Ég gæti hafa gert þetta

Í íslensku eru iðulega notuð sambönd með tveimur eða jafnvel þremur hjálparsögnum – ég mun hafa selt húsið, húsið hefur verið selt, húsið mun hafa verið selt, o.s.frv. Í slíkum tilvikum er röð hjálparsagnanna yfirleitt föst og óbreytanleg. Það er ekki hægt að segja *ég hef munu selja húsið, *húsið hefur munu vera selt, *húsið er haft munu selja, *húsið er munu hafa selt eða neitt slíkt – það er alveg fráleitt. Frá þessu er þó ein undantekning – samband sagnanna geta og hafa. Við getum sagt bæði ég hefði getað gert þetta og ég gæti hafa gert þetta – hvort tveggja er algengt og full-komlega eðlilegt í nútímamáli, bæði formlegu og óformlegu. En síðarnefnda sambandið er áhugavert af ýmsum ástæðum.

Þegar geta er hjálparsögn tekur hún venjulega með sér lýsingarhátt þátíðar af aðalsögninni – ég get gert þetta, við getum komið, þau gátu lesið bókina, o.s.frv. Ef aðalsögnin í slíkum dæmum er hafa stendur hún líka í lýsingarhætti þátíðar eins og aðrar sagnir – ég get haft þig með, við getum haft þetta svona. En ef hafa er ekki aðalsögn heldur hjálparsögn (tekur með sér enn aðra sögn) stendur hún í nafnhætti á eftir geta, ekki í lýsingarhætti þátíðar – ég get hafa gert þetta, ekki *ég get haft gert þetta. Reyndar má finna dæmi af síðarnefndu tegundinni á netinu, s.s. „Ég skil að viðkomandi fjarvist gæti haft dregið úr afköstum á vinnustað þínum“, en þau eru sárafá. Fleiri dæmi eru hins vegar um myndina hafað, s.s. „Þessar upphæðir gætu hafað lækkað eitthvað síðan“. Þar virðist vera um einhver konar lýsingarhátt þátíðar að ræða, þótt það sé ekki hinn venjulegi lýsingarháttur sagnarinnar.

Röðin geta + hafa kemur ekki fyrir í fornu máli (reyndar er hafa + geta sárasjaldgæf þar líka). Elstu öruggu dæmin um hana eru frá því um miðja 19. öld, og sambandið er mjög sjaldgæft fram um 1880. Eftir það fjölgar dæmum smátt og smátt, og tíðnin eykst svo verulega kringum 1940. Það ár skrifaði Björn Guðfinnsson grein í Andvara undir titlinum „Tilræði við íslenzkt mál“. Þar fjallar hann um margs kyns villur og ambögur í þýddri smásögu sem þá hafði nýlega birst í tímariti, og skiptir þessum hnökrum í ýmsa flokka. Einn þeirra heitir „dönskuhroði“ og þar er tilfærð setningin „Hún getur hafa (kan have) borið grímu“. Engin frekari skýring fylgir á fordæmingu þessarar setningar en kan have í sviga sýnir að Björn hefur talið þessa setningagerð komna úr dönsku – og þar af leiðandi vonda íslensku.

Í ábendingunum Gætum tungunnar sem birtust í dagblöðum upp úr 1980 stendur: „Sagt var: Hann getur hafa komið í gær. Rétt væri: Hann hefur getað komið í gær, Eða: Hann kann að hafa komið í gær.“ Hér er þetta sett fram eins og getur hafa merki það sama og hefur getað, en það er ekki rétt. Merkingin í hann hefur getað mætt í skólann er ekki sú sama og í hann getur hafa mætt í skólann. Í fyrri setningunni felst að hann hafi raunverulega mætt, en sú seinni merkir 'það er hugsanlegt að hann hafi mætt'. Eðlilegt framhald af þeirri fyrri væri t.d. . . . þrátt fyrir sóttvarnaráðstafanir, en af þeirri seinni t.d. . . . án þess að ég viti af því. Eðlilegt framhald af ég hef getað lyft þessum steini væri t.d. alltaf þegar ég hef reynt, en eðlilegt framhald af ég get hafa lyft þessum steini væri fremur en ég man það ekki.

Þegar gert er upp á milli tilbrigða í máli, t.d. mig/mér langar, ég vil/vill, hurðir/hurðar o.s.frv., hafa bæði (öll) afbrigðin venjulega sömu merkingu. Möguleikar tungumálsins til tjáningar eru þeir sömu hvort sem við segjum mig langar eða mér langar. En í þessu tilviki gegnir öðru máli, og röðin geta + hafa hefur „fyrir löngu öðlast fastan sess í íslensku enda er skýr merkingarmunur á orðasamböndum hefði getað og gæti hafa“ segir Jón G. Friðjónsson. Þegar geta stendur á eftir hafa merkir hún 'vera fær um' en ef hún stendur á undan felur hún oftast í sér möguleika sem ekki er ljóst hvort hefur raungerst. Þarna er vissulega oft stutt á milli, og það virðist vera eitthvað misjafnt hvaða tilfinningu málnotendur hafa fyrir þessu. En það auðgar málið að hafa þessi tvö sambönd en ekki bara eitt.