nýleglegur

Algengasta viðskeyti málsins er -legur og er notað til að mynda lýsingarorð sem flest fela í sér mat mælandans. Þegar við segjum að eitthvað sé fallegt, glæsilegt, ellilegt, ömurlegt, kjánalegt, hlægilegt, hrikalegt, unglegt, trúlegt, líklegt o.s.frv. erum við að segja skoðun okkar frekar en segja frá staðreyndum, eins og sést á því að við getum sagt mér finnst þetta fallegt / glæsilegt o.s.frv. Þess vegna er hægt að neita þeim eða nota orð andstæðrar merkingar um sama frumlag í sömu setningu án þess að úr því verði mótsögn. Það er hægt að segja þetta er trúlegt en það reynist samt ekki vera satt, hún er ungleg þótt hún sé orðin miðaldra, o.s.frv. En öðru máli gegnir um það sem er nýlegt.

Þegar við segjum þetta er nýlegt hús erum við ekki að leggja mat á aldur hússins út frá útliti þess, ekki að segja að það líti út fyrir að vera nýtt, heldur setja það fram sem staðreynd að stutt sé síðan húsið var byggt. Þess vegna er ekki hægt að segja *mér finnst húsið nýlegt, eða neita orðinu án þess að úr verði mótsögn – *húsið er nýlegt þótt það sé orðið gamalt. Þetta er auðvitað algengt orð sem við þekkjum vel, og vitum alveg hvað átt er við þegar sagt er að eitthvað sé nýlegt. Það truflar okkur því yfirleitt ekki þótt orðið skeri sig þannig úr öðrum orðum með sama viðskeyti – nema þegar við þurfum að tala um eitthvað sem lítur út fyrir að vera nýlegt án þess að við viljum fullyrða nokkuð um aldur þess.

Það var einmitt það sem ég lenti í á Þingvöllum í dag. Þar eru timburstígar um allt, en ég rak augun í einn sem ég mundi ekki eftir að hafa séð áður og taldi líklegt að væri nýlegur. Það er samt svo langt síðan ég kom síðast til Þingvalla að ég taldi mig ekki geta fullyrt neitt um aldur stígsins. Hins vegar var timbrið í honum ljósara og ekki eins veðrað og í öðrum stígum þannig að hann leit vissulega út fyrir að vera nýr. Hvað á maður þá að segja? Mér hefur lengi fundist vanta orðið nýleglegur í merkingunni 'sem lítur út fyrir að vera nýlegur'. Það er að vísu ekki venja í málinu að nota sama viðskeytið tvisvar í röð, en nýleglegur nær samt einmitt merkingunni sem ég var að leita að. Er það ekki bara ágætt orð?