Að fara eitthvert

Óákveðin fornöfn með -hver sem seinni lið, einhver og sérhver, hafa tvær mismunandi myndir í nefnifalli og þolfalli hvorugkyns eintölu – eitthvert, sérhvert og eitthvað, sérhvað. Yfirleitt er gert ráð fyrir að þessar myndir hafi með sér verkaskiptingu, eins og segir í Málfarsbankanum: „Hvorugkyn eintölu eitthvað stendur sjálfstætt en eitthvert stendur með nafnorði.“ Sama gildir um verkaskiptingu sérhvað og sérhvert. Það er að vísu algengt að myndin eitthvað sé notuð með nafnorði, eins og varað er sérstaklega við í Málfarsbankanum: „Hún vann eitthvert verk (ekki: „hún vann eitthvað verk“).“ Þetta er ekki nýtt – í Ritmálssafni Árnastofnunar eru nokkur dæmi um eitthvað með nafnorði allt frá 17. öld.

En einnig er því oft haldið fram að myndin eitthvert sé stundum ranglega notuð, eins og Málfarsbankinn tekur dæmi um: „Hann fór eitthvað annað (ekki: „hann fór eitthvert annað“).“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 kemur einnig fram að rétt sé að segja „Hann er að fara eitthvað út í buskann“ en ekki „Hann er að fara eitthvert út í buskann“. Þetta er ekki heldur nýtt. Elsta dæmi sem ég fann í fljótu bragði um notkun eitthvert með fara er í Bjarka 1899 – „Hún fór eitthvert suðreftir með lestinni“. Í þessum dæmum er myndin eitthvert vissulega notuð sjálfstæð, án þess að standa með nafnorði, sem í fljótu bragði gæti virst vera í andstöðu við þær reglur sem venjulega eru kenndar um verkaskiptingu þessara mynda.

Þarna er þó ekki allt sem sýnist. Eins og fram kemur í orðabókum er orðið hvert ekki bara hvorugkyn af spurnarfornafninu og óákveðna fornafninu hver, heldur líka spurnaratviksorð í merkingunni 'til hvaða staðar', í setningum eins og hvert ertu að fara?. Þegar spurt er með atviksorði er venjulega svarað með atviksorði eða forsetningarlið – ég er að fara heim / niður í bæ / til Akureyrar o.s.frv. Slíkum spurningum er ekki svarað með nafnorði, enda er sögnin fara áhrifslaus og tekur ekki með sér nafnorð. Reyndar er líka hægt að segja hvað ertu að fara? en það er yfirleitt notað í óeiginlegri merkingu, 'hvað meinarðu?' eða eitthvað slíkt.

En þótt spurningunni hvert ertu að fara? sé oft svarað með ég er að fara eitthvert er aldrei hægt að svara spurningum eins og hvað ertu að gera? með *ég er að gera eitthvert – þess í stað verður að segja ég er að gera eitthvað. Öfugt við fara verður gera nefnilega að hafa með sér andlag, og þess vegna er ekki spurt með spurnaratviksorði heldur spurnarfornafni, og þess vegna er líka svarað með fornafni, ekki atviksorði. Þótt eitthvað geti verið andlag getur eitthvert sem stendur eitt og sér ekki verið það, heldur þarf að hafa nafnorð með sér, t.d. ég er að gera eitthvert skammarstrik.

Þetta sýnir glöggt að enda þótt orðabækur gefi eitthvert eingöngu upp sem hvorugkyn af einhver leikur enginn vafi á því að í samböndum eins og ég er að fara eitthvert er það atviksorð en ekki fornafn. Það segir sig eiginlega sjálft að spurningum með spurnaratviksorði er svarað með atviksorði, ekki fornafni. Reglan um að eitthvað standi sjálfstætt en eitthvert standi með nafnorði á því einfaldlega ekki við í dæmum eins og ég er að fara eitthvert – hún tekur til fornafna, en eitthvert er atviksorð þarna og staðaratviksorð geta vitanlega staðið sjálfstæð. Það er athyglisvert að í Íslenskri stafsetningarorðabók er eitthvað gefið upp sem atviksorð, með notkunardæminu fara eitthvað.

Það er vandséð annað en eðlilegt sé að greina eitthvert sem atviksorð í þessari notkun fyrst eitthvað er greint þannig. Vilji fólk amast við setningum eins og fara eitthvert með þeim rökum að atviksorðið eitthvert sé „ekki til“ verður ekki séð á hverju það byggist. En það er líka hægt að segja ég er að fara eitthvað, í u.þ.b. sömu merkingu – þótt fornöfnin eitthvað og eitthvert hafi með sér verkaskiptingu gildir það ekki um samhljóða atviksorð. Öfugt við það sem Málfarsbankinn og Gætum tungunnar segja er því ekkert athugavert við setningar eins og ég er að fara eitthvert – þær eru fullkomlega í samræmi við reglur og hefðir málsins.