Settust!

Þegar ég fluttist til Sauðárkróks framan úr sveit haustið 1967 tók ég fljótt eftir því að krakkar þar sögðu settust í stað sestu sem ég var vanur – veit ekki hvað fullorðna fólkið gerði. Þetta hljómaði undarlega fyrst í stað en ég vandist því fljótt þótt ég tæki það ekki upp. En ég var lítið á Króknum eftir 16 ára aldur og heyrði þessa orðmynd eða aðrar hliðstæðar ekki næstu áratugina. Svo liðu 45 ár. Sumarið 2013 sá ég auglýsingu um tónlistarhátíðina Gæruna á sjoppuvegg á Króknum. Þar stóð „Fylgdust með okkur á Facebook“. Það var sem sé greinilegt að þessi boðháttarmyndun var enn notuð á Króknum, og eftirgrennslan bendir til að myndir af þessu tagi séu helst notaðar á Norðurlandi.

Stofn boðháttar er venjulega eins og nafnháttur sagna að frádreginni nafnháttarendingunni -a (eða -ja, ef nafnhátturinn endar þannig); í sögnum sem enda á -aði í þátíð eins og kalla er -a hluti stofns en ekki nafnháttarending. Boðháttur setja er því set, boðháttur fylgja er fylg, boðháttur gera er ger, og boðháttur kalla er kalla. En stofninn er sjaldan eða aldrei notaður einn sér nema í formlegu máli. Þess í stað er bætt við hann -ðu, eins og í gerðu, -du, eins og í fylgdu, eða -tu, eins og í settu. Þetta -ðu/-du/-tu er komið úr annarrar persónu fornafninu þú, og það er gerð (hljóðafar) sagnstofnsins sem ræður því hvert afbrigðið er notað en ástæðulaust að fara út í það hér enda reglurnar ekki alveg einfaldar.

Sagnirnar gera, fylgja og setja eru í miðmynd gerast, fylgjast og setjast. Miðmyndarendingin –st sem bætist við nafnháttinn var áður -sk og er orðin til úr afturbeygða fornafninu sig sem áður var sik. Það er ástæðulaust að rekja þá þróun hér. En þetta þýðir að í boðháttarmyndum eins og gerstu, fylgstu og sestu bætast við stofninn tvær endingar sem báðar eru í raun eins konar leifar sjálfstæðra orða. Samsetning orðanna er því ger+st+tu, fylg+st+tu, set+st+tu. Þarna „ættu að“ koma saman tvö t en slík sambönd eru óhugsandi í íslensku hljóðkerfi og styttast ævinlega. Útkoman er því gerstu, fylgstu, sestu (ekki *gersttu, *fylgsttu, *sesttu).

Í myndum eins og gerðust, fylgdust, settust er endingunum tveimur, miðmyndarendingunni og annarrar persónufornafninu, er bætt við stofninn í öfugri röð við það sem venja er. Í stað ger+st+tu, fylg+st+tu, set+st+tu er röðin ger+ðu+st, fylg+du+st, set+tu+stgerðust, fylgdust, settust. Hvers vegna þessi víxl verða er svo annað mál. Ein ástæða gæti verið sú að miðmyndarendingin er venjulega aftast í orðum, á eftir öðrum endingum – við segjum þetta gerðist (ger+ði+st, ekki *gerstði, ger+st+ði), þau fórust (fór+u+st, ekki *fór+st+u). E.t.v. finnst málnotendum að miðmyndarendingin sé ekki á réttum stað í gerstu, fylgstu og sestu.

Vissulega er boðháttarendingin, leifar annarrar persónufornafnsins, venjulega líka aftast. En ekki geta tvær endingar verið aftast – önnur verður að víkja. Það gæti haft hér áhrif að í venjulegu boðháttarmyndunum gerstu, fylgstu og sestu er ekkert eftir af annarrar persónu fornafninu nema -ut-ið fellur brott vegna þess að það fer á eftir öðru t. Hugsanlega veldur þessi skerðing því að málnotendum finnst boðháttarendingin ekki nógu áberandi og finna leið til að leyfa henni að njóta sín – með því að færa hana fram fyrir miðmyndarendinguna og segja gerðust, fylgdust og settust.

En ekki eru öll kurl komin til grafar. Ég hef heyrt af því að einnig séu til boðháttarmyndir eins og settustu. Þar lítur út fyrir að annarrar persónufornafninu sé bætt tvisvar við stofninn – set+tu+st+tu. Ég kann ekki að skýra þetta. Annað sem er vert að nefna eru myndir eins og við hittustum/sáustum í stað hittumst/sáumst o.s.frv. sem áður voru algengar og heyrast oft enn. Þetta eru vissulega ekki boðháttarmyndir, en í þeim verða líka víxl á endingum – í stað hitt+um+st kemur hitt+u+st+um (látum liggja á milli hluta af hverju u kemur þarna tvisvar fram).

Tilgangurinn með þessum pistli er ekki að gera ítarlega úttekt á þessum sérstöku boðháttarmyndum eða skýra þær til fulls, enda er þetta ekki fræðilegur vettvangur. Mig langaði bara til að vekja athygli á þessu og benda enn einu sinni á að það eru ekki endilega rétt viðbrögð að afgreiða frávik frá „réttu“ máli einfaldlega sem „villur“ – skynsamlegra og skemmtilegra er að velta þessum frávikum fyrir sér og skoða hvað þau geta sagt okkur um tungumálið og notendur þess.