flýkkun

Nýlega rakst ég á fyrirsögnina „Flýkkun seinni sprautu Astra ræðst af magni“ á vefmiðli. Ég man ekki eftir að hafa séð orðið flýkkun áður en það var svo sem augljóst af samhenginu hvað það merkti, sem sé 'flýting'. Á netinu fann ég fáein dæmi um flýkkun klukkunnar, flýkkun á flugi o.þ.h. Nafnorð sem enda á -un eru oftast dregin af sögn, þannig að ég bjóst við að finna einnig dæmi um sögnina flýkka, og það reyndist rétt – ég fann dæmi um að flýkka för, flýkka leiknum, flýkka útgáfudegi o.fl. Samtals voru þó innan við 20 dæmi um flýkka og flýkkun á netinu og í Risamálheildinni, og engin á tímarit.is, þannig að orðin eru augljóslega mjög sjaldgæf.

Orðmyndun af þessu tagi er vitanlega ekki einsdæmi. Við höfum orð eins og breikka af breiður, víkka af víður, ljókka af ljótur og lækka af lágur, þar sem samlögun verður milli lokasamhljóðs stofns og k í viðskeyti (breið+ka > breikka, víð+ka > víkka, ljót+ka > ljókka, læg+ka > lækka) – útkoman verður langt k (sem í framburði fær aðblástur). En við höfum líka hækka af hár, stækka af stór, og fækka af fár. Í þeim tilvikum, eins og í lækka, tekur stofnsérhljóðið i-hljóðvarpi (á > æ, ó > æ) og veldur lengingu k í viðskeytinu (hæ+ka > hækka). Slík lenging samhljóðs á eftir breiðu sérhljóði er ekki einsdæmi – þannig lengist r í miðstigsendingu (hæ+ri > hærri).

Allar þessar sagnir hafa sams konar merkingartengsl við lýsingarorðið sem þær eru dregnar af – hækka merkir 'verða hærra' eða 'gera hærra', breikka merkir 'verða breiðara' eða 'gera breiðara', o.s.frv. Af öllum þessum sögnum eru svo til nafnorð mynduð með -un. Sögnin flýkka er mynduð af fljótur á sama hátt – með i-hljóðvarpi stofnsérhljóðsins (jó > ý) og samlögun lokahljóðs stofns við k í viðskeyti (flýt+ka > flýkka). Það er út af fyrir sig ekkert athugavert við þá orðmyndun, né heldur nafnorðið flýkkun. Á hinn bóginn eru þetta óþörf orð vegna þess að sögnin flýta og nafnorðið flýting eiga sér langa hefð í málinu í þessari merkingu.

Þess vegna er ekki ástæða til að mæla sérstaklega með þessum nýju orðum eða ýta undir notkun þeirra. Þau eru samt auðskilin og það yrðu engin málspjöll þótt þau breiddust út. Og mér finnst þau skemmtileg vegna þess að þau sýna skapandi orðmyndun almennra málnotenda og tilfinningu fyrir málkerfinu – hvernig fólk greinir orð, dregur út úr þeim orðmyndunarreglur og nýtir þær til að mynda ný orð. Það er gaman.