Hárið mitt

Oft er amast við málbreytingu sem nú er í gangi og tekur til hóps orða sem mætti e.t.v. kalla „líkamsorð“, þ.e. orð um ýmis líffæri og líkamshluta. Til skamms tíma hefur verið notaður forsetningarliður með þessum orðum til að vísa til „eigandans“ – talað um hárið á mérhjartað í þérnefið á honumaugun í henni, o.s.frv. En nú er orðið algengt, einkum meðal yngra fólks, að nota eignarfornafn eða eignarfall í staðinn og segja hárið mitthjartað þittnefið hansaugun hennar o.s.frv.

Fólk talar oft eins og þetta sé nýjung en svo er ekki – þetta afbrigði hefur alltaf verið til, þótt það hafi ekki verið algengt. Í Sturlungu segir Snorri Þorvaldsson „Hvar er nú fóturinn minn?“ þegar fóturinn hefur verið höggvinn af honum. „Augun mín og augun þín“ kvað Vatnsenda-Rósa. „Hausinn minn er þröngur“ sagði jólasveinninn sem hélt að krakkasöngurinn væri væl. Á tímarit.is má finna slæðing af dæmum um þessa setningagerð frá 19. öld og síðan. En vissulega virðist tíðnin hafa aukist mjög á undanförnum árum.

Reyndar er rétt að hafa í huga að hefðbundna setningagerðin, að nota forsetningarlið, er líka „nýjung“ – að vísu nokkurra alda gömul. Í fornu máli var yfirleitt notað eignarfornafn eða eignarfall, eins og í nýja afbrigðinu – hár mitthjarta þittnef hansaugu hennar. Munurinn er sá að nú hefur „líkamsorðið“ ákveðinn greini, en var greinislaust í fornmáli. Sú setningagerð er vitanlega enn til í formlegu ritmáli. Notkun forsetningarliðar kemur svo til á 14.-15. öld eða svo og hefur verið aðalafbrigðið síðan.

Sú skoðun virðist mjög útbreidd að hér sé um ensk áhrif að ræða en mér finnst ekkert benda sérstaklega til þess. Því fer nefnilega fjarri að nýja afbrigðið hermi eftir enskunni. Þar er sagt my hairyour hearthis noseher eyes. Eignarfornafnið fer þar á undan „líkamsorðinu“, ekki á eftir eins og í íslensku. Þar að auki notar íslenskan ákveðinn greini en enskan ekki. Ef sagt væri mitt hárþitt hjartahans nefhennar augu væru ensk áhrif líkleg – en þetta er yfirleitt ekki sagt, held ég.

Það er rétt að athuga að hefðbundin hegðun „líkamsorðanna“ er í raun undantekning – öll önnur nafnorð tjá eigandann með eignarfornafni eða eignarfalli persónufornafns, en ekki í forsetningarlið. Við segjum bókin mínbíllinn þinnhundurinn hanshúsið hennar. Það liggur beint við að álykta að „líkamsorðin“ séu einfaldlega að laga hegðun sína að hegðun annarra nafnorða í málinu. Þess vegna er varla hægt að halda því fram að þessi breyting feli í sér einhver málspjöll.

En í umræðu á netinu um þessa breytingu kom einu sinni upp annað sem ég hafði ekki leitt hugann að. Þar var bent á að á undanförnum árum er – sem betur fer – lögð mikil áhersla á það við ung börn að þau eigi líkama sinn sjálf. Maður hefur tilfinningu fyrir því – eða börn hafa það a.m.k. sennilega – að hárið mitt sé miklu meiri einkaeign mín en hárið á mér. Mér finnst ekki ótrúlegt að þetta stuðli að aukinni útbreiðslu þessa afbrigðis þótt það sé væntanlega ekki eina ástæðan.