Að yrkja á ensku

Í Facebook-hópnum Málspjall var í gær hlekkjað á frétt um nýja ljóðabók sem ungur Íslendingur hefur gefið út á ensku. Sá sem setti þetta inn sagði að þarna kæmu fram „áhugaverð viðhorf … til íslensku og ensku“ og ég tók undir það og sagði að þetta væri „umhugsunarvert“. Af þessu spratt heilmikil umræða sem aðallega snerist um enskukunnáttu Íslendinga og ekki síst ofmat þeirra á eigin enskukunnáttu. Ég hef oft skrifað um þetta og fannst þetta góð og að mestu málefnaleg umræða þótt ég þyrfti að taka út eina óviðeigandi athugasemd. Höfundur ljóðabókarinnar kom líka inn í umræðuna og skýrði afstöðu sína ágætlega.

Það má vissulega velta því upp hvort þessi umræða hafi verið við hæfi í ljósi þess að hún spratt af því að nafngreindur höfundur yrkir á ensku en ekki íslensku. Í þessum hópi hefur verið lögð áhersla á að ræða ekki málfar tiltekinna einstaklinga, nema þá til að hrósa því, og ég hef stundum tekið út innlegg og athugasemdir þar sem þessi regla er brotin. En eftir íhugun var það mitt mat að svo væri ekki í þessu tilviki. Að því marki sem umræðan snerist um höfund ljóðabókarinnar var það ekki til að ræða málfar hans, heldur viðhorf – og ekki til að gagnrýna þau, heldur ræða á hverju þau byggðust. Það er ekki bannað að ræða afstöðu og viðhorf fólks í hópnum, þótt það þurfi vitanlega að gera af fyllstu kurteisi.

Vitanlega eigum við að taka því fagnandi þegar ungt ljóðskáld kemur fram á ritvöllinn, og umræðan um ljóðabókina á vitanlega að snúast um kosti ljóðanna og galla, ekki tungumálið sem þau eru ort á. En það er hins vegar ekkert óeðlilegt að það veki spurningar þegar ungt skáld sem er alið upp í íslensku málumhverfi kýs að yrkja á ensku. Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort ástæðan sé að einhverju leyti ríkjandi viðhorf til íslensku og ensku í samfélaginu, aðferðir við íslenskukennslu í skólum, ofmat fólks á eigin enskukunnáttu, o.s.frv. Hvað sem um það má segja er ljóst að unga fólkið ber ekki ábyrgð á því heldur við sem eldri erum.