Framburður og stafsetning

Þótt talað mál sé grundvöllur mannlegs máls hefur fólk lengi kunnað aðferðir til að breyta því í ritmál. Algengasta aðferð­in, og sú sem við notum, er að láta bókstafi standa fyrir ákveðin hljóð. Við getum því í stórum dráttum skipt rituðu máli í einingar á sama hátt og töluðu máli, nema í ritmálinu heita einingarnar bókstafir en ekki hljóð. Oft eru gerðar athugasemdir við tilbrigði í framburði á forsendum stafsetningar – talað um að það eigi að „bera fram alla stafina“ eða eitthvað slíkt. Til að þessi samsvörun milli talaðs máls og ritaðs væri full­komin þyrfti hver bókstafur að svara til eins, og aðeins eins, hljóðs.

Það er þó auðvelt að ganga úr skugga um að svo er ekki. Einna skýrast kemur þetta í ljós í samanburði mis­munandi tungumála. Við vitum t.d. flest að þar sem skrifað er a í ensku er oft ekki borið fram sama hljóð og þar sem skrifað er a í íslensku, heldur iðulega eitthvað sem líkist ei. Sömuleiðis er e í ensku oft borið fram eins og þar væri skrifað í; og svo mætti lengi telja. Þetta sýnir okkur að samband bókstafa og hljóða er ólíkt eftir málum, og við þurfum að læra hvernig því er háttað í hverju nýju máli sem við lærum.

En reyndar er hér leitað langt yfir skammt. Hliðstæð dæmi eru mýmörg í íslensku, þótt við tökum sjaldnast eftir þeim vegna þess að þau eru okkur svo töm. Samt vita öll að þótt skrifað sé a í orðum eins og langur og ganga bera flest það fram eins og skrifað væri á; og þótt skrifað sé h í orðum eins og hvernig og hvenær ber meginhluti fólks það fram eins og skrifað væri k. Við getum líka skoðað fimm orð sem öll eru skrifuð með bókstafnum gː gata – geta – síga – sagt – bogi. Ef vel er að gáð kemur í ljós að þessi eini bókstafur stendur hér fyrir fimm mismunandi hljóð!

Sögnin geta er borin fram eins og þar væri skrifað gj; prófið bara að bera upphaf orðsins fram eins og þið væruð að fara að segja gata. Sögnina síga getið þið svo borið saman við orðið síga­retta. Þótt fyrri hluti þess orðs sé skrifaður eins og sögnin síga er framburðurinn ólíkur; í sígaretta er sama g-hljóðið og í gata, en í sögninni síga er greinilega annað hljóð. Í sagt bætist við enn eitt hljóð; reynið þið bara að setja eitthvert þeirra þriggja hljóða sem á undan eru komin þarna í staðinn og athugið hvort þið heyrið ekki mun. Að lokum er svo bogi, sem er borið fram eins og þar væri skrifað j en ekki g. Við þetta mætti svo bæta orðum eins og margt, sem alltaf er borið fram eins og það væri skrifað mart.

Við höfum því dæmi um að í íslensku séu tengsl milli bók­stafsins g og framburðar á a.m.k. sex mismunandi vegu; g getur svarað til fimm mismunandi hljóða og að auki til „ekki neins“, eins og í margt. Þessi margræðni veldur okkur samt yfirleitt engum vandræðum í íslensku, vegna þess að við kunnum málið og þekkjum reglur þess án þess að gera okkur grein fyrir því. Við „vitum“ að g svarar til annars hljóðs ef e er á eftir (eins og í geta) en ef a fer á eftir (eins og í gata). Við „vitum“ líka að g svarar til annars hljóðs (eða annarra hljóða) inni í orði en í upphafi orðs; og við „vitum“ að g er borið fram eins og j inni í orði ef i fer á eftir (eins og í bogi).

Ástæðan fyrir því að við getum notað ritað mál til að tákna talmál er sem sé ekki sú að milli eininga í talmáli (hljóðanna) og eininga í ritmáli (bókstafanna) sé alltaf fullkomin samsvörun, heldur sú að þegar við lærðum að lesa lærðum við hvernig tengslunum milli bókstafa og hljóða er háttað. Þótt sami bókstafur geti staðið fyrir mörg hljóð, og sama hljóðið geti verið táknað með mismunandi bókstöfum, er sambandið ekki tilviljanakennt – um það gilda reglur sem taka mið af stöðu í orði og bókstöfum og hljóðum í umhverfinu.

Það er bara í örfáum tilvikum sem stafsetningin sýnir ekki framburð svo að ótvírætt sé. Helst er það í orðum með tvíritað l, eins og villa, sem bæði getur þýtt ‘mistök, eitthvað sem gert er rangt’ og líka ‘stórt og íburðarmikið hús’. Fyrra orðið er borið fram eins og skrifað væri dl, en í því seinna er borið fram langt l. Í sumum orðum með tvíritað n getur framburður líka verið mismunandi eftir merkingu. Orðið brúnni er borið fram með dn ef það er beygingarmynd af lýsingarorðinu brúnn, en með löngu n ef það er mynd af nafnorðinu brú. Eins geta skil orðhluta í samsetningum haft áhrif á framburð og ekki auðvelt að setja reglur um það.