Þjóðarsátt um „þágufallssýki“

Í áratugi hefur verið barist hatrammlega gegn svokallaðri „þágufallssýki“ eða „þágufallshneigð“ sem felst í því að notað er þágufall á frumlag nokkurra sagna sem áður tóku með sér þolfalls- eða nefnifallsfrumlag. Þetta eru einkum sagnirnar langavanta og hlakka, en einnig dreymakvíða og nokkrar fleiri – sumar sjaldgæfar. En andstætt því sem ætla mætti af harðri andstöðu við þessa breytingu er það engin ný bóla að sagnir breyti um frumlagsfall. Sögnin vænta, sem nú hefur alltaf nefnifallsfrumlag, tók til skamms tíma iðulega með sér þolfall – mig væntir. Sama máli gegnir um vona – á tímarit.is eru eldri dæmi um mig vonar en um ég vona.

Í frægum ritdómi um „Rímur af Tistrani og Indíönu“ í Fjölni 1835 skrifar Jónas Hallgrímsson: „Það eru farnar að rísa upp raddir móti þessum ósóma; og ein af þessum röddum, sem talar og lætur til sín heira á eiðimörku, hún er ekkji ónít, og hefir — að mig vonar — komið einhvurju til leiðar.“ Í „Ágrip af ræðu áhrærandi íslenzkuna“ í Fjölni 1838 skrifar Konráð Gíslason: „Mig væntir, að allir, sem það hugleiða, muni hljóta að verða okkur samdóma.“ Hvorki Jónas né Konráð hefur þótt sérstakur bögubósi í meðferð móðurmálsins – eftir Sigurði Nordal prófessor er haft: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku.“

Á 19. öld tóku sagnirnar fækka og fjölga yfirleitt nefnifallsfrumlag. Dæmi um það má sjá í Fjölni 1839, þar sem segir „fólkið hafi ekki gjetað aukist, síðan það fór að fækka á 14. öld“ og „hjáleigur eru lagðar í eiði, til þess að ríma um heimajarðir, so að heimabændur fjölga“. Þessar sagnir taka nú ævinlega þágufallsfrumlag – við segjum fólkinu fækkarbændum fjölgar. Samt dettur engum í hug að kalla þetta „þágufallssýki“ eða reyna að snúa þessum breytingum við. Þarna eru fjórar sagnir – fjölgafækkavona og vænta – þar sem frumlagsfall hefur breyst síðan á 19. öld. Tvær þær fyrrnefndu taka nú þágufall í stað nefnifalls áður, en tvær þær síðarnefndu taka nú ævinlega nefnifall í stað þolfallsins sem þær tóku iðulega með sér áður.

Þetta eru algengar sagnir, rétt eins og þær sem tengdar eru við „þágufallssýki“. Samt dettur engum í hug að halda því fram að breytingar á frumlagsfalli þessara sagna hafi spillt málinu á einhvern hátt. Vitaskuld gerir „þágufallssýkin“ það ekki heldur. Það eru engin rök fyrir því að breyting á frumlagsfalli fáeinna sagna af þeim þúsundum sem eru í málinu stefni íslenskunni í hættu. En þessi „sýki“ hefur þó verið talin hin verstu málspjöll og einhvern veginn orðið „móðir allra málvillna“ ef svo má segja. Hægt er að finna fjölmörg dæmi úr dagblöðum frá seinni hluta 20. aldar þar sem „sýkinni“ er hallmælt og hinum „sýktu“ valin hin verstu orð.

En þrátt fyrir áratuga hatramma baráttu gegn „þágufallssýki“ sýna fjölmargar rannsóknir sem hafa verið gerðar á tíðni og útbreiðslu hennar undanfarin 40 ár allar það sama: Hún er útbreidd um land allt (þrátt fyrir að hún hafi hér áður oft verið tengd við Reykjavík), hún er algengari meðal yngra fólks en eldra, og hún nær til sífellt stærri hluta málnotenda. Miðað við hina viðurkenndu skilgreiningu á „réttu“ máli og „röngu“ sem hér hefur áður verið vitnað til – „Rétt mál er það sem samræmist málvenju, rangt mál samræmist engri málvenju“ – er alveg ljóst að ekki er hægt að kalla „þágufallssýki“ rangt mál, því að hún er ótvírætt málvenja umtalsverðs hluta málnotenda.

En vandinn er sá að það er búið að gera hana að slíkri grýlu í marga áratugi að fyrir mörgum er hún – ósjálfrátt og ómeðvitað – ímynd lélegs málfars, vankunnáttu og hirðuleysis, að ekki sé sagt fáfræði og jafnvel heimsku. Þar að auki finnst mörgum hún hryllilega ljót. Þetta er tilfinning sem ekki má gera lítið úr, heldur ber að taka alvarlega. Ég skil hana vel – sjálfur kippist ég við þegar ég heyri þágufall með langavanta og hlakka. Ég veit að ég á ekki að dæma mælandann fyrir það, og geri það ekki – vona ég – en ég þarf virkilega að passa mig.

Vegna þess hversu útbreidd tilfinningin er og sterk hjá mörgum er ekki einfalt að snúa við blaðinu í einu vetfangi og viðurkenna þágufall sem jafnrétta og eðlilega íslensku og þolfall með umræddum sögnum. En við verðum samt að stefna í þá átt – það er hvorki í þágu málnotenda né íslenskunnar að líta niður á mál sem umtalsverður hluti þjóðarinnar er alinn upp við. Við þurfum að hætta að prófa nemendur í fallnotkun með umræddum sögnum, og svo þurfum við öll að reyna að breyta hugarfari okkar og taka „þágufallssýkina“ í sátt. Þjóðarsátt.