Að versla sér mat

Sögnin versla er með algengari sögnum málsins. Í orða­bókum um nútímamál er hún skýrð 'kaupa og selja; eiga í viðskiptum', en í Íslenskri orðabók er reyndar bætt við merkingunni 'gera innkaup' og dæminu „versla ‹sér› e-ð“ en það er merkt með !? sem merkir að það njóti ekki fullrar viðurkenningar. Það fellur vel að því sem segir í Mál­farsbankanum: „Mælt er með því að segja: kaupa inn, kaupa vörur, kaupa sér vörur. Síður: „versla inn“, „versla vörur“, versla sér vörur“. Hins vegar: versla með vörur, versla við einhvern." En ýmsar forvitnilegar breytingar hafa orðið á hegðun sagnarinnar á síðustu 100-150 árum.

Á 19. öld tók sögnin oft andlag, en það var í þágufalli en ekki þolfalli. Í Íslenzkum sagnablöðum 1817 segir: „Einn­ig skal þad leifiligt skipum þeim er med leidibréfi koma tilbaka frá Stórbretalandi ad verzla vörum þeim er þau hafa medferdis.“ Í Austra 1886 segir: „Í bænum Caen í Normandíi er stórt torg sem ungar stúlkur sækja til, er þær vilja verzla hárinu í peninga.“ Yngstu dæmi sem ég hef fundið um versla með þágufallsandlagi eru frá fyrstu áratugum 20. aldar, þ. á m. „Mamma! heldur þú að þú vildir versla ullinni minni fyrir mig?“ í Hlín 1927.

Svolítið annars eðlis eru dæmi úr Önnu frá Stóruborg eftir Jón Trausta: „Ég átti að láta versla mér burt fyrir silfur og gull og nokkur hundruð í jörðum!“, og úr Upp við fossa eftir Þorgils gjallanda: „Keypti ær fyrir hey­verð­ið frá Brandi og verslaði öllu, sem hann komst yfir, til fjárkaupa. “ Í þessum dæmum merkir sögnin ekki 'kaupa og selja', heldur ein­ungis 'selja'. Þetta samræmist skýr­ingum sagnarinnar í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þar sem bæði er gefin merkingin 'handle, drive Handel' og „v[ersla] e-u, handle med n-t, sælge n-t“. Þó er alltaf miklu algengara að sögnin taki með sér for­setningarlið – versla með (eitt­hvað) eða versla við (ein­hvern).

Vissulega má benda á að langt fram eftir 19. öld var nánast eingöngu um vöruskiptaverslun að ræða – fólk lét af hendi einhverjar vörur en fékk aðrar í staðinn. Þannig má segja að þegar talað er um að versla vörum sé hvor aðili um sig bæði kaupandi og seljandi, og því mætti halda fram að sögnin merki þarna 'kaupa og selja', ekki bara 'selja'. En það er samt greinilegt að í dæmunum hér að framan er alltaf horft á viðskiptin frá sjónarhóli selj­and­ans, og stundum kemur líka fram að ekki er um vöruskipti að ræða, eins og þegar talað er um að „verzla hárinu í peninga“. Það er því eðlilegt að líta svo á að í um­ræddum dæmum hafi versla merkinguna 'selja'.

Setningagerðirnar sem Málfarsbankinn telur óæskilegar, versla inn, versla vörur, versla sér vörur, og einnig t.d. versla í matinn, virðast vera frekar nýtilkomnar, og elstu dæmi sem ég finn um þær allar eru frá svipuðum tíma, kringum 1980, en dæmum fjölgar mjög ört. Í Lyst­ræningjanum 1977 segir „Konan elskar semsé að versla sér tuskur.“ Í Vikunni 1978 segir „Við ferðumst mjög mikið, verslum inn frá Frakklandi, Ítalíu, Finnlandi, Dan­mörku, Englandi, Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi og Hol­landi.“ Í Morgunblaðinu 1978 segir „Hann er t.d. [...] að verzla í matinn.“ Í Morgunblaðinu 1981 segir „Nú getur fólk komið í Sýningahöllina og verslað vörur á hlægilega lágu verði.“

Þarna koma fram bæði setningafræðilegar og merk­ingar­legar nýjungar. Sögnin er aftur farin að taka með sér and­lag, nú í þolfalli – versla vörur. Hún getur meira að segja tekið tvö andlög, þágufall og þolfall – versla sér vörur. Þar að auki getur hún nú tekið með sér atviksorðið (ögn­ina) inn. Merkingarlega nýjungin er sú að í þessum dæm­um merkir versla ekki 'selja', og ekki heldur 'kaupa og selja', heldur bara 'kaupa'. Það er samt ekki svo að amast sé við öllum dæmum um að versla merki 'kaupa'. Þegar ég segist versla við einhvern eða versla hjá einhverjum er ég að kaupa eitthvað, ekki selja, og sama gildir þegar ég segist vera að fara að versla.

Það er því ljóst að ýmis tilbrigði hafa verið í notkun sagn­ar­innar versla, bæði setningagerð og merkingu – á 19. öld tekur hún stundum með sér þágufallsandlag og merkir 'selja', á 21. öld tekur hún stundum með sér þolfallsandlag og merkir 'kaupa'. Fólk verður svo sjálft að gera upp við sig hvaða skoðun það hefur á versla (sér) vörur, versla inn og versla í matinn. Það er komin a.m.k. 40 ára hefð á þessa notkun sagnarinnar, hún er mjög al­geng, og veldur varla misskilningi. Vilji fólk frysta íslenskuna eins og hún var um miðja 20. öld eða fyrr er svo sem hægt að ergja sig á þessu, en þetta eru engin málspjöll.