Enska í Stúdentakjallaranum

Aldrei þessu vant nenntum við ekki að elda í kvöld og röltum í Stúdentakjallarann til að fá okkur hamborgara. Þar blasir þetta skilti við í dyrunum. Ég á svo sem ekki von á að það vefjist fyrir neinum af gestum kjallarans að skilja skiltið þótt það sé eingöngu á ensku, en það gerir málið bara verra – vegna þess að allir skilja þetta gerir enginn athugasemd. Við erum orðin ónæm fyrir því að enskan umlykur okkur sífellt meir.

Ég veit vel að margir af gestum kjallarans eru erlendir stúdentar sem ekki skilja íslensku og það er sjálfsagt mál að hafa upplýsingar á ensku – ásamt íslensku, en ekki í stað hennar. Þetta er í fullkominni andstöðu við málstefnu Háskólans. Ég veit líka að það er Félagsstofnun stúdenta sem rekur Stúdentakjallarann og málstefnan tekur ekki til hennar, en mér finnst samt að stofnunin ætti að sjá sóma sinn í því að fara eftir henni. Skólans vegna.

Þetta er skýrt en dapurlegt dæmi um það hugsunar- og skeytingarleysi sem ríkir í garð íslenskunnar, jafnvel þar sem síst skyldi. Ef við höfum ekki áhuga á og metnað til að nota íslensku þar sem því verður við komið, og þar sem það kostar ekkert, kemur fyrir lítið þótt miklu fé sé varið í að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni tækni, eða í íslenska dagskrárgerð, eða íslenska bókaútgáfu. Svona er einfaldlega til skammar.