Hvorki Kasper né Jesper né Jónatan

Í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar segir: „Sumar fleiryrtar samtengingar eru stundum fleygaðar af öðrum orðum, einu eða mörgum. Þær nefnast fleygaðar samtengingar.“ Björn gerir ráð fyrir fimm fleyguðum aðaltengingum – það eru bæði – og, hvorki – né, annaðhvort – eða, hvort – eða, ýmist – eða. Í Málfarsbankanum segir að bæði – og „aðeins hægt að nota þegar um tvo liði er að ræða“ og annaðhvort – eða „aðeins hægt að nota þegar um tvo möguleika er að ræða“.

Það liggur þó fyrir að flestar þessar tengingar eru iðulega notaðar til að tengja fleiri en tvo liði. Þegar um bæði – og er að ræða eru tveir fyrri liðirnir þá stundum ótengdir hvor á eftir öðrum, með kommu á milli í rituðu máli, en og kemur á undan síðasta liðnum – ég keypti bæði appelsínur, epli og banana. En einnig er hægt að tvítaka og, hafa það bæði á undan öðrum og þriðja lið. Um það eru fjölmörg dæmi þegar í fornu máli – í Heimskringlu segir t.d. „Jómsvíkingar börðust bæði hraustlega og djarflega og snarplega“.

Ekki nóg með það, heldur er hægt er að bæta fleiri liðum við með því að hafa og á undan hverjum þeirra. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir t.d. „hann var bæði sterkur og stórvirkur og umskiptasamur og illskiptinn“ og í Heimskringlu segir „Var skipið bæði langt og breitt og borðmikið og stórviðað“. Ég veit ekki hvaða efri mörk eru á fjölda liða sem hægt er að tengja saman á þennan hátt, en í grein eftir Pétur Gunnarsson rithöfund í Morgunblaðinu 2007 segir: „En vonandi verður þá bæði skrifað og spilað og leikið og málað og ort.“ Þetta er fullkomlega eðlileg setning þótt þarna séu fimm liðir tengdir saman og og fjórtekið.

Sama gildir um annaðhvort – eða. Það er enginn vandi að nota þá tengingu til að tengja fleiri en tvo liði með því að endurtaka eða á undan hverjum lið. Eitt slíkt dæmi er að finna í Grettis sögu: „Leitaði hann allra bragða nú að stíga yfir Gretti, annaðhvort með harðfengi eða brögðum eða á hvern hátt er hann gæti það gert.“ Í Risamálheildinni eru yfir 300 dæmi um tvítekningu eða, þ. á m. úr formlegum yfirlesnum textum eins og Alþingisræðum, lagatextum og Hæstaréttardómum.

Fáein dæmi eru um að eða sé þrítekið, eins og í ræðu á Alþingi 2004: „þá var bent á nokkrar leiðir sem væru hyggilegar fyrir þessar stofnanir, annaðhvort aukin samvinna eða sameiginleg yfirstjórn eða óbreytt ástand eða allsherjarsameining í eina stofnun“. Ég hef hins vegar ekki fundið nein dæmi um fjórtekið eða með annaðhvort, en slík dæmi finnast um ýmist – eða, t.d. í Morgunblaðinu árið 2000: „þeir gera mig ýmist leiðan eða áhyggjufullan eða reiðan eða graðan eða einmana“.

Ekki nóg með það. Sama gildir um hvorki – né – það er hægt að tengja fleiri en tvo liði saman með því að endurtaka . Í Heimskringlu segir t.d. „hann vill hvorki korn né malt né mjöl þaðan í brott láta“. Í þýðingu Kristjáns frá Djúpalæk á söng ræningjanna í Kardimommubænum segir: „Þó tökum við aldregi of eða van, hvorki Kasper né Jesper né Jónatan.“ Það eru líka dæmi um þrítekningu : Í Prédikaranum í Biblíunni segir „í dánarheimum, þangað sem þú ferð, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska“.

Það er því ljóst að á öllum tímum hafa fleyguðu aðaltengingarnar verið notaðar til að tengja fleiri en tvo liði. Í nútímamáli má finna dæmi um að þetta sé gert í formlegum textum og í verkum virtra rithöfunda. Þetta er fullkomlega eðlilegt mál sem engin ástæða er til að amast við.