Málvillur hinna

Ég hef oft sagt 40 ára gamla sögu af því þegar ég hitti afa heitinn einhvern tíma á námsárum mínum. Hann vissi auðvitað að ég væri í íslenskunámi og fór að ræða við mig um málfar og býsnast yfir því hvað mál unglinga í Reykjavík væri orðið spillt – t.d. segðu þeir nú mér langarmér vantar og annað eftir því. Ekki mótmælti ég því en spurði á móti hvort honum fyndist þá í lagi að tala um að hitta læknirinn. Hann varð hvumsa við, en sagðist ekki vita betur en það væri fullkomlega eðlilegt og rétt mál. Ég sagði honum þá að það mætti ekki á milli sjá hvor „villan“ þætti verri í setningunni Mér langar að hitta læknirinn. Hann þagnaði um stund, en kvað svo upp úr með það að seinni villan væri miklu minni því að hún væri norðlenska en hin sunnlenska. (Hvorug er reyndar landshlutabundin, en það er annað mál.)

Ég er ekki að segja þessa sögu til að gera grín að afa eða gera lítið úr honum á nokkurn hátt – síður en svo. Viðbrögð hans voru fullkomlega eðlileg og dæmigerð fyrir okkur mörg. Okkur finnst ósjálfrátt að sú íslenska sem við erum sjálf alin upp við, hvert og eitt, hljóti að vera betri og réttari en sú sem fólk af öðru landshorni eða á öðrum aldri talar, og okkur hættir til að telja að annað en það sem við þekkjum sjálf eða erum vönust – eða okkur hefur verið kennt – sé rangt. Afi var fæddur rétt fyrir 1900 og þekkti örugglega ekki annað úr uppeldi sínu en hitta læknirinn – á þeim tíma hafði baráttan gegn þessari beygingu ekki náð til almennings. Ég hef lesið fjölda sendibréfa frá afa og úr umhverfi hans frá þessum tíma og undantekningarlaust er þessi beyging notuð þar.

En í þessum bréfum er notað blæbrigðaríkt mál – góð og eðlileg íslenska, eins og ég tel mig vera alinn upp við hjá þessu fólki og afkomendum þess. Aldrei hefði það fólk sagt mér langar eða ég vill, enda ekki alið upp við það. Hins vegar fór það að hitta læknirinn og finna systir sína – enda alið upp við það. Það er fráleitt og raunar móðgun að segja að þetta fólk hafi talað „rangt mál“ þótt það viki frá hinum viðurkennda staðli að þessu leyti – það talaði bara þá íslensku sem það hafði lært af foreldrum sínum, öfum og ömmum. Það er engin skynsemi í að kalla þessa beygingu „ranga“ í máli þeirra sem hafa alist upp við hana. En á sama hátt er fráleitt að segja að það fólk sem elst upp við mér langar og ég vill tali rangt mál.

Sú íslenska sem við ölumst upp við og tileinkum okkur á máltökuskeiði getur ekki verið röng. Hún er okkar mál og annað fólk er ekki þess umkomið að segja okkur að það sé rangt. Það þýðir ekki að maður eigi ekki að leitast við að vanda mál sitt, og það þýðir ekki heldur að leiðbeiningar um málfar eigi ekki rétt á sér. Við eigum að hvetja fólk til að virða málhefð og halda íslensku að börnum og unglingum. En við eigum ekki að berja niður það mál sem fólk er alið upp við og er því eiginlegt.