Ég senti bréfið

Flestar sagnir sem hafa nd í stofni mynda þátíð með ‑ti. Þetta eru benda, henda, lenda, venda — þátíð benti, henti, lenti, venti. Sögnin enda fær oftast ‑aði í þátíð, en þó bar við áður fyrr að hún fengi þátíðina enti — „það enti með því að hann varð að hverfa aftur við svo búið“ segir í Les­bók Morgun­blaðsins 1968. Miðmyndin endast (ef það er talin sama sögn) er líka entist í þátíð. En sögnin senda er undantekning — hún hefur venjulega haft þátíðina sendi þeg­ar hún merkir ʻflytja einhverjum eitthvaðʼ eða ʻláta ein­hvern fara eitt­hvaðʼ eins og hún gerir oftast.

Í Málfarsbankanum segir þó: „Þátíðin senti er einnig til en aðeins í merkingunni: kasta.“ Í þeirri merkingu stjórn­ar sögn­in þágufalli á því sem kastað er — í Tímanum 1957 segir: „Lögregluþjónn kom út, gekk aftur fyrir bílinn, opn­aði farangursgeymsluna og tók í rófuna á dauðum ketti og senti honum af hendi fram í fjöruna.“ Miðmyndin send­ast hefur þá­tíðina sendist ef hún merkir ʻsnúast (fyrir ein­hvern)ʼ eða eitthvað slíkt — ég sendist oft fyrir hana áður fyrr. Aftur á móti er þátíðin sentist ef sögnin merkir ʻbregða skjótt viðʼ eða álíka — ég sentist strax af stað. Sama máli gegn­ir með enda­sendast.

En þótt áðurnefndar sagnir með nd í stofni endi á ‑ti í þá­tíð í nútímamáli, aðrar en senda, hefur það ekki alltaf ver­ið svo. Í fornu máli enduðu þær yfirleitt á ‑di, eins og senda gerir enn, þótt myndum með ‑ti bregði fyrir af ein­hverj­um þeirra. Þátíðin var sem sé bendi, endi, hendi, lendi, vendi — og sendi. Það þarf því ekki að koma á óvart þótt senda sýni til­hneigingu til að elta þær og verða senti í þátíð — ekki bara í merkingunni ʻkastaʼ. Sú tilhneiging á a.m.k. aldargamlar rætur — í blaðinu Reykjavík segir árið 1913: „Og skipið rak og rak þangað til það stóð, og hann senti á það hverja öld­una hvítfyssandi á fætur annari.“

Á síðustu árum virðist þessi þátíð vera mjög algeng ef marka má Risamálheildina. Ef hún nær yfirhöndinni verð­ur senda ekki lengur undantekning og þar með mætti segja að sagnbeygingin hefði einfaldast — beyging senda hefði lagað sig að beygingu annarra sagna með sömu stofn­gerð. En við þetta verður til ný beygingarmynd — mis­munandi beyg­ing­ar­myndum sagnarinnar fjölgar. Það er ekki ein­földun, heldur þvert á móti. En svona er þetta iðu­lega — ein­földun á einum stað hefur venjulega þver­öfug áhrif á einhverjum öðrum stað í málkerfinu þótt það liggi ekki alltaf í augum uppi.

Oft er því haldið fram að málbreytingar stefni jafnan í átt til einföldunar og stafi jafnvel iðulega af leti. Það má vísa letinni algerlega á bug sem skýringu, en hitt er rétt að marg­ar málbreytingar virðast í fljótu bragði leiða til ein­föld­unar í málkerfinu. Þar er þó yfirleitt ekki allt sem sýn­ist eins og hér hefur verið sýnt, og það má fullyrða að mál­breytingar leiða sjaldnast eingöngu til einföldunar. Ef svo væri, þá væri tungumálið fyrir löngu búið að ná há­marks­stigi einföldunar — orðið fullkomið.

Hér er líka rétt að athuga að í hefðbundinni beygingu er senda eins í nútíð og þátíð framsöguháttar — ég sendi bréfið í gær (þátíð), ég sendi bréfið á eftir (nútíð). Það má þess vegna halda því fram að senti sé „betri“ þátíðarmynd en sendi vegna þess að með henni er greint milli nútíðar og þátíðar. Þar með verður málið nákvæmara tján­ingar­tæki. Þegar við bæt­ist að sams konar breyting hefur orðið á öðrum sögn­um af sömu stofngerð án þess að það það valdi vand­kvæð­um sé ég enga ástæðu til að amast við því að þátíð senda verði senti.