Að lesa sig/sér til

Ég sá í Málvöndunarþættinum innlegg þar sem höfundur sagðist vera nýbúinn að sjá á Facebook þrjú dæmi um sambandið lesa sig til um eitthvað í stað lesa sér til um eitthvað og var að velta því fyrir sér hvort þetta gæti verið rétt. Öllum sem þátt tóku í umræðunni fannst þetta framandi og könnuðust ekki við að hafa heyrt það eða séð. Ég segi það sama – ég þekki þetta aðeins með þágufalli, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið eingöngu gefið með þágufalli, lesa sér til um <viðfangsefnið>. Mér fannst samt ástæða til að kanna þetta nánar.

Í Risamálheildinni reyndust vera 200 dæmi um lesa mig / þig / sig til, og á tímarit.is voru dæmin hátt á þriðja hundrað. Dæmin um þágufallið eru vissulega 15-20 sinnum fleiri, en samt sem áður er þetta umtalsverður fjöldi, þolfallsdæma, a.m.k. 400 (einhver dæmanna í Risamálheildinni og á tímarit.is eru sennilega þau sömu). Það er því ekki hægt að afgreiða þolfallið sem einhvers konar mistök eða villu. Þetta er ekki heldur nýtt – elsta dæmið sem ég fann var frá 1941, 80 ára gamalt. Elsta dæmið um þágufallið er talsvert eldra, frá 1907, en sambandið er sjaldgæft lengi framan af – það er ekki fyrr en upp úr 1970 sem tíðni þess fer að aukast.

Þetta er gott dæmi um það sem ég hef oft nefnt, að netið og samfélagsmiðlar draga fram ýmis tilbrigði í málinu sem við höfum ekki veitt athygli. Það er nefnilega alls óvíst að við tökum eftir því hvort viðmælandi okkar notar þolfall eða þágufall í ég las m* til um þetta eða hún las s* til um þetta. Fornafnið mig / mér eða sig / sér er þarna í áherslulausri stöðu og í samfelldu tali verður það oft ógreinilegt, nema fyrsta hljóðið sem er það sama í þolfalli og þágufalli. Það er líka eitt grundvallaratriði í talskynjun okkar að geta í eyðurnar – við heyrum það sem við búumst við að heyra, gerum ráð fyrir að viðmælandinn noti málið á sama hátt og við. En í rituðu máli kemur munurinn vitanlega fram.

Það er sem sé löng hefð fyrir bæði þolfalli og þágufalli í þessu sambandi og engin ástæða til að kalla annað rétt en hitt rangt. Við þurfum að viðurkenna og sætta okkur við að fjöldi fólks notar málið öðruvísi en við. Það þýðir ekki að við þurfum að breyta okkar málnotkun – tungumálið þolir alveg tilbrigði.