Barátta við vindmyllur

Þegar maður skoðar málfarspistla í dagblöðum frá miðri síðustu öld og jafnvel eldri vekur athygli hvað flest af því sem þar er kvartað yfir er kunnuglegt – það er verið að amast við því enn í dag. Þetta á við um t.d. „þágufallssýki“, ég villverslunin opnarkeyptu þetta, og fjölmargt fleira. Vissulega hafa ýmis aðfinnsluatriði bæst við, svo sem „nýja þolmyndin“, spá í þessudingla bjöllu o.fl., en samfellan í þessu er samt ótrúlega mikil.

Þetta sýnir tvennt. Annars vegar að baráttan gegn þessum tilbrigðum hefur litlu skilað á 70-80 árum og er því væntanlega vonlítil – barátta við vindmyllur. Hins vegar er ljóst að fjöldi fólks, nokkrar kynslóðir, hefur alist upp við þau tilbrigði sem barist er gegn – þau eru þá málvenja þess fólks og hljóta því að teljast „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“

Á undanförnum mánuðum hef ég skrifað hér pistla um milli 40 og 50 tilbrigði sem talin eru „rangt mál“ eða óæskilegt samkvæmt hinum óopinbera íslenska málstaðli. Í þessum pistlum hef ég fært rök að því að þessi tilbrigði feli ekki í sér neinar grundvallarbreytingar á málinu, séu engin málspjöll, og ættu að njóta fullrar viðurkenningar sem „rétt mál“ samkvæmt skilgreiningunni sem vitnað er til hér að framan – ættu að fara inn í málstaðalinn sem val, vitanlega ekki sem hið eina rétta.

Það er samt ekkert aðalatriði fyrir mér að breyta skoðunum fólks á þessum tilbrigðum, og ég er vitanlega ekki að mælast til þess að fólk breyti máli sínu. Hins vegar finnst mér mikilvægt að fræða fólk um tilbrigðin, uppruna þeirra og ástæður, þannig að fólk geti sjálft lagt mat á þau. Skýringalausar leiðréttingar eins og „Sagt var: Þau eru góð við hvort annað. Rétt væri: Þau eru góð hvort við annað“ eru eitur í mínum beinum, skila engu og vinna beinlínis gegn íslenskunni að mínu mati.