Blanda af báðu

Fyrir nokkrum árum fór ég stundum á ágætan grænmetisstað niðri í bæ. Þar voru yfirleitt tveir aðalréttir í boði, en svo var þriðji möguleikinn, „Blanda af báðu“ – þ.e. blanda af báðum aðalréttunum. Ég get ekki neitað því að ég tók eftir þessu orðalagi og fannst það dálítið skrítið þótt ég áttaði mig auðvitað á því að báðu hlyti að vera beygingarmynd af fornafninu báðir. Orðmyndin báðu lítur út eins og venjuleg mynd fornafns eða lýsingarorðs í þágufalli eintölu hvorugkyni, hliðstætt við t.d. blanda af tvennu, blanda af öllu, blanda af mörgu o.s.frv. En vandinn er sá að báðir er (venjulega) ekki til í eintölu eins og sést í beygingardæmi orðsins í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Myndin báðu er vissulega ekki algeng, a.m.k. ekki á prenti, en á sér þó langa sögu í málinu. Sambandið jöfnu báðu (nóns og miðaftans / óttu og miðmorguns o.fl.) þekkist a.m.k. frá miðri 19. öld – elsta dæmið um það á tímarit.is er í Fjölni 1847, þar sem sagt er frá andláti Jónasar Hallgrímssonar: „það var hjer um bil jöfnu báðu miðsmorguns og dagmála, hálfri stundu áður, enn taka átti af honum fótinn“. Sambandið hefur verið nokkuð notað síðan og Halldór Laxness virðist hafa haft sérstakt dálæti á því.

En elsta dæmi sem ég hef fundið um báðu í öðru samhengi er í Búnaðarritinu 1896: „að eigi sé sama veiklun, sjúkdómur eða sjúkdómsspíra hjá báðu foreldri.“ Í Bjarma 1913 segir: „»Nýja guðfræðin« er hvorki trú né skoðun, heldur undarlegur blendingur af báðu, og í rauninni skrípamynd hvors tveggja.“ Hér er athyglisvert að í þágufallinu er notuð myndin báðu, en í eignarfallinu er svo notað fornafnið hvor tveggja, eins og þykir „rétt“ – ekki eignarfallsmyndin *bæðis (eða *báðs).

Önnur dæmi sem ég hef rekist á eru m.a. úr Iðunni 1921: „fallið á steininum má skýra jafn-vel með báðu móti.“ Í Morgunblaðinu 1960 segir: „Við höfum reynt að draga reynslu og lærdóm af báðu.“ Í Bæjarins besta segir árið 2007: „Þegar maður vinnur hjá báðu þá er maður í teng[s]lum við vel flesta þarna innanhúss.“ Og fyrirsögn í Vísi 1972 gekk alveg fram af Helga Hálfdanarsyni sem skrifaði í greininni „Meira magn af báðu“ í Morgunblaðinu 1973: „Líklega keyrir þó um þverbak, þegar blað birtir forustugrein, sem ber fyrirsögnina Það bezta af báðu. Fróðlegt væri að sjá önnur föll þess „orðs“, sem þar stendur í þágufalli.“

Ég held reyndar að önnur föll í eintölu af báðir séu einmitt ekki til. Í Málfarsbankanum telur Jón G. Friðjónsson að þolfallið bæði komi t.d. fyrir þegar spurningum eins og Viltu mjólk eða sykur út í kaffið? er svarað með Bæði. Mér finnst hins vegar eðlilegast að líta svo á að þarna sé um að ræða samtenginguna bæði – og þannig að bæði sé stytting fyrir bæði mjólk og sykur. Jón nefnir reyndar að mörg svipuð dæmi megi hugsanlega skýra á þennan hátt. Eignarfallsmyndina *bæðis kannast ég ekki við og hef aldrei séð dæmi um hana og held að hún sé ekki til, sbr. líka dæmið hér að framan þar sem báðu er notað í þágufalli en hvors tveggja í eignarfalli.

Ef báðir fengi eintölubeygingu í öllum föllum hvorugkyns mætti búast við nefnifallinu *báð. Fornöfn og lýsingarorð bæta að vísu yfirleitt við sig -t í hvorugkyni, en flest lýsingaorð með -áð í stofni eru undantekning – þar er hvorugkynið endingarlaust (fjáð, háð, smáð, þjáð). Þó bætir bráður við sig -t í hvorugkyni sem verður brátt með tilheyrandi samlögun (og aðblæstri) þannig að nefnifall eintölu *bátt af báðir væri líka hugsanlegt. En ég hef hvorki heyrt *báð né *bátt og hef enga trú á að þessar myndir séu til – e.t.v. vegna þess að hægt er að nota bæði sem e.k. staðgengil. Eignarfallið ætti að vera *báðs en það er varla til heldur.

Ég varð vissulega svolítið hissa að sjá Blanda af báðu á matseðli grænmetisstaðarins, en ég hefði samt orðið mun meira hissa ef þar hefði staðið Blanda af hvoru tveggja. Ég held nefnilega að „rétt“ notkun fornafnsins hvor tveggja (að ekki sé talað um hvortveggi) sé það atriði íslensks málstaðals sem er fjærst máltilfinningu venjulegra málnotenda. Reyndar er Málfarsbankinn ekki alveg afdráttarlaus með þetta en segir „Betra er að segja hvorar tveggja buxurnar en „báðar buxurnar““ – kveður sem sagt ekki upp úr með að það síðarnefnda sé „rangt“.


Ég stórefa að nokkur almennur málnotandi kaupi hvorar tveggja buxurnar, týni hvorum tveggja skærunum eða telji hvorn tveggja málstaðinn góðan. Það er ekki nokkurt vit í að halda í svona forngrip sem fæstir hafa á valdi sínu og mér finnst sjálfsagt að tala um báðar buxurnar, bæði skærin og báða málstaðina – og blöndu af báðu.