Kynjamál

Ég hef lagt áherslu á það að okkur beri að sýna málnotkun annarra virðingu og umburðarlyndi og taka tilbrigðum í máli fagnandi – eða a.m.k. sætta okkur við þau. Það er einlæg sannfæring mín að þetta sé ein meginforsenda þess að íslenska lifi áfram hjá börnum okkar og barnabörnum. En umburðarlyndið á sér þó takmörk. Málnotkun okkar má ekki misbjóða fólki eða niðurlægja það á nokkurn hátt. Íslenskan á það ekki skilið að hún sé notuð til að meiða fólk.

Þess vegna eigum við ekki að nota um fólk einhver orð sem fólkið vill ekki að séu notuð um það. Þótt orð eins og kynvillingurnegri og önnur slík hafi þótt eðlileg áður fyrr – raunar fyrir ekki mjög löngu – er svo ekki lengur. Þótt fólk á mínum aldri sé alið upp við þessi orð höfum við flest áttað okkur á því að þau þykja ekki lengur við hæfi, og vanið okkur af notkun þeirra. Það er eðlilegt og sjálfsagt – og ekki svo erfitt.

Málið verður hins vegar flóknara þegar kemur að kynjuðu málfari – bæði notkun karlkyns sem ómarkaðs (hlutlauss) kyns, og notkun orðsins maður og samsetninga af því í vísun til beggja (eða allra) kynja. Ég veit að mörgum konum og kynsegin fólki finnst slík málnotkun útilokandi, finnst ekki vísað til sín. Við þurfum að taka þá tilfinningu alvarlega en ekki vísa henni umsvifalaust á bug.

Ef málnotkun eins og Allir þurfa að fara í skimun eða Mönnum er skipað að fara í sóttkví í vísun til blandaðs hóps verkar útilokandi á fólk, má þá ekki bara breyta henni? Það er vel hægt að segja Öll þurfa að fara í skimun (eins og var gert í fjölmiðlum nýlega) og Fólki er skipað að fara í sóttkví. Er þetta ekki jafn sjálfsagt og að hætta að tala um kynvillinga og negra?

Kannski – og þó. Þetta er ekki sambærilegt. Það er einfalt að læra ný orð – við erum alltaf að því. Það er dálítið meira mál að venja sig á að nota þessi nýju orð í stað annarra sem við erum vön að nota, en með tímanum gengur það yfirleitt. En orðið maður og samsetningar af því er ekkert venjulegt orð. Það er algengasta nafnorð málsins og notað í mjög fjölbreyttu samhengi. Það er meiriháttar breyting að finna gott orð í staðinn og koma því í almenna notkun. Það er ekki þar með sagt að það sé ekki hægt – en það tæki tíma.

Breyting á hlutlausu kyni er enn snúnari. Það er ekkert náttúrulögmál að karlkynið sé hlutlaust, en það er það sem við erum öll alin upp við. Ég skil samt vel að sumum finnist það ekki höfða til sín, og venji sig á að nota hvorugkyn sem hlutlaust kyn í staðinn. Vissulega er hægt að nefna dæmi þar sem þetta gæti valdið misskilningi en ég held að það sé ekki líklegt til að valda vandkvæðum. Því hefur líka verið haldið fram að þetta geti valdið óvissu í málnotkun en ég hef ekki miklar áhyggjur af því heldur.

En þetta er ekki sambærilegt við það að hætta að nota ákveðin orð – þetta snýst um breytingu á málkerfi fólks og mér finnst ekki hægt að ætlast til þess að fólk breyti málkerfi sínu. Aðalatriðið í þessu er umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki og málnotkun þess. Þau sem vilja hafna karlkyni sem hlutlausu kyni þurfa að hafa í huga að við erum flest alin upp við að karlkynið hafi þetta hlutverk, og þau sem vilja halda í karlkynið sem hlutlaust kyn þurfa að sýna því skilning að ýmsum finnst karlkynið eingöngu vísa til karlmanna og þar með vera útilokandi.

En það má ekki gerast að fólk verði flokkað eftir málnotkun hvað þetta varðar og annað hvort tilbrigðið verði talið villa eða óviðeigandi málnotkun.