til einhvers sem alls ekki er vonast eftir, t.d. í samböndunum eiga ekki von á góðu og eiga sér einskis ills von. Í sambandinu það er von að … er ekki heldur vísað sérstaklega til einhvers æskilegs. Öðru máli gegnir hins vegar um sögnina vona og samböndin vonast eftir og vonast til. Þau vísa held ég alltaf til einhvers sem er æskilegt. Þótt það sé vissulega algengast að nafnorð og samstofna sögn hafi hliðstæða merkingu er það alls ekkert sjálfgefið.

Í fornu máli má líka finna fjölda dæma þar sem von er síður en svo jákvætt orð – það nægir að nefna hér tvö. Í frásögn Gísla sögu af vígi Vésteins segir: „Hún fer heim og segir Gísla að Þorgrímur sat með hjálm og sverð og öllum herbúnaði en Þorgrímur nef hafði bolöxi í hendi en Þorkell hafði sverð og brugðið af handfang „allir menn voru þar upp risnir, sumir með vopnum.“ „Slíks var að von,“ segir Gísli.“ Í frásögn Sturlungu af Flugumýrarbrennu segir: „Og er Gissur kom fram úr hvílunni þá var Sámur rekkjufélagi hans högginn banahögg. Gissur heyrði er Sámur mælti þetta er hann fékk höggið: „Slíks var von,“ segir hann.“ Þarna er augljóst að slíks var () von merkir ekki 'ég vonaðist eftir þessu', heldur 'þetta var viðbúið'.

Hitt má til sanns vegar færa að í einstöku tilvikum getur þessi notkun verið óheppileg eins og bent er á í Málfarsbankanum: „Þetta getur verið neyðarlegt og jafnvel meiðandi, t.d. í setningum á borð við: hann á jafnvel von á að að fleiri hafi farist í jarðskjálftanum.“ Í slíkum tilvikum geta hugrenningatengsl við vona og vonast til/eftir vissulega truflað fólk og sjálfsagt að taka tillit til þess og forðast að nota eiga von á við slíkar aðstæður. En það breytir því ekki að sambandið eiga von á er og hefur alltaf verið hlutlaust – felur ekki í sér að sérstaklega sé vonast til þess sem um er rætt.

Hárið mitt

Oft er amast við málbreytingu sem nú er í gangi og tekur til hóps orða sem mætti e.t.v. kalla „líkamsorð“, þ.e. orð um ýmis líffæri og líkamshluta. Til skamms tíma hefur verið notaður forsetningarliður með þessum orðum til að vísa til „eigandans“ – talað um hárið á mérhjartað í þérnefið á honumaugun í henni, o.s.frv. En nú er orðið algengt, einkum meðal yngra fólks, að nota eignarfornafn eða eignarfall í staðinn og segja hárið mitthjartað þittnefið hansaugun hennar o.s.frv.

Fólk talar oft eins og þetta sé nýjung en svo er ekki – þetta afbrigði hefur alltaf verið til, þótt það hafi ekki verið algengt. Í Sturlungu segir Snorri Þorvaldsson „Hvar er nú fóturinn minn?“ þegar fóturinn hefur verið höggvinn af honum. „Augun mín og augun þín“ kvað Vatnsenda-Rósa. „Hausinn minn er þröngur“ sagði jólasveinninn sem hélt að krakkasöngurinn væri væl. Á tímarit.is má finna slæðing af dæmum um þessa setningagerð frá 19. öld og síðan. En vissulega virðist tíðnin hafa aukist mjög á undanförnum árum.

Reyndar er rétt að hafa í huga að hefðbundna setningagerðin, að nota forsetningarlið, er líka „nýjung“ – að vísu nokkurra alda gömul. Í fornu máli var yfirleitt notað eignarfornafn eða eignarfall, eins og í nýja afbrigðinu – hár mitthjarta þittnef hansaugu hennar. Munurinn er sá að nú hefur „líkamsorðið“ ákveðinn greini, en var greinislaust í fornmáli. Sú setningagerð er vitanlega enn til í formlegu ritmáli. Notkun forsetningarliðar kemur svo til á 14.-15. öld eða svo og hefur verið aðalafbrigðið síðan.

Sú skoðun virðist mjög útbreidd að hér sé um ensk áhrif að ræða en mér finnst ekkert benda sérstaklega til þess. Því fer nefnilega fjarri að nýja afbrigðið hermi eftir enskunni. Þar er sagt my hairyour hearthis noseher eyes. Eignarfornafnið fer þar á undan „líkamsorðinu“, ekki á eftir eins og í íslensku. Þar að auki notar íslenskan ákveðinn greini en enskan ekki. Ef sagt væri mitt hárþitt hjartahans nefhennar augu væru ensk áhrif líkleg – en þetta er yfirleitt ekki sagt, held ég.

Það er rétt að athuga að hefðbundin hegðun „líkamsorðanna“ er í raun undantekning – öll önnur nafnorð tjá eigandann með eignarfornafni eða eignarfalli persónufornafns, en ekki í forsetningarlið. Við segjum bókin mínbíllinn þinnhundurinn hanshúsið hennar. Það liggur beint við að álykta að „líkamsorðin“ séu einfaldlega að laga hegðun sína að hegðun annarra nafnorða í málinu. Þess vegna er varla hægt að halda því fram að þessi breyting feli í sér einhver málspjöll.

