Gæði

Oft eru gerðar athugasemdir við notkun orðsins gæði. Gísli Jóns­son sagði t.d. eitt sinn í þætti sínum um íslenskt mál í Morg­un­blaðinu: „Gæði eru gæði og geta, eðli sínu samkvæmt, ekki verið léleg, vond eða ill. Hins vegar getur varan, af­urð­irnar verið lélegar. Gæði geta verið mikil eða lítil eftir atvikum, en aldrei vond.“ Í Mál­farsbankanum segir: „Athuga muninn á merkingu ís­lenska orðsins gæði (skylt góður) og erlendu orðanna kvalitet, quality o.s.frv. sem borið geta fremur hlutlausa merkingu: eiginleikar. Í íslensku er unnt að tala um góða eiginleika en illa er talið fara á orðalaginu „góð gæði“ og „léleg gæði“. Fremur: mikil gæði, lítil gæði.“

Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 er ein skýring orðsins gæði einmitt 'Kvalitet'. En það er dálítið varasamt að leggja of mikla áherslu á hvað sé „rökrétt“ merking í orðinu gæði út frá lýsingarorðinu góður – líta svo á að gæði hljóti alltaf að fela í sér eitthvað „gott“. Er t.d. rétt að lýsa mikilli svifryksmengun sem litlum loftgæðum? Felst ekki í því að þar séu samt sem áður einhver loftgæði, þótt þau séu vissulega lítil? En er ekki málið að þarna eru engin gæði?

Það er vissulega hægt að tala um góða eiginleika eins og Málfarsbankinn segir, en því fer fjarri að orðið eigin­leikar geti alltaf komið í staðinn fyrir gæði. Það er t.d. ekki hægt að lýsa litlum loftgæðum með því að tala um *litla / *lélega / *vonda eiginleika loftsins. En greinilegt er að mjög mörgum finnst eðlilegt að nota orðið gæði á hlut­lausan hátt í merkingunni 'eigin­leikar'. Þannig eru 307 dæmi um léleg gæði á tímarit.is, það elsta frá 1943, og 152 í Risamálheildinni. Tengingin við góður virðist þó skipta máli í huga málnotenda – jákvæð lýsingarorð eru margfalt oftar notuð með því en neikvæð.

Þannig eru meira en 10 sinnum fleiri dæmi um mikil gæði en lítil gæði í Risamálheildinni, og sárafá dæmi eru um vond gæði, bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni. Fjöldi dæma er aftur á móti um góð gæði, en það er athyglisvert að þær myndir þar sem stofninn er annar, miðstigið betri og efsta stigið bestur, virðast mun frekar standa með gæði en frum­stigið góður, sem bendir til þess að nástaðan góð- gæð- trufli málnotendur eitthvað. Þó má minna á að Jónas Hall­grímsson orti um „gæðakonuna góðu“ þann­ig að sú teng­ing hindrar ekki alltaf nástöðu þessara til­brigða. Elsta dæmi um bestu gæði er í Iðunni 1860 – „Þeir sem koma frá Mekka og hafinu rauða flytja með sjer ind­versk­ar vör­ur og beztu gæði Arabalands“.

Orð hafa þá merkingu sem málsamfélagið gefur þeim, óháð uppruna. Það er enginn vafi á því að í máli mjög margra hefur orðið gæði hlutlausa merkingu, óháð lýs­ing­arorðinu góður, og fyrir slíku eru fjölmörg fordæmi. Fólk sem notar orðið þannig getur talað um léleg gæði, vond gæði, frábær gæði o.s.frv. Það er málvenja mjög margra, og fráleitt að kalla það rangt mál. Það getur ekki held­ur misskilist. Hins vegar getur sumum vitanlega fund­ist fara illa á því að tala um góð gæði og léleg gæði eins og segir í Málfarsbankanum. Það er smekksatriði sem hver málnotandi verður að meta fyrir sig.