Er til rétt og rangt mál?

Ég sé því stundum haldið fram að ég hafni því að til sé „rangt mál“. Í gær var t.d. skrifað í athugasemd í hópnum Málspjall á Facebook: „Grunnhugmyndin hjá höfundi Málspjallsins virðist vera sú að ekkert sé "rétt" eða "rangt" svo fremi sem málnotkunin skiljist.“ En þetta er ekki rétt – ég hika ekki við að tala um rangt mál þar sem við á. Ég nota þessi hugtök í samræmi við þá hefð sem hefur skapast á undanförnum áratugum og fyrst var orðuð í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum árið 1986 – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju.“

Það sem skiptir hins vegar höfuðmáli í þessu sambandi, og ég hef margoft lagt áherslu á, er að iðulega er málvenjan ekki ein – málvenjur geta verið mismunandi eftir landshlutum, aldurshópum o.fl. Í slíkum tilvikum verður þá að telja fleiri en eitt tilbrigði rétt mál, og það er t.d. ekki vafi á því að mér langar, ég vill og það var barið mig er rétt mál hvað sem fólki kann að finnast um þessi dæmi. En í áðurnefndri álitsgerð er einnig bent á „að með málvenju er ekki átt við einstaklingsbundin tilbrigði í máli. Tiltekið atriði getur ekki orðið rétt mál við það eitt að einn maður temji sér það.“

Í álitsgerðinni er einnig bent á að það sé „í samræmi við meginstefnuna í málvernd að reyna að sporna gegn nýjum málsiðum með því að benda á að þeir séu ekki í samræmi við gildandi málvenjur.“ Þetta er það sem ég hef lagt áherslu á. Ef örlar á einhverri breytingu á framburði, beygingu, setningagerð, merkingu eða öðru í málnotkun er oft eðlilegt og æskilegt að reyna að kveða þá breytingu niður, áður en hún verður málvenja fjölda fólks. En ef breytingin á sér nokkra sögu og er orðin útbreidd er yfirleitt ástæðulaust, þýðingarlaust, vonlaust og vitlaust að reyna að berja hana niður.

Þarna verður þó að vega og meta hversu afdrifarík breytingin gæti orðið fyrir málkerfið. Færsla einstakra nafnorða milli beygingarflokka, og breytt fallstjórn einstakra sagna, eru dæmi um meinlausar breytingar sem eiga sér hundruð hliðstæðna í málsögunni. Það er eðlilegt að slíkar breytingar angri fólk sem fer að heyra og sjá önnur föll og aðrar beygingarmyndir en það er alið upp við – en þetta eru engin málspjöll og torvelda sjaldnast skilning. Öðru máli gegndi ef vísbendingar sæjust um grundvallarbreytingar á málkerfinu, t.d. að orð hættu að beygjast eða reglur um orðaröð breyttust.

Þótt vissulega sé hægt að finna einhver dæmi um slíkt er tæpast að sjá að þarna séu breytingar í uppsiglingu. En þótt svo væri hefði það lítið upp á sig að berjast gegn einstökum breytingum. Grundvallarbreytingar af þessu tagi, ef upp kæmu, mætti nefnilega að öllum líkindum rekja til of lítillar íslensku í málumhverfi barna og unglinga. Því meira sem við tölum við börn og unglinga, lesum fyrir þau og hvetjum þau til að lesa sjálf, ýtum undir að þau skrifi hvers kyns texta og noti málið sem mest á allan hátt, þeim mun sterkara verður málkerfi þeirra og þeim mun hægari verða breytingar á málinu.