Afkynjun íslenskunnar?

Ég verð alltaf dálítið dapur þegar umræða hefst um meinta „afkynjun“ íslenskunnar. Dapur vegna þess að þessi umræða leiðir í ljós fullkomið skilningsleysi margra á því sem liggur að baki vilja til breyttrar málnotkunar. Dapur vegna þess hve umburðarlyndi margra gagnvart máli, málnotkun og máltilfinningu annarra er af skornum skammti. Dapur vegna þess hvernig sjálfskipaðir málsvarar íslenskunnar gera andstæðingum sínum upp skoðanir og fyrirætlanir. Dapur vegna þess að þessi umræða leiðist alltaf út í gífuryrði og tal um „offors“, „fólskulega árás á íslenskt mál“, „uppvöðslusemi sjálfskipaðra umbótaaðila“, „skipulagða skemmdarverkastarfsemi gegn tungumálinu“ o.s.frv.

Ég er ekki og hef ekki verið sérstakur talsmaður þess að breyta tungumálinu á einhvern ákveðinn hátt og hef enga trú á því að einhver fyrirmæli um slíkt að ofan hafi einhver áhrif. En ég skil hvað liggur að baki vilja margra til að ákveðnar breytingar verði á tungumálinu. Þar er ekki um að ræða einhverja misskilda jafnréttisbaráttu, heldur tilfinningu margra kvenna og kynsegin fólks fyrir því að orðið maður og samsetningar af því, sem og karlkynsmyndir lýsingarorða í kynhlutlausri notkun, höfði ekki til þeirra. Ég hef fulla trú á því að þarna sé um að ræða sanna og einlæga tilfinningu, og hef engar forsendur til að efast um það. Og mér finnst að við eigum að sýna þessari tilfinningu skilning.

Það má svo deila um það hvort og hvernig og að hvaða marki hægt sé og rétt að koma til móts við þessa tilfinningu. Við því hef ég engin góð svör. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar í þessa átt, m.a. í Ríkisútvarpinu, og fólk greinir á um réttmæti þeirra. Það er allt í lagi og eðlilegt. En að tala um þetta sem „nýlensku“, „geldingu tungumálsins“, „afkynjun íslenskunnar“, tilraun til að „svipta tungumálið okkar fegurð sinni og þokka“, sem beri vott um „einstrengingslegan hugsunar­hátt og al­geran skort á máltilfinningu“ og snúist „ekki um jafn­réttis­bar­áttu heldur ýmist um of­stæki, sýndar­mennsku eða ótta við álit þrýsti­hópa“ – það er einfaldlega út í hött.

Tungumálinu er ekki hægt að breyta – það getur hins vegar breyst. Ég held að sama hvað við þrætum á Facebook eða í fjölmiðlum, og sama hvað Ríkisútvarpið gerir, muni íslenskan breytast nokkuð hratt í átt til kynhlutleysis á næstu árum. Ég held að ungt fólk sé töluvert opnara fyrir því en við sem eldri erum. Ég fæ hins vegar ekki betur séð en mörg þeirra sem býsnast sem mest yfir því að verið sé að heimta að fólk breyti máli sínu séu einmitt sama fólkið og finnst sjálfsagt að krefjast þess að fólk sem er alið upp við að segja mér langar, ég vill, það var barið mig, opna hurðina o.s.frv. breyti máli sínu. Það er eiginlega grátbroslegt.