Á fyrsta maí

Þegar talað er um að eitthvað hafi gerst tiltekinn hátíðis- eða merkisdag er oftast notuð forsetningin á þetta gerðist á aðfangadag / á nýársdag / á skírdag / á annan í hvítasunnu / á þjóðhátíðardaginn o.s.frv. Þegar vísað er til tiltekinnar dagsetningar er aftur á móti ekki notuð forsetning, heldur er dagsetningin höfð í þolfalli (svokölluðu tímaþolfalli) – þetta gerðist tuttugasta desember / þrettánda mars / þriðjudaginn fyrir páska o.s.frv. Það hljómar undarlega að segja þetta gerðist á tuttugasta desember / á þrettánda mars / á þriðjudaginn fyrir páska o.s.frv.

Sama gildir yfirleitt ef við vísum til hátíða og merkisdaga með dagsetningu – við segjum þetta gerðist tuttugasta og fjórða desember / fyrsta janúar en ekki á tuttugasta og fjórða desember / á fyrsta janúar. En þetta er þó ekki algilt. Í Vísi 1957 segir „Á morgun munu kommúnistar vafalaust þruma yfir landslýðnum eins og venjulega á 1. maí“, í Þjóðviljanum 1948 segir „Kunnugur segir mér, að í fyrra (á 17. júní) hafi gróður þarna verið eyðilagður svo nemur tugum þúsunda að vinnuverðmæti“, og í Speglinum 1952 segir „Fyrst var landhelgissérfræðingur vor, dr. Gunnlaugur Þórðarson, fenginn til að tala á 1. des. um sérgrein sína, en svo hvarf hann af dagskrá“.

Það virðist þó ekki hafa orðið algengt fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar að segja á fyrsta maí, á sautjánda júní og á fyrsta desember, og þá var farið að amast við þessu og segja að dagsetningar ættu ekki að taka með sér forsetninguna á. Gísli Jónsson tók þetta oft fyrir í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu og sagði t.d. í þætti 1990: „Við skulum reyna að halda tímaþolfallinu sautjánda júní, fyrsta desember og fyrsta maí forsetningarlausu. Það er sígilt, gott og sómasamlegt mál.“ Því hefur jafnvel verið haldið fram að þetta séu ensk áhrif. En þetta er misskilningur – þarna er ekki um að ræða venjulegar dagsetningar.

Þótt þessir merkisdagar hafi opinbert heiti eins og baráttudagur verkalýðsins, þjóðhátíðardagurinn og fullveldisdagurinn er dagsetningin samt helsta einkenni þeirra. Hún verður því ígildi heitis og þess vegna er eðlilegt að hún taki með sér forsetninguna á eins og heiti annarra hátíðis- og merkisdaga. Þegar umræddar dagsetningar eru notaðar eins og hverjar aðrar, án sérstakrar tilvísunar til þess sem gerir þær sérstakar, taka þær ekki með sér á. Þótt hægt sé að segja ég fór í kröfugöngu á fyrsta maí yrði síður sagt ég á afmæli á fyrsta maí. Í fyrra tilvikinu tengist athöfnin því sem gerir fyrsta maí að sérstökum degi, en í seinna tilvikinu ekki og þess vegna er mun óeðlilegra að hafa á þar.

Stundum er líka talað um þjóðhátíðardaginn sem sautjándann – Gísli Jónsson kallaði það „lágkúrulegt málfar“ í Morgunblaðinu 1991. Það er þó löng hefð fyrir því að tala um þrettánda dag jóla sem þrettándann, með greini – í Fjölni 1838 segir t.d. „Að vísu gjörði um þrettándann fádæma hörkur og harðviðri“. Það var því viðbúið og eðlilegt að fljótlega eftir að 17. júní varð þjóðhátíðardagur Íslendinga væri farið að tala um sautjándinn – elsta dæmi sem ég finn um það er fyrirsögnin „Sautjándinn í Eyjum“ í Alþýðublaðinu 1962. Mér finnst það miklu fremur kumpánalegt en lágkúrulegt og sýna að þjóðhátíðardagurinn er ekki fyrir einhverja útvalda heldur eign okkar allra.

Það er því ekkert athugavert við að segja að eitthvað hafi gerst á fyrsta maí eða á sautjándanum – bæði notkun forsetningarinnar á með áðurnefndum merkisdögum og heitið sautjándinn á þjóðhátíðardeginum á sér skýrar hliðstæður í málinu.