manns

Orðið manns í samböndum eins og fjöldi manns, þúsund manns o.s.frv. er auðvitað að forminu beygingarmynd af orðinu maður – nánar til tekið eignarfall eintölu. Eignarfallið þarf ekki að koma á óvart – nafnorð sem tekur með sér annað nafnorð stýrir yfirleitt eignarfalli á því, eins og bók stráksins, bíll Jóns, bros konunnar o.s.frv. En orðið hagar sér samt að mörgu leyti öðruvísi en önnur nafnorð. Eitt er það að það er eintala en önnur nafnorð verða að standa í eignarfalli fleirtölu í þessu samhengi. Við getum ekki sagt *fjöldi karls / konu eða *þúsund karls / konu, heldur verðum að nota fleirtölu – fjöldi karla / kvenna, þúsundir karla / kvenna.

Annað er það að töluorð sem ekki eru jafnframt nafnorð, eins og átta, tólf, tuttugu o.s.frv. geta tekið með sér manns, en engin önnur nafnorð í eignarfalli, hvorki eignarfalli eintölu né fleirtölu. Við segjum átta / tólf / tuttugu manns, en ekki *átta karls / karla, *tólf konu / kvenna, *tuttugu barns / barna o.s.frv. Ef önnur nafnorð eru notuð með þessum tölum verða þau að sambeygjast þeim í stað þess að standa í eignarfalli – við segjum átta karlar, tólf konur, tuttugu börn. Vitanlega er hægt að nota maður þannig líka – við getum sem sé sagt hvort heldur er átta manns eða átta menn.

En það er ekki hægt að nota manns með hvaða tölum sem er. Ég get ekki sagt *tveir / þrír / fjórir manns, og ekki heldur *tuttugu og einn / tveir / þrír / fjórir manns. Aftur á móti finnst mér eðlilegt að segja fimm / sex / sjö manns o.s.frv. Á tímarit.is eru 24 sinnum fleiri dæmi um fimm / sex / sjö manns samtals en um tveir / þrír / fjórir manns samtals. Þótt það síðarnefnda komi vissulega fyrir getur þessi munur ekki verið tilviljun – og það getur ekki verið tilviljun að síðarnefndu tölurnar, tveir, þrír og fjórir, eru beygjanlegar en hinar ekki.

Það lítur sem sé út fyrir að flestum þyki óeðlilegt að nota manns með beygjanlegum tölum eða tölum þar sem síðasti liðurinn er beygjanlegur, eins og tuttugu og einn / tveir / þrír / fjórir. En hvað með aðrar beygjanlegar tölur – hundrað, þúsund og milljón? Þúsund er til bæði í kvenkyni og hvorugkyni, og hægt er að segja bæði þúsund manna og þúsundir manna – á tímarit.is er kvenkynið u.þ.b. 50% algengara í því sambandi. Aftur á móti eru sárafá dæmi um þúsundir manns – hvorugkynið þúsund manns er u.þ.b. 160 sinnum algengara en kvenkynið. Það getur ekki verið tilviljun.

Hér er rétt að athuga að hvorugkynið er eins í eintölu og fleirtölu, þúsund, og gæti því virkað eins og óbeygjanlegt. Sú hugmynd styrkist þegar litið er á milljón. Það orð er eingöngu til í kvenkyni og eina hugsanlega fleirtalan af því er milljónir. Samt sem áður orti Halldór Laxness „Spurt hef ég tíu milljón manns“ og á tímarit.is eru dæmin um milljón manns töluvert fleiri en um milljónir manns. Þarna virðist því vera tilhneiging til að meðhöndla milljón eins og það væri óbeygjanlegt orð, og sem slíkt tekur það þá auðveldlega með sér manns eins og aðrar óbeygjanlegar tölur, en myndin milljónir sem er augljóslega beygð er miklu tregari til þess.

Þá er eftir að skoða hundrað. Það orð er eingöngu til í hvorugkyni svo að viðurkennt sé, þótt kvenkynsfleirtalan hundruðir sé algeng. En öfugt við þúsund er það ekki eins í eintölu og fleirtölu – eintalan er hundrað en fleirtalan hundruð. Það kemur samt ekki í veg fyrir að manns sé notað með orðinu og talað um mörg hundruð manns. Hugsanlega skiptir máli að fleirtalan er hér aðeins táknuð með breytingu á áherslulausu sérhljóði í stofni en ekki með sérstakri endingu, en hér er ekki vettvangur til að fara út í vangaveltur um það.

Niðurstaðan er því sú að sé litið fram hjá hundrað er í máli margra – e.t.v. flestra – eingöngu hægt að nota manns með óbeygjanlegum tölum og tölum sem líta út fyrir að vera óbeygjanlegar (þúsund) eða eru hafðar óbeygðar (milljón). Hegðun orðsins er líka á margan hátt frábrugðin hegðun annarra nafnorða. Mér finnst spurning hvort ekki sé rétt að slíta manns frá orðinu maður og gera það að sérstöku uppflettiorði í orðabókum.