Kynhlutlaus nöfn

Á vef Vísis er hlekkjað á umræðu um kynhlutlaus nöfn í Bítinu á Bylgjunni á mánudagsmorgun, þar sem spurt er „Ganga kynhlutlaus nöfn upp málfræðilega?Á umræðunni var helst að skilja að svo væri ekki – það væru mikil vandkvæði á því að fella kynhlutlaus nöfn að íslensku máli. Fyrir því voru færð tvenns konar rök. Annars vegar að ekki væri ljóst hvernig ætti að beygja nöfn eins og Regn og Frost vegna þess að þetta væru hvorugkynsorð sem ættu að fá -s í eignarfalli – Regns og Frosts. Vandinn væri sá að ­-s er dæmigerð eignarfallsending karlkynsorða, þ. á m. karlmannsnafna (Böðvars, Halldórs) og því væri beyging kynhlutlausu nafnanna ekki nægilega greind frá beygingu karlkynsorða.

En þetta eru engin rök. Það eru auðvitað ótal dæmi um það í beygingakerfinu að endingar tveggja eða þriggja kynja falli saman án þess að það valdi nokkrum ruglingi. Ef -s er óheppileg eignarfallsending kynhlutlausra nafna vegna þess að hún er líka notuð í karlkyni hlýtur -ar einnig að vera óheppileg eignarfallsending í mannanöfnum vegna þess að hún er notuð bæði á karlmannsnöfn (Guðmundar, Sigurðar) og kvenmannsnöfn (Guðrúnar, Sigríðar). Einnig má benda á að mannsnafnið Sturla beygist eins og það væri kvenkynsorð (Sturlu í aukaföllum, eins og HelgaHelgu) en enginn velkist samt í vafa um að Sturla er karlmannsnafn.

Önnur vandkvæði sem nefnd voru á notkun kynhlutlausra nafna voru þau að ekki væri ljóst hvernig ætti að nota þau í kenninöfnum. Í frumvarpi um breytingar á mannanafnalögum sem lægi fyrir Alþingi hefði verið stungið upp á því að nota orðið bur í kenninöfnum, en það væri ótækt vegna þess að það væri karlkynsorð sem merkti 'sonur'. Þarna kom ekki fram það grundvallaratriði að bur er þegar komið inn í gildandi lög um mannanöfn. Þeim var breytt samhliða gildistöku laga um kynrænt sjálfræði og þar stendur nú í 8. grein: „Einstaklingi sem hefur hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá er heimilt að nota nafn föður eða móður í eignarfalli án viðbótar eða að viðbættu bur.“ Þegar er farið að skrá kenninöfn með -bur í Þjóðskrá.

Orðið bur er komið af sögninni bera og rótskylt mörgum orðum af sama merkingarsviði – barn, (barns)burður, (tví)buri o.fl. Hugmyndin að því að endurvekja orðið í nýju hlutverki kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna 78 árið 2015, og þetta var ein af þeim tillögum sem dómnefnd keppninnar mælti sérstaklega með. Orðið merkti vissulega 'sonur' í fornu máli en er ekkert er því til fyrirstöðu að víkka merkingarsvið þess aðeins og láta það merkja 'afkvæmi'. Þótt orðið sé upphaflega karlkynsorð er gert ráð fyrir að í þessu nýja hlutverki sé það haft í hvorugkyni, enda fellur hljóðfræðileg gerð þess vel að því.

Vitaskuld getur slík breyting á orði sem fyrir er í málinu, þótt smávægileg sé, orkað tvímælis. En hér skiptir máli að orðið hefur alla tíð verið ákaflega sjaldgæft – í safni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn sem tekur til óbundins máls eru aðeins sex dæmi um það, og þó í raun aðeins fjögur því að í tveimur tilvikum er um sömu setningu að ræða í tveimur textum. Annars var orðið einkum notað í bundnu máli, og í seinni tíma máli kemur það ekki fyrir nema í skáldskap – dæmið sem alltaf er vitnað í er Ingólfur Arnar bur í kvæði Matthíasar Jochumssonar, „Minni Ingólfs“. Þessi merkingarvíkkun ætti því ekki að valda ruglingi.

Það á sér líka vel þekkt og viðurkennd fordæmi að taka orð úr eldra máli sem ekki eru lengur notuð og gefa þeim nýja – en yfirleitt skylda – merkingu. Orðið skjár merkti áður 'gegnsæ himna í glugga, notuð í stað rúðu'. En eftir að gluggar af því tagi urðu úreltir var orðið lítið notað. Upp úr 1970 var svo stungið upp á því að nota orðið í stað tökuorðsins skermur eða skermir sem hafði verið notað sem þýðing á screen – talað var um bæði sjónvarpsskerm(i) og tölvuskerm(i). Þetta orð sló strax í gegn þrátt fyrir andstöðu og nú er skermur nánast horfið úr málinu í þessari merkingu – þótt enn sé talað um lampaskerma.

Annað og enn þekktara dæmi um endurnýtt orð er sími sem var til en mjög sjaldgæft í fornu máli, einkum í hvorugkynsmyndinni síma, og merkti 'band, þráður'. Skömmu fyrir aldamótin 1900 var stungið upp á því að nota þetta ónýtta orð yfir nýjungina telefón sem Íslendingar voru þá farnir að frétta af þótt fyrirbærið hefði enn ekki borist til landsins. Ákveðið var að orðið skyldi vera karlkynsorð og merkingunni hliðrað aðeins til – sem lá beint við á þessum tíma þegar megineinkenni símans var einmitt þráðurinn, símalínurnar sem voru lagðar milli landa og um allt land. Þetta orð sló líka fljótlega í gegn og telefón hvarf að mestu úr notkun á öðrum áratug 20. aldar.

Spurningunni „Ganga kynhlutlaus nöfn upp málfræðilega?“ er því auðvelt að svara játandi. En vegna þess hve íslenska er kynjað mál er þessi breyting ekki að öllu leyti einföld, hvorki fyrir tungumálið né notendur þess – hún krefst þess að við hugsum ýmislegt upp á nýtt, tökum upp ný orð, hliðrum til merkingu gamalla orða og losum okkur úr viðjum vanans, í stað þess að sjá öll tormerki á því að breyta til. Hversu vænt sem okkur þykir um íslenskuna – eða öllu heldur, vegna þess að okkur þykir vænt um íslenskuna – þurfum við að muna að hún á að þjóna okkur, ekki við henni. Ef hún lagar sig ekki að samfélaginu á hverjum tíma og þjónar því – þjónar okkur öllum – er hún dauðadæmd.