Heilsan hrakar

Ég sá nýlega fyrirsögnina „Heilsa eldri borgara hrakaði í síðasta heimsóknarbanni“. Ég er vanur því að sögnin hraka stýri þágufalli á frumlagi sínu og hélt því að þetta væri fljótfærnisvilla (satt að segja var töluvert um þær í fréttinni) – þarna ætti að standa Heilsu fólks hrakaði en ekki Heilsa fólks hrakaði. En þegar ég las fréttina sá ég að þar stóð líka „Heilsa fólks á hjúkrunarheimilunum hrakaði mjög í síðasta heimsóknarbanni“ og „heilsa fólks hrakaði mikið“ þannig að væntanlega hefur blaðamaðurinn ætlað að hafa þetta svona.

Sögnin hraka er eingöngu tilgreind með þágufallsfrumlagi í orðabókum (reyndar rakst ég á dæmi frá 1857 þar sem hún tekur nefnifallsfrumlag og þágufallsandlag: „komi eitthvað upp á, sem hrakar skepnunni“). Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru tilgreindar tvær náskyldar merkingar sagnarinnar: 'verða verri til heilsunnar' og 'verða verra, versna'. Í fyrri merkingunni er sögnin notuð um fólk (og hugsanlega dýr) – sjúklingnum hrakar, henni hrakaði. Í seinni merkingunni er hún notuð um heilsu, kunnáttu, ástand, horfur o.s.frv. – heilsunni hrakar, ástandinu hrakar.

Önnur sögn mjög svipaðrar merkingar er versna. Hún hefur líka hliðstæð merkingarblæbrigði: 'verða verri til heilsunnar, líða verr', og tekur þá þágufallsfrumlag, eins og sjúklingnum versnaði; og svo 'verða verri'. En munurinn er sá að í seinni merkingunni tekur versna frumlag í nefnifalli, ekki þágufalli – heilsan versnaði. Á netinu fann ég fáein dæmi um nefnifallsfrumlag með hraka, en þau voru öll um seinni merkinguna, heilsan hrakaði eða eitthvað slíkt, eins og í fréttinni. Engin dæmi voru um nefnifall á persónunni, *sjúklingurinn hrakaði.

Alveg sama gildir um sögnina batna, nema hún er þveröfugrar merkingar – en hún tekur líka þágufall á persónu (sjúklingnum batnar) en nefnifall á heilsu, ástand o.þ.h. (heilsan batnar). Mér finnst líklegt að þarna sé ástæðuna fyrir nefnifallinu með hraka að finna. Þar er farið með sögnina á sama hátt og versna og batna – sem eru báðar miklu algengari en hraka og því líklegri til að hafa áhrif á hana en öfugt. Þarna finnst málnotendum (sumum a.m.k.) vera eitthvert kerfi og leitast við að fella hraka inn í það. Ég sé svo sem enga ástæðu til að amast sérstaklega við því.

Það er almennt séð æskilegt að fylgja málhefð, og í þessu tilviki, eins og svo mörgum öðrum, væri einfalt að úrskurða heilsan hrakar rangt og segja að blaðamaðurinn þurfi að læra íslensku betur. En það er bara svo miklu skemmtilegra og gagnlegra að velta fyrir sér og reyna að grafast fyrir um hvers vegna tilbrigði af þessu tagi komi upp. Það eykur skilning okkar á tungumálinu og eðli þess, og sýnir okkur betur hvað tungumálið er undursamlegt fyrirbæri, kennir okkur að meta það betur, og gerir okkur umburðarlyndari fyrir tilbrigðum. Þar með aukum við líkurnar á að börnin okkar vilji áfram tala íslensku.