Húðlitað

Í gær var í Fréttablaðinu fyrirsögnin „Húðlitað vinsælt núna“. Þetta fór fyrir brjóstið á mörgum sem eðlilegt er. Vitanlega gæti húðlitað vísað til hvaða hörundslitar sem væri, eins og það er t.d. skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'með lit sem líkist mannshörundi, ljósu eða dökku eftir atvikum'. En það var ekki merkingin þarna, því að í fréttinni stóð: „Um þessar mundir eru húð- og beislitaðir kjólar vinsælir“. Þar er augljóslega vísað til þess hörundslitar sem er algengastur á Íslandi.

Orðið húðlitaður er ekki mjög gamalt í málinu – elsta dæmið á tímarit.is er frá 1961. Á þeim tíma var merking þess ótvíræð – þá höfðu næstum allir Íslendingar þennan sama hörundslit. En það kemur á óvart að notkun orðsins hefur aukist mjög mikið síðan um aldamót ef marka má tímarit.is – einmitt á sömu árum og fólki með annan hörundslit hefur fjölgað mjög á landinu. (Færri dæmi á öðrum áratug aldarinnar en þeim fyrsta skýrist væntanlega aðallega af því að minna efni er komið inn frá síðustu árum.)

Það er eðlilegt að fólki með annan húðlit sárni að sjá þetta orð notað en vitanlega liggur enginn illur hugur þar að baki, heldur hugsunarleysi. Það getur komið fyrir okkur öll að nota tungumálið á þann hátt að það særi viðmælendur eða lesendur – nota fordómafullt eða útilokandi orðalag sem við höfum alist upp við en er ekki lengur gjaldgengt. Þótt húðlitaður væri ekkert óeðlilegt orð í mínu ungdæmi fyrir 50-60 árum er það í sama flokki og negri, kynvillingur, vangefinn og önnur slík – það er óboðlegt. Frelsi okkar til að nota tungumálið að vild nær ekki til þess að nota það til að meiða annað fólk.