Gæði

Oft eru gerðar athugasemdir við notkun orðsins gæði. Í Málfarsbankanum segir t.d.: „Athuga muninn á merkingu íslenska orðsins gæði (skylt góður) og erlendu orðanna kvalitet, quality o.s.frv. sem borið geta fremur hlutlausa merkingu: eiginleikar. Í íslensku er unnt að tala um góða eiginleika en illa er talið fara á orðalaginu „góð gæði“ og „léleg gæði“. Fremur: mikil gæði, lítil gæði.“ Gísli Jónsson sagði eitt sinn í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu: „Gæði eru gæði og geta, eðli sínu samkvæmt, ekki verið léleg, vond eða ill. Hins vegar getur varan, afurðirnar verið lélegar. Gæði geta verið mikil eða lítil eftir atvikum, en aldrei vond.“

Þrátt fyrir þetta er ljóst að þetta er í andstöðu við málnotkun mjög margra. Þannig eru 307 dæmi um léleg gæði á tímarit.is, það elsta frá 1943. Í Risamálheildinni eru 152 dæmi um léleg gæði en 577 um góð gæði. Það er því ljóst að orðið er iðulega notað hlutlaust í merkingunni 'eiginleikar'. Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 er ein skýring orðsins gæði einmitt 'Kvalitet'. Þótt gæði sé vissulega skylt góður er sú tenging ekki endilega rík í huga málnotenda. Þetta má t.d. bera saman við orðið von í sambandinu eiga von á. Mörgum finnst eðlilegt að tengja sambandið við sögnina vona, en allt frá því í fornu máli er hefð fyrir því að nota þetta samband í merkingunni 'búast við', óháð því hvort mælandinn vonar að eitthvað gerist.

Orð hafa þá merkingu sem málsamfélagið gefur þeim, óháð uppruna. Það er enginn vafi á því að í máli mjög margra hefur orðið gæði hlutlausa merkingu, óháð lýsingarorðinu góður, og fyrir slíku eru fjölmörg fordæmi. Fólk sem notar orðið þannig getur talað um léleg gæði, vond gæði, frábær gæði o.s.frv. Það er málvenja mjög margra, og fráleitt að kalla það rangt mál. Það getur ekki heldur misskilist. Hins vegar getur sumum vitanlega fundist fara illa á því að tala um góð gæði og léleg gæði eins og segir í Málfarsbankanum. Það er smekksatriði sem hver málnotandi verður að meta fyrir sig.