En í umræðu á netinu um þessa breytingu kom einu sinni upp annað sem ég hafði ekki leitt hugann að. Þar var bent á að á undanförnum árum er – sem betur fer – lögð mikil áhersla á það við ung börn að þau eigi líkama sinn sjálf. Maður hefur tilfinningu fyrir því – eða börn hafa það a.m.k. sennilega – að hárið mitt sé miklu meiri einkaeign mín en hárið á mér. Mér finnst ekki ótrúlegt að þetta stuðli að aukinni útbreiðslu þessa afbrigðis þótt það sé væntanlega ekki eina ástæðan.

Ég senti bréfið

Flestar sagnir sem hafa nd í stofni mynda þátíð með ‑ti. Þetta eru benda, henda, lenda, venda — þátíð benti, henti, lenti, venti. Sögnin enda fær oftast ‑aði í þátíð, en þó bar við áður fyrr að hún fengi þátíðina enti — „það enti með því að hann varð að hverfa aftur við svo búið“ segir í Les­bók Morgun­blaðsins 1968. Miðmyndin endast (ef það er talin sama sögn) er líka entist í þátíð. En sögnin senda er undantekning — hún hefur venjulega haft þátíðina sendi þeg­ar hún merkir ʻflytja einhverjum eitthvaðʼ eða ʻláta ein­hvern fara eitt­hvaðʼ eins og hún gerir oftast.

Í Málfarsbankanum segir þó: „Þátíðin senti er einnig til en aðeins í merkingunni: kasta.“ Í þeirri merkingu stjórn­ar sögn­in þágufalli á því sem kastað er — í Tímanum 1957 segir: „Lögregluþjónn kom út, gekk aftur fyrir bílinn, opn­aði farangursgeymsluna og tók í rófuna á dauðum ketti og senti honum af hendi fram í fjöruna.“ Miðmyndin send­ast hefur þá­tíðina sendist ef hún merkir ʻsnúast (fyrir ein­hvern)ʼ eða eitthvað slíkt — ég sendist oft fyrir hana áður fyrr. Aftur á móti er þátíðin sentist ef sögnin merkir ʻbregða skjótt viðʼ eða álíka — ég sentist strax af stað. Sama máli gegn­ir með enda­sendast.

En þótt áðurnefndar sagnir með nd í stofni endi á ‑ti í þá­tíð í nútímamáli, aðrar en senda, hefur það ekki alltaf ver­ið svo. Í fornu máli enduðu þær yfirleitt á ‑di, eins og senda gerir enn, þótt myndum með ‑ti bregði fyrir af ein­hverj­um þeirra. Þátíðin var sem sé bendi, endi, hendi, lendi, vendi — og sendi. Það þarf því ekki að koma á óvart þótt senda sýni til­hneigingu til að elta þær og verða senti í þátíð — ekki bara í merkingunni ʻkastaʼ. Sú tilhneiging á a.m.k. aldargamlar rætur — í blaðinu Reykjavík segir árið 1913: „Og skipið rak og rak þangað til það stóð, og hann senti á það hverja öld­una hvítfyssandi á fætur annari.“

Á síðustu árum virðist þessi þátíð vera mjög algeng ef marka má Risamálheildina. Ef hún nær yfirhöndinni verð­ur senda ekki lengur undantekning og þar með mætti segja að sagnbeygingin hefði einfaldast — beyging senda hefði lagað sig að beygingu annarra sagna með sömu stofn­gerð. En við þetta verður til ný beygingarmynd — mis­munandi beyg­ing­ar­myndum sagnarinnar fjölgar. Það er ekki ein­földun, heldur þvert á móti. En svona er þetta iðu­lega — ein­földun á einum stað hefur venjulega þver­öfug áhrif á einhverjum öðrum stað í málkerfinu þótt það liggi ekki alltaf í augum uppi.

Oft er því haldið fram að málbreytingar stefni jafnan í átt til einföldunar og stafi jafnvel iðulega af leti. Það má vísa letinni algerlega á bug sem skýringu, en hitt er rétt að marg­ar málbreytingar virðast í fljótu bragði leiða til ein­föld­unar í málkerfinu. Þar er þó yfirleitt ekki allt sem sýn­ist eins og hér hefur verið sýnt, og það má fullyrða að mál­breytingar leiða sjaldnast eingöngu til einföldunar. Ef svo væri, þá væri tungumálið fyrir löngu búið að ná há­marks­stigi einföldunar — orðið fullkomið.

Hér er líka rétt að athuga að í hefðbundinni beygingu er senda eins í nútíð og þátíð framsöguháttar — ég sendi bréfið í gær (þátíð), ég sendi bréfið á eftir (nútíð). Það má þess vegna halda því fram að senti sé „betri“ þátíðarmynd en sendi vegna þess að með henni er greint milli nútíðar og þátíðar. Þar með verður málið nákvæmara tján­ingar­tæki. Þegar við bæt­ist að sams konar breyting hefur orðið á öðrum sögn­um af sömu stofngerð án þess að það það valdi vand­kvæð­um sé ég enga ástæðu til að amast við því að þátíð senda verði senti